Miðvikudagur, 12. september 2007
Lágkúran í litlu landi
Stórmennin á Íslandi vilja breyta landinu til að það samrýmist betur hagsmunum og sjálfsímynd nýríkra. Markmið þeirra er að gera Ísland að þjálli einingu í alþjóðaviðskiptum. Krónan er fyrsta skotmarkið, fullveldið kemur næst og þar á eftir tungumálið. Allt eru þetta hindranir á vegi viðskiptavæðingar lands og þjóðar.
Áætlanir um þessa nýju og björtu framtíð eru settar fram í krafti sjálfhverfrar hugmyndafræði sem boðar að framlag okkar til heimsmenningarinnar sé auðssöfnun. Þeir nýríku skilja ekki að fjármagnssauður er sviplaust og merkingarsnautt fyrirbrigði sem finna má í öllum stærðum og gerðum um víða veröld. Heimsbyggðinni stæði hjartanlega á sama þótt allur auður íslenskra banka og kaupsýslumanna hyrfi í einni svipan.
Framlag Íslendinga til samfélags þjóðanna er að sýna að fámennt og fullvalda ríki getur búið þegnum sínum ákjósanleg lífsskilyrði.
Athugasemdir
Góður punktur!!
inga (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 08:18
hjartanlega sammála
María Kristjánsdóttir, 12.9.2007 kl. 08:31
Ein athugasemd.
Þú talar um ,,Stórmennin". Það er alröng málnotkun.
Svona menn voru nefndir Burgeisar. - Gróðapungar eða eitthvað sem var ljótara.
Stórmenni voru nefndir þeir sem voru stórir , bæði í lund og raun.
Miðbæjaríhaldið
Bjarni Kjartansson, 12.9.2007 kl. 10:08
Hvað með almenning og smáfyrirtæki, sem blæðir undan fáránlega háum vöxtum? Það hefur ekkert með bankana að gera, þeir þurfa að fjármagna sig á þessum okurvöxtum líka.
Baldur Kristjánsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 16:21
Enn ein rökleysan frá Páli. Er framlag Ítala til heimsmenningarinnar eitthvað ómerkilegra eftir að þeir tóku upp evru í stað líru? Er færeysk menning fátækari af því að þeir nota danska krónu?
Svo bendi ég á að upptaka evru er engan veginn einkahagsmunamál "hinna nýríku" (sem virðast skv. Páli vera óalandi og óferjandi syndaselir). Sjálfur þekki ég nýríka spekúlanta sem hafa grætt vel á krónunni og myndu eflaust sjá eftir henni. En það er ekki síst hinn almenni Íslendingur sem greiðir atkvæði með veskinu og tekur húsnæðislán og neyslulán í erlendum gjaldmiðlum í gríð og erg, af því að krónan er ekki lengur góð til síns brúks í breyttum heimi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.9.2007 kl. 18:03
Ég er sammála þessu að mestu leyti en ég tel að með upptöku Evrunnar, eða annars sterks gjaldmiðils, verði auðveldara að sýna fitu landsins. Á meðan allt er háð vísitölum og gengi, er auðveldara að fela þessa fitu. Mín skoðun er sú að mörg fyrirtæki, athugið ekki öll, byggja velgengni sína á því að kaupa, endurfjármagna, breyta skipulagi og fleira í þeim dúr, þannig að ómögulegt er að mæla árangur. Þetta er svona svipað og þegar þú ert að mæla hæðarvöxt barns þíns og það getur ekki staðið kyrrt. Þú getur ekki fylgst með.
Ég held að einhver bankastofnun hafi gert grín af svipuðu í einhverri auglýsingunni. Þar er strákur, að ég held tali ensku með dönskum hreim, sem segir eitthvað í þessa átt: "Hvað er að ykkur íslendingum, þið segið afgreiðslumanninum bara henda kvittuninni og svo eru þið að kvarta undan háu vöruverði. Þið eigið að fylgjast með, með því að skrifa niður útgjöldin". Þetta er lauslega munað hjá mér en þetta segir nokkuð vel hvernig íslenska þjóðin er að verða eða er orðin.
Í Monopoly (eða Matador) spilinu er mikilvægt, þegar þú átt allt, að halda mótherjum í sinni stöðu og láta þá stöðugt borga. Spilið er búið ef þú gerir þá alla gjaldþrota. Í spilinu kastar þú teningum og dregur stundum spjald sem segir að þú þurfir að borga hitt og þetta. Á Íslandi erum við aðeins óheppnari. Í gegnum alls konar vitleysu erum við neydd til þess að borga til keppinautana. Lífeyrissjóðir eru ágætt dæmi um þetta sem og ýmis lögbundin gjöld.
Ég ætlaði ekki að hafa þessa athugasemd svona langa en maður verður svo æstur þegar maður byrjar að skrifa um þetta málefni.
Sumarliði Einar Daðason, 12.9.2007 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.