Föstudagur, 24. ágúst 2007
Svartir dagar hlutabréfa framundan
Dýfan sem hlutabréfamarkaðir tóku í síðustu viku er smjörþefurinn af því sem koma skal. Í evrópskum bönkum ekki síður en bandarískum er óhemja af verðlausum pappírum, enginn veit nafnvirðið sem þarf að afskrifa, en fjárhæðirnar eru stjarnfræðilegar. Pappírarnir eru að stofni til bandarísk húsnæðislán sem veitt voru til fólks sem undir venjulegum kringumstæðum væri ekki treyst fyrir peningum.
Hækkandi vextir og lækkun fasteignaverðs keyrði 180 þúsund vonlausa bandaríska skuldara í gjaldþrot í júlímánuði einum. Gjaldþrotin hrundu af stað atburðarrás í síðustu viku þar sem verðbréfamarkaðir féllu í austri og vestri. Aðeins með inngripi seðlabanka í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu tókst að stemma stigu við flóttanum frá verðbréfum yfir í reiðufé. Seðlabankar dældu milljörðum ofan á milljarða til að tryggja nægt framboð af reiðufé. Um sinn tókst að lægja öldurnar en ekki varir það lengi.
Allt að tvær milljónir Bandaríkjamanna standa frammi fyrir þeim örlögum og lýsa sig gjaldþrota. Peningarnir sem þar eru í húfi eru af þeirri stærðargráðu að aðgerðir seðlabanka mega sín lítils.
Ónýtum bandarískum lánum hefur undanfarin ár verð pakkað og endurpakkað og þau seld til fjármálastofnana víða um heim, einkum til Evrópu og Asíu. Endursalan á ónýtum lánum hófst upp úr 2003 þegar bandarískir bankar og sjóðir hættu að treysta á greiðslugetu lántakenda. Í Evrópu og Asíu var til fjármagn í leit að ávöxtun og það fór vestur í trausti þess að greiðsla kæmi til baka. Það sem skorti á trúverðugleika pappírana bættu bankamenn sér upp með þeirri trú að bandarísk stjórnvöld myndu grípa í taumana ef illa færi, líkt og þau gerðu í byrjun tíunda áratugsins þegar sparisjóðakreppan reið yfir og í lok áratugsins þegar vogunarsjóðurinn LTCM varð gjaldþrota.
Nú er hins vegar úr vöndu að ráða. Ef bandarískir fasteignaeigendur fá bjargráð frá ríkinu er það ávísun á frekari óráðssíu ódýrra lána til fólks sem hefur ekki efni á þeim. Fái bandarískar fjármálastofnanir opinbera fyrirgreiðslu mun þær evrópsku krefjast hins sama. Og hæpið er að bandaríkjaþing samþykki stórfellda efnahagsaðstoð til útlendra banka sem hafa látið stjórnast af taumlausri bjartsýni.
Alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn hagar sér þessi misserin eins og alkahóliseraður unglingur; hann heldur misnotkuninni áfram á meðan einhver vill taka við honum. Þegar allar dyr eru lokaðar er von til þess að hann líti í eigin barm og geri sér grein fyrir stöðunni. Dyrum verður skellt í lás. Og það verður sárt.
Hvað á íslenski meðaljóninn að gera? Losa sig við verðbréf og geyma peningana sína á bankareikningi.
Athugasemdir
Ég er sammála þér að líklega er "óróinn" ekki yfirstaðinn og markaðurinn á næstu mánuðum á líklega eftir að einkennast af meira flökti vegna óvissunar um hverjir kunni að skaðast.
Þessi "fjármagnsveita" byggðist líka á því að vogunarsjóðirnir sem veittu að stórum hluta fjármagni til kaupa á fasteignum viðhöfðu ekki nægjanlega vönduð vinnubrögð við kaup á "skuldabréfapökkum". Fasteignasalar og verktakar fölsuðu eignaverð í sumum tilvikum til að kríja út hærri lán og voru þess fullvissir að frekari hækkun eignaverðs myndi dekka lánið þyrfti að láta reyna á innlausn.
En það er eins og með annað, að þegar menn telja sig vera örugga er hættan oft mest. "Game-ið" gat ekki gengið nema að ákveðnu marki, verðið gat ekki endalaust hækkað, aukið framboð eigna (vegna hækkandi verðs) og vaxandi vanskil gátu ekki annað en kallað á leiðréttingu á fasteignaverðinu.
Hugsanleg vaxtalækkun í BNA dregur líklega úr áhrifunum og til lengri tíma vinna kerfin sig út úr þessu. En áhrifin geta varað í einhvern tíma og eiga örugglega eftir að hafa þau áhrif að það dregur úr hagnaði fjármálakerfisins til skemmri tíma og aðgengi fyrirtækja og einstaklinga að fjármagni verður erfiðara.
Við erum kannski ekki að "upplifa" svo ólíka hluti hér á fasteignamarkaði. Endalausum lánum "dælt" inn á fasteignir sem hækka af þeirri einni ástæðu að möguleikinn til lántöku breyttist. Fasteignamarkaðurinn hér hefur öll einkenni "bólu" líkt og fasteignamarkaðurinn í BNA. Spurningin er bara hvenær leiðréttingin á sér stað. Hugsanlega gerist það þegar Seðlabankinn lækkar vexti (svo öfugsnúið sem það kann að vera því að öllu eðlilegu ættu fasteignir þá að hækka) og krónan fer að lækka.
Hagbarður, 24.8.2007 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.