Íslensk hlutabréf eru ónýt - lífeyrissjóðina út af markaðnum

Íslenskur hlutabréfamarkaður er óstöðugur, mun sveiflukennari en í nágrannalöndum okkar vestan hafs og austan. Í gær lækkuðu bréf á erlendum mörkuðum um 0 - 2 prósent en hér tvöfalt meira. Íslensk hlutabréf eru fáum til gangs og engum til ánægju.

Björn Rúnar Guðmundsson forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans lýsti því sem er á allra vitorði í fréttum RÚV að íslenski hlutabréfamarkaðurinn er óstöðugri en nágrannamarkaðir. Óstöðugur hlutabréfamarkaður, sem jafnframt er svo grunnur að einstaka aðilar geta með tiltölulega litlum viðskiptum skekkt eðlilega verðmyndun, þjónar ekki hagsmunum okkar hvorki í bráð né lengd.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er að stórum hluta fjármagnaður með almannafé. Lífeyrissjóðir eiga að ávaxta eign launamanna og það er andstætt hagsmunum vinnandi fólks að kaupa íslensk hlutabréf sem eru jafn óstöðug og raun ber vitni.

Alþingi og ríkisvald setja hlutabréfamarkaði lög og reglur og kosta til dýru eftirlitskerfi sem almenningur borgar fyrir.

Lífeyrissjóðir starfa eftir lögum. Löggjafi vandur að virðingu sinni bannaði sjóðunum umsvifalaust að fjárfesta í íslenskum hlutabréfum. Ávöxtun er tryggari í erlendum verðbréfum enda óstöðugleiki íslenska markaðarins þar víðs fjarri.

Með því að lífeyrissjóðir dragi sig út úr hlutabréfamarkaðnum íslenska og ríkisvaldið hætti umsjón og eftirliti með þessum markaði stendur hann berskjaldaður sem leikvöllur fjárplógsmanna. Strákarnir í Armanifötunum færu fljótlega í Dressmannspjarir ef þeir hefðu ekki almannafé að sýsla með.

(Neðanmáls: Ofanritað er stílfærð röksemdafærsla bankamanna um íslensku krónuna sem þeir vilja varpa fyrir róða og taka upp evru. Í dæminu eru rökin heimfærð upp á hlutabréfamarkaðinn hér heima. Samkvæmt viðmiðum bankamanna sjálfra er íslenski hlutabréfamarkaðurinn ónýtur ruslmarkaður. Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings veit þetta eins og félagar hans. En er líklegt að Sigurður tali með sömu lítilsvirðingunni um hlutabréfamarkaðinn og krónuna? Óekkí, Sigurður vill að markaðurinn mali honum áfram gull. Hann vill bara fá þénustuna í evrum. )


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Eiga þessi ósköp að vera málefnaleg rök í umræðunni um evruna?

Ef ég skil textann rétt er verið að andmæla því að krónan sé óhagstæð af því að hún sveiflast meira en t.d. evra, og af því að spákaupmenn geta hreyft gengi hennar í litlum viðskiptum.  Ekki sé ég samt rökin fyrir andmælunum, þau eru svo vandlega falin í þessari einkennilegu samlíkingu.

Er annars einhver að tala um að banna lífeyrissjóðum að fjárfesta í eignum í íslenskri krónu?  Páll finnur ekki marga bankamenn sem myndu mæla með því að lífeyrissjóðir fjárfestu að meginhluta í eignum í öðrum gjaldmiðli en þeim sem skuldbindingar þeirra eru.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.9.2007 kl. 02:09

2 identicon

Krónan er sem sagt markaðurinn. Samanburður á hlutabréfavísitölum, sem er hagfelld þeirri íslensku, er sem sagt heilbrigðisvottorð fyrir íslensku krónuna.

Hvers vegna ættum við að sleppa af henni hendinni?

Toggi (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 12:59

3 Smámynd: Kristján Pétursson

Við ráðum engu lengur um stöðu krónunnar,hún er í höndum alþjóðlegra varðbréfa sala s.s.jöklabréf,krónubréf og hvað það nú heitir.Krónan er okkar stærsta fjárhagslega vandamál,sökum smæði sinnar þolir hún engar efnahagslegar sveiflur og raskar því stöðugt inn- og útflutninggreinum þjóðarinnar.Þeir sem eru með erlend húsnæðislán vita ekki frá einni viku til annarar hver staða þeirra er.Burt með krónuna og tökum upp evru.

Kristján Pétursson, 11.9.2007 kl. 17:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband