Fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Pappakjöt vinsælla en lambið
Tíðindi sumarsins eru að alifuglakjöt seljist betur en afurðin sem gastrónómískt ber höfuð og herðar yfir allt sem mannskepnan getur lagt sér til munns; íslenskt lambakjöt. Fréttirnar eru því furðulegri að fuglaketið sem nú selst eins og heitar lummur er hamflettar kjúklingabringur sem án náttúrlegs safa bragðast eins og þurr pappi.
Próteinkubbarnir sem landsmenn hafa slengt á grillið í gríð og erg í sumar eru svo náttúrulaus fæða að vínið sem þeim er skolað niður með verður skolpkennt. Trefjarnar eru nógu þurrar til að draga í sig munnvatn þess sem neytir sem fær á tilfinninguna, þegar bitanum er rennt niður, að hafa geispað upp í vindinn í sandstormi.
Hverjum dettur í hug að grilla kjúklingabringur?
ps Eru alifuglabændur nokkuð að leita sér að kynningarfulltrúa?
Athugasemdir
Mikið er ég hjartanlega sammála. Mér finnst alveg ótrúlegt hvað fólk hefur list á að borða þessa "haugahoppara" sem lifir sitt stutta líf í ótrúlegu kraðaki,þegar kostur er á kjöti sem er hreint lostæti,þar á ég við lambakjötið sem er ó mengað og best sem minst kryddað.
Ragnar Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 05:36
Þú hefur góðan matarsmekk en líklega afleitt verðskyn.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 08:55
Já hvenær förum við að fá almennilega lífræna vappkjúklinga? Hvað ætlum við að sætta okkur við þetta lengi???
Harpa Heimisdóttir (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 09:41
Já, þetta eru mikil tíðindi. Að skíthoppararnir skuli hafa vinninginn er nokkuð merkilegt. Tek undir lýsinguna hjá þér á þessu skítakjöti. Þetta er úttroðið af metabisúlfati og innsprautuðum vökva, sem síðan sprautast í allar áttir við steikingu og eftir verður innan við 2/3 af því sem borgað er fyrir. Fólk blekkt með hagstæðum verðum, en í raun verið að borga fyrir 30% vatn.
Halldór Egill Guðnason, 23.8.2007 kl. 10:57
Kýs bragðgóðan kjúkling og exótískt meðlæti framyfir feitt og þreytt sveitabragðið af ofmetna lambaómetinu hvenær sem er.
Ívar (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 14:22
Sæll gamli félagi!
Ég tók þátt í þeirri könnun sem þú vísar til og að sjálfsögðu kaus ég lambakjötið - hefði kosið saltað hrossakjöt hefði það verið í boði! Kjúklingar geta verið ágætir í hófi.
Það er gaman að fylgjast með skrifum þínum líkt og fyrrum - eða allt frá því að þú ruslaðir yfir helv... bræðsluna í Keflavík/Njarðvík (ég vissi aldrei hvoru megin hún var enda sveitamaður) hérna um árið.
Kveðja, Guðmundur
Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 15:05
Það er líka ótrúleg velvild sem þetta hænsnaket nýtur hjá heilbrigðisyfirvöldum. Það má alltaf selja þó það sé meira og minna fullt af salmonellu og kamfýlóbakter. ,,Bara steikna vel í gegn". Annað var uppi á teningnum hérna um árið þegar kjúklingasláturhúsið á Hellu var búið að smita kýr og kindur í Landeyjunum af þessum ófögnuði, þá var strax lokað á alla afurðasölu frá þeim búum. Svo á ríkið auðvitað ekki að vera að niðurgreiða þetta verksmiðju-iðnaðarket. Það á ekki frekar að njóta verndar en annar iðnaður í landinu.
Þórir Kjartansson, 23.8.2007 kl. 16:15
Sem fyrrum kjötbóndi á jafnt fjár- og fuglasviði, og sem neytandi þá og nú, skil ég ekki þetta mat þitt, Páll. Hvað ertu að ergja þig út af smápútnakjöti þótt þú kaupir það og eldir eins og pappa (hvernig sem það getur gengið) í minningu um fjallalambið sem var en er nú þjóðvegasaltað?
Herbert Guðmundsson, 23.8.2007 kl. 19:21
Versla ekki flestir í Bónus og þannig lágvöruverslunum? Í þeim verslunum er ferskt lambakjöt ekki á boðstólnum (ég kalla kjötfars og vakúmpakkaðar grillsneiðar gegnsósa af dularfullum kryddvökva ekki ferskvöru). En það er alltaf grjótnóg úrval af fersku kjúklinga- og svínakjöti í handhægum neytendapakkningum fyrir hina íslensku meðalfjölskyldu. Enda er slátrun í gangi allt árið. Þannig að einhverju leyti er þetta spurning um framboð.
Ég hef ekkert á móti kjúklingakjöti (með fyrirhöfn og dýru meðlæti & sósum er hægt að gera úr því gómsætar máltíðir) en verksmiðjukjúklingur er nú samt ómerkilegasta og bragðlausasta kjöt sem fyrirfinnst á jarðríki. Og hreint og beint hlægilega dýrt hér á landi.
Þetta furðulega dálæti á skinnlausum kjúklingabringum held ég að sé til marks um það hvað skyndibitamenningin gerir fólk bernskt í matarsmekk -- eða réttara sagt: viðheldur krónískri bernsku. Börn nefnilega vilja gjarnan hreina vöðva, þau hreinlega nenna ekki að "gera að" kjötstykkjum á disknum sínum, s.s. skera frá bein eða skinn, hvað þá fitu eða sinar. Matur þarf alltaf að vera fljótétinn og bragðast kunnuglega -- út á það gengur skyndibitamenningin.
Svo er þetta auðvitað líka afrakstur margra áratuga áróðurs gegn dýrafitu, svo ekki sé talað um þá hugmynd að rautt kjöt sé óhollara en hvítt.
Samkvæmt þeirri speki eru skinnlausar bringur af sprautuðum verksmiðjukjúklingi, litlausar og bragðlausar, alveg einstakt hollustufæði, en kjöt af dilkum sem aldrei hafa komið í hús -- og jafnvel aldrei verið beitt á ræktað land -- ávísun á offitu og allskyns menningarsjúkdóma.
Anna Theodóra Rögnvaldsdóttir, 23.8.2007 kl. 20:19
Fyrst verið er fussa fram og til baka yfir kjúllabringunum þá eru þær náttúrulega það sem budda landsmanna þolir einna best eftir að þverskornu ýsubitarnir hættu að sjást og fiskur varð munaður. Það er svo fjandi margt hægt að búa til úr bringunum og fylltar eru þær lostæti. Maður getur þá gætt sér á göfugum veigunum án þess að fá einhverja skolpvatnstilfinningu. Skál fyrir gulum hopparabringum, svo ég orði það nú pent.
Just passing by (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 20:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.