Sunnudagur, 9. september 2007
Samstaða bankastjóranna: Kenna krónunni um væntanlegar ófarir
Áhættusækni íslensku bankanna gerir þá berskjaldaða gagnvart óvæntum dýfum á einstökum mörkuðum og alþjóðlegu efnahagslífi. Í umræðu fjármálafjölmiðla er gert ráð fyrir að yfirstandandi erfiðleikar í alþjóðlegu hagkerfi eigi eftir að dragast á langinn. Það eru slæm tíðindi fyrir íslensku bankana enda hátt spenntur boginn.
Bankastjórar stóru bankanna hafa myndað með sér samstöðu að erfiðleikarnir framundan séu gjaldmiðlinum að kenna. Stjórarnir í Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum koma mæðulegir fram í fjölmiðlum og stynja þungan undan krónunni og flökti hennar.
Krónan hefur verið óstöðug allt frá því að horfið var frá fastgengisstefnu fyrir áratugum síðan. Það hefur beinlínis verið hennar hlutverk að vera sveigjanleg, eða óstöðug, til að aðlaga íslenskt efnahagslíf að alþjóðlegum sveiflum. Bankarnir hafa margfaldað stærð sína og fært út kvíarnar með óstöðuga krónu að bakhjarli.
Bankamenn ætla að selja þjóðinni þá falsmynd að krónan sé sökudólgurinn til að afsaka rauðu tölurnar í ársfjórðungsskýrslum sínum næstu misserin.
Í stjórnmálaumræðunni er Samfylkingin þess albúin að taka þátt í blekkingarleiknum. Viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, vill fórna krónunni til að koma Íslandi í Evrópusambandið. Tilgangurinn helgar meðalið hjá tækifærisstjórnmálunum sem tröllríða húsum Samfylkingarinnar.
Athugasemdir
Meðan uppgjörsmynt bankanna er íslensk króna verða þeir að viðhalda eigin fé sínu í krónu. Það getur reynst þungur róður ef krónan fellur um t.d. 20% eins og margir telja í kortunum enda um algjöra smámynt að ræða á alþjóðlegum mörkuðum. Það er ekkert skrýtið að bankastjórarnir álíti það farsælla fyrir bankana að fara með eigið fé í stærri og stöðugri gjaldmiðla, og þá aðallega evru enda meirihluti utanríkisviðskipta í þeirri mynt. Þetta er því öfugt lesið hjá Páli, bankastjórar eru ekki að leita að afsökun fyrir sveiflukenndri afkomu heldur að reyna að afstýra sveiflukenndri afkomu.
Getur Páll komið með efnisleg rök fyrir því að viðhalda krónunni? Og ef þau rök eru gild, af hverju eru þá Vestmannaeyingar ekki betur settir með eigin mynt? Eða Kalifornía eða Wisconsin?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.9.2007 kl. 16:53
Skrítið Vilhjálmur.
Áður fyrr var gengið fellt reglulega, með handafli, fyrir afkomu útflutnings atvinnuveganna en ekki hvað síst til að halda uppi háu/góðu atvinnustigi í landinu.
Nú ýmist styrkist eða veikist krónan eftir hvernig kaupin gerast á eyrinni í "frjálsum fjármagnsflutningum" og þá bölsótast "útrásarhóparnir", útflutningsatvinnuvegirnir vilja hins vegar að gengi krónunnar lækki (verulega) en almenningur vill að krónan styrkist svo að innflutningsverðlag sé skaplegt.
Vildu samt ekki allir hóparnir þetta fjármagnsflæðisfreslsi?
Hefur samt ekki megin ástæðan fyrir gjaldmiðli okkar í reynd ávallt verið sú, að þá höfum við í hendi okkar hverju sinni að halda uppi háu/góðu atvinnustigi með okkar eigin sveigjanlegu "meðhöndlun" á genginu (gengisskráningunni) þar eð við höfum ekki vilja velja leið "hins frjálsa markaðar" með lítt breytanlegu gengi, sem a.m.k. í Evrópu, hefur hvað eftir annað einungis leitt af sér mikið atvinnuleysi þegar illa árar í þjóðarbúskapnum.
Viljum við láta frá okkur þennan sveigjanleika og velja frekar "agann" í fjármálastjórn, sem á manna máli þýðir atvinnuleysi þegar illa árar?
Það er svolítið fyndin þessi spruning þín um sérstakan gjaldmiðil fyrir Vestmannaeyinga, þó frekar brosleg eða kjánaleg.
Til gamans máttu gjarnan svara, af hverju hefur Swiss ekk EVRU, ekki heldur Bretland, ekki heldur Svíþjóð, ekki heldur Noregur og ekki heldur Danmörk (þó þar sé óbein tenging við hana) og af hverju vilja Ítalir (ofl. EVRU ríki) losna við EVRU (atvinnustigið?) o.sv.frv.
Hins vegar finnst mér gaman að velta því upp hvort ekki sé bara gott fyrir okkur almenning ef að bankarnir skrái hlutafé sitt, eignir og skuldir í EVRU/$?
Þá væri a.m.k. síður ástæða til þess að íslenska þjóðfélagið "yrði/þyrfti" að bakka þá upp ef að illa fer í áhætturekstri þeirra erlendis.
Því segi ég áfram krónan mín og ekkert atvinnuleysi því það er mesta böl sem til er í lýðræðisríkjum.
Kveðja
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 14:39
Spurning mín um Vestmannaeyjar er einmitt mjög viðeigandi í því samhengi sem þú nefnir, þ.e. um atvinnustig. Hin ýmsu landssvæði hafa nú orðið talsvert mismunandi hagkerfi. Á Austurlandi hefur verið mikil stóriðjuuppbygging. Á Vestfjörðum hefur flest verið á vonarveli vegna kvótaskorts. Á Norðurlandi vestra er víða ládeyða, meðan í Reykjavík hefur byggst upp öflugur fjármálageiri. Það er ekkert eitt gengi eða vaxtastig sem á við þarfir allra þessara svæða, hvort eð er. Og utanríkisviðskipti okkar eru að meirihluta í evru og tengdum myntum, og þar ráðast bæði verð á innfluttum neysluvörum og tekjur útflytjenda. Þannig að kostnaðurinn við krónuna - háir vextir, mikill viðskiptakostnaður - verður yfirgnæfandi miðað við þann litla ávinning sem sjálfstæð vaxtastefna skilar. Krónan kostar líka atvinnu (með háum vöxtum), gáðu að því.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.9.2007 kl. 16:26
Já, já Vilhjálmur, en hvað þetta er skírt og gaman.
Það er þá væntanlega þess vegna, eða hitt þó heldur, á alla venjulega alþjóðlega efnahagslega mælikvarða, sem að við höfum stungið EVRU löndin af í efnahaglegri velmegun, hagvexti, etc.
Bull og vitleysa.
Okkar afkoma er betri af því að við höfum tekið betri, sveigjanlegri og réttari ákvarðanir í efnhagsmálum s.l. 10-15 ár en EVRU löndin, vegna þess að við höfum haft sjálfstæði, kjark og þrek til að taka slíkar ákvarðanir og okkar eigin gjaldmiðil sem hefur gert okkur það kleyft.
Þegar (????) EVRU löndin verða í ca. 10/15 ár búin að hafa betri efnhagslega afkomu, lesist hagvöxt, en við, þá fyrst, já þá fyrst verður kominn tími til að skoða hvað hafi farið úrskeiðis hja okkur, fyrr ekki.
Ekki halda áfram að reyna að tala okkur Íslendinga niður á svið lægri og verri efnahagslegra lífskjara.
Lífskjaraskiptingin á milli þjóðfélagshópa er svo allt annað og öðru vísi viðfangsefni.
Kveðja.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 20:40
Já, Guðmundur, aðildin að EES hefur vissulega skilað okkur miklu. En ekki held ég að Páll Vilhjálmsson erki-andstæðingur EES sé okkur sammála um það
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.9.2007 kl. 01:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.