Miðvikudagur, 29. ágúst 2007
Þegjandi samkomulag um ólöglegt erlent vinnuafl
Þenslan á vinnumarkaði undanfarin ár hefur skapað viðskiptatækifæri fyrir innflytjendur á vinnuafli sem greiða launþegum lægri laun og búa þeim verri aðstæður en tíðkast hjá íslensku launafólki.
Eftir fjölmiðlaumræðu fyrir nokkrum misserum og þrýsting frá verkalýðsfélögum var gerð gangskör í að bæta eftirlit með erlendu vinnuafli í byggð. Hálendið var aftur á móti tekið út fyrir sviga og þar látin viðgangast félagsleg undirboð, ekki síst til að tryggja framgang virkjanaframkvæmda.
Spillingin sem þrífst í skjóli ólögmæts innflutnings á erlendu vinnuafli er á ábyrgð stjórnvalda. Óátalin grefur spillingin undan lífskjörum íslensks launafólks í bráð og lengd.
Þótt fjölþjóðlegir samningar kveði á um frjálsa för launafólks er stjórnvöldum í lófa lagið að stemma stigu við óheftum innflutningi á vinnuafli. Það er viðurkennd stjórnsýsla að notendur borgi fyrir nauðsynlegt eftirlit með viðkomandi starfsemi.
Reynslan hefur sýnt að bráðnauðsynlegt er að stórefla eftirlit með innflutningi á erlendu vinnuafli. Stjórnvöld ættu að þekkja sinn vitjunartíma og búa svo um hnútana að það verði innflytjendum erlends vinnuafls verulega dýrara en það er núna að flytja inn láglaunafólk í samkeppni íslenskt vinnuafl.
Hér er spurt um pólitískan vilja.
Athugasemdir
Ég tek heilshugar undir þessi skrif þín.
Sigurjón Þórðarson, 29.8.2007 kl. 09:26
Sammála þessu. Benti á þetta fyrir rúmu ári en þá sögðu stjórnvöld að málið væri í góðu lagi. Ég er líka sammála þér að það þarf pólitískan vilja til að taka á þessu máli af skynsemi.
Jón Magnússon, 29.8.2007 kl. 10:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.