Föstudagur, 14. september 2007
Smáríki í klemmu stórveldahagsmuna
Stórveldi nota smáríki sem vettvang til að sýna styrk og prófa sig áfram. Beinar deilur milli stórvelda eru hættulegar vegna þess að svigrúm til athafna er takmarkað. Ef Rússar gerðu kröftugt tilkall til Alaska væru þeir strax komnir í valþröng. Ef þeir fengju ekki kröfum sínum framgengt myndu Rússar tapa orðspori sem stórveldi.
Öðru mál gegnir um smáríki, þar sem hægt er að leika ýmsa biðleiki. Þar er hægt að láta reyna á styrk sinn einkum þegar stórveldin eiga ekki beina aðild að málinu heldur skjólstæðingar þeirra. Serbar eru andvígir sjálfstæði Kosovo og óttast að það verði fyrsta skrefið að sameiningu við Albaníu. Rússar styðja Serba.
Bandaríkjamenn styðja Albani. Bush, sem fyrstur Bandaríkjaforseta heimsótti Albaníu í sumar, lofaði að beita sér fyrir sjálfstæði Kosovo. Evrópusambandið er tvístígandi. Þjóðverjar hafa undanfarið bætt samskiptin við Rússa og vilja ekki styggja þá. Nýlegt samkomulag um gassölu gæti verið í hættu.
Rússar hafa hótað, að verði ekki tekið tillit til þeirra í Kosovo, muni þeir beita sér fyrir ríkjastofnun rússneskumælandi minnihlutahópa í Georgíu og Moldavíu. Í þessum fyrrum ríkjum Sovétríkjanna, einkum í Georgíu, hafa Bandaríkjamenn kappkostað að koma ár sinni vel fyrir borð og myndu illa þola innanlandsátök.
Að breyttu breytanda er Kosovo-deilan nauðalík þjarkinu um landamærin á Balkanskaga í byrjun síðustu aldar sem leiddi til fyrri heimsstyrjaldar. Evrópusambandið hefur engu breytt um það hvernig stórveldapólitík er keyrð áfram. Machiavelli er mun betri vegvísir um valdapólitík en glassúrpappírarnir sem skrifaðir eru í Brussel.
Evrópusambandi er risavaxið skrifræði sem vill ákveða sveigjuna sem á að vera á agúrkum en þegar kemur að fullveldisvandamálum smáríkja breytist risinn í huglausan dverg sem ekkert getur eða kann.
En, vel að merkja, ef við göngum í Evrópusambandið verður auðveldara að versla á netinu, eins og einn höfuðsnillingur Evrópuáróðursins á Íslandi orðaði það svo eftirminnilega nýverið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.