Sunnudagur, 19. ágúst 2007
Fréttablaðið bregst Baugi
Fréttablaðið er flaggskip Baugsmiðla og hefur haft það hlutverk undanfarin ár að berja í brestina hjá samsteypunni, fegra ímyndina og herja á ímyndaða sem raunverulega andstæðinga Baugsfjölskyldunnar.
Fréttablaðið þjónar enn sem málpípa Jóns Ásgeirs Jóhannessonar stjórnarformanns Baugs. Í vikunni sem leið kom hann þeim skilaboðum á framfæri að umbrot á innlendum og alþjóðlegum hlutabréfamarkaði væru Baugi meinlítil og tefldi fram tölum sem ekki voru sannreyndar enda málpípuútgáfur ekki til þess ætlaðar.
Flaggskipinu förlaðist þó um helgina þegar það valdi bestu auðmenn Íslands og vermdu Björgólfsfeðgar fyrstu tvö sætin en Jóhannes Jónsson rétt skreið í þriðja sætið.
Í framhaldinu er að búast við áherslubreytingum á Fréttablaðinu. Á næstunni birtist í ýmsum útgáfum undir fjölbreytilegum fyrirsögnum þessi frétt: Baugur-er-bestur.
Athugasemdir
Kannski er þetta merki þess að Fréttablaðið er kannski ekki þessi málpípa Baugsmanna sem margir vilja vera láta. Mér er svosem slétt sama hvort svo er, og sé svosem ekki þessa hættu sem margir sjá þó einhverjir menn eigi fjölmiðla.
Gísli Sigurðsson, 19.8.2007 kl. 20:06
"Aðgát skal höfð í nærveru sálar" Gísli minn góður.
"Ung var ek gefin Njáli"!
Árni Gunnarsson, 19.8.2007 kl. 20:12
SKÚBB ÁRSINS?
"Hvað með Olíusamráðið: ??
Þar er stolið yfir 40 milljörðum króna, en á sama tíma er hart sótt að Baugi með rógburði og rugli. Allt kerfið misnotað í þeim tilgangi og hinn glórulausi málarekstur hefur kostað skattborgara 1500 milljónir."
Hvaðan hefur Erlingur Þorsteinsson þessar upplýsingar?
Herbert Guðmundsson, 19.8.2007 kl. 21:28
Erlingur:
Svo aðeins sé komið inn á eitt atriði þá hefur einfaldlega aldrei verið sýnt fram á að Baugsmálið sé runnið undan pólitískum rifjum og hvað þá að Davíð Oddsson hafi á einhvern hátt komið þar nærri. Þannig að talandi um rógsherferð og áróðursrugl. Ég skora á þig að sýna fram á svo ekki verði um villst að svo hafi verið!
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 00:14
Erlingur:
Þetta eru engar sannanir. Sannaðu þetta, ég skora á þig að sanna það eins og þú sjálfur ættir í hlut að Davíð hafi verið á bak við þetta mál eins og haldið hefur verið fram en aldrei sýnt fram á.
Og mér þykir það í bezta falli ósæmilegt að saka mig og aðra um heimsku fyrir þá sök að vilja ekki gleypa við slíkum alls órökstuddum ásökunum. Það er einmitt verið að misbjóða skynsemi minni að ætlast til þess að ég gleypi við svona dylgjum án þess að sýnt sé fram á það svo ekki verði um villst að þær eigi við rök að styðjast.
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 00:54
Hvernig sem allt þetta hefur komið til þá er ljóst að menn hafa átt í 4 ára rannsókn, og kostað ótrúlegum fjármunum til hennar, án þess að um hafi verið að ræða mál sem var einu sinni tækt í dómskerfið nema að mjög litlu leiti og þá aðeins til sýknu flestra svokallaðra "sakborninga".
Hreiðar Eiríksson, 20.8.2007 kl. 13:33
Við upphaf rannsóknarinnar á Baugi trúði ég því að eitthvað hlyti að finnast sem ástæða þætti til refsidóma. Mér fannst einfaldlega að á vígvelli þar sem barist er af hörku um völd og fjármuni væri ævinlega eitthvað sem orkað gæti tvímælis um hvort reglum væri fylgt út í hörgul.
Nú hafa færustu lögmenn sótt þetta mál og öll þjóðin hefur fylgst með umræðum og fréttum. Óneitanlega er fátt sem bendir til annars en að persónulegt hatur hafi ráðið för. Og um þetta mál hefur þjóðin skipt sér í tvo hópa.
Annar hópurinn, greinilega miklu stærri trúir því að stærsti pólitíski flokkur þjóðarinnar telji sig verða að ná sakfellingu í málinu. Þetta er slæmt því áreiðanlega flýgur þarna mörg sagan sem lítill fótur er fyrir.
Eftir situr sú bitra staðreynd að stór hluti þjóðarinnar hefur misst traust á refsilöggjöf okkar og jafnframt á heiðarleika og hlutleysi margra þekktra stjórnmálamanna.
Jafnframt situr eftir hjá sama hópi óbilandi trú á heiðarleika Baugsmanna sem eftir fjögurra ára ofsóknir fyrir tveimur dómstólum hafa reynst sýknir saka fram að þessu.
Mér er stórlega til efs að allir stærstu fésýslumenn okkar stæðu af sér svona rannsókn án sakfellingar.
Árni Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 14:42
Erlingur:
Er það þín hugmynd um "fagleg" svör að kalla skrif Páls rugl (ítrekað), þvælu, dylgjur, samsæriskenningar og áróður svo eitthvað sé nefnt án þess að færa nein haldbær rök fyrir þeim yfirlýsingum? Óneitanlega athyglisvert. Segir sennilega meira um þig en nokkurn tímann Pál.
Ef eitthvað í þessum efnum er samsæriskenning eru það fullyrðingar um að Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið á bak við Baugsmálið án þess að sýnt hafi verið fram á það á nokkurn hátt. Og til þess að skipa einhverja rannsóknarnefnd á kostnað skattgreiðenda er ég ansi hræddur um að það þurfi að liggja fyrir eitthvað haldbærara en einhver slík kenning.
Það er hálf sorglegt að sjá þig fara í kringum það að svara mér og sýna fram á að Davíð hafi verið á bak við Baugsmálið. Nokkuð sem þér fannst svo augljóst fyrr í þessum samræðum að þú sagðir að "allir þeir sem hafa bæði 2 eyru og 2 augu og þokkalegt vit milli eyrna sjái að Davíð Oddson og félagar eru bak við árásirnar á Baug." Ég er s.s. ekki í þeim flokki að þínu mati.
Síðar drógstu í land og sagðir þig aðeins hafa verið að draga ályktanir. Ályktanir og fullyrðingar kunna að vera eitt og hið sama í þinni orðabók en ekki minni. Þú dæmir líka stjórnvöld fyrirfram sem siðlaus og krefst afsagnar ráðamanna. Hver er tilgangurinn með óháðri rannsóknarnefnd að þínu mati fyrst þú ert búinn að taka alla af lífi fyrirfram og það áður en nokkuð hefur sannast á þá?
T.d. er alveg klárt mál að dómsmálaráðherra hefur ekkert beitt sér í Baugsmálinu í krafti embættis síns þó hann hafi vissulega eins og aðrir nýtt sitt tjáningarfrelsi og tjáð sínar skoðanir á því. Nokkuð sem dómstólar hafa úrskurðað að hann sé í fullu frelsi til.
Ég hvet þig bara að lokum enn og aftur til að sýna fram á að Davíð hafi verið á bak við Baugsmálið í stað þess að fullyrða bara út í loftið um það. Ég vil líka hvetja þig til þess að svara Páli málefnalega og efnislega. Hann hefur fært þung rök fyrir sínu máli í umfjöllunum sínum um Baug og bendi ég þér sérstaklega á ítarlega grein hans í vetrarhefti tímaritsins Þjóðmála 2005. Það má vel vera að þú sért ósammála því en það flokkast bara ekki sem fagleg nálgun á einu eða neinu að kalla eitthvað rugl og gera svo ekki einu sinni tilraun til þess að færa rök fyrir þeirri afgreiðslu.
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 20:44
Hvað með "þjónkunarþrána", Hjörtur? Eftir höfðinu dansa limirnir og það hefur engum dulist hvernig skuli sótt fram gegn þessu fólki. Það sér hvert mannsbarn. Myndir þú, Hjörtur, treysta rannsóknaraðilum til að fara með rannsókn á máli þínu ef yfirmenn þeirra og æðstu menn þar kepptust við að úthrópa sekt þína opinberlega, eða þá beinlínis kalla þig og þína "mafíu sem verðist í krafti auðs? Hvað ætli margir yrðu sáttir við það?
Snarfari (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 20:54
Það má vel vera að ég yrði ekki sáttur við það en það breytir því ekki að ég yrði að sýna fram á með sannanlegum hætti að óeðlilega hefði verið að málum staðið. Innantómar fullyrðingar í þá veru væru einfaldlega ekki nóg þó sumir séu greinilega á annarri skoðun.
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 21:05
Það eru komnar fram vísbendingar um að óeðlilega hafi verið staðið að Baugsmálinu. Menn stinga bara hausnum í sandinn. Hefurðu einhverjar skýringar á þessari miklu hjálp sem þurfti til að koma málinu á koppinn, Hjörtur? Ekki var nú sekt manna mikil sem sumir vonuðust greinilega svo mikið eftir.
Snarfari (IP-tala skráð) 20.8.2007 kl. 21:21
Dylgjur og sannanir Hjörtur? Margoft hef ég lesið um og orðið áheyrsla þar sem hinir ýmsu stjórnmálamenn og stjórnmálarýnar hafa krafist þess á opinberum vettvangi að upphaf og aðdragandi Baugsmálsins sæti opinberri rannsókn.
Væri ekki ráð að þú og aðrir þeir sem sannfærðir eru um eðlilega atburðarás í því máli, beittuð ykkur fyrir því að sú rannsókn fari fram?
Ég fæ ekki séð að Erlingur Þorsteinsson hafi stöðu til að bera fram sannanir í sínum ályktunum. Sé ekki heldur að hægt sé að krefja hann um þær á meðan þverskallast er við ábendingum um rannsókn.
Engum getur dulist að allt þetta mál er bæði undarlegt í upphafi og fáránlegt í núverandi ferli.
Árni Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 21:48
"Ég fæ ekki séð að Erlingur Þorsteinsson hafi stöðu til að bera fram sannanir í sínum ályktunum. Sé ekki heldur að hægt sé að krefja hann um þær á meðan þverskallast er við ábendingum um rannsókn."
Þú fyrirgefur, en hvað þýðir þetta? Síðan hvenær hætti það að þykja eðlilegt að fara fram á að menn færðu rök fyrir fullyrðingum sínum?
Hjörtur J. Guðmundsson, 20.8.2007 kl. 22:03
Síðan hvenær varð atburðarás ákæru í anda þessarar og með sama hætti allt framhald eðlilegt?
Við skulum bara halda því til haga að meirihluti þjóðarinnar er sannfærður um að allur aðdragandi málsins sé runninn frá Valhallarliðinu. Enda bendir flest til þess að svo hafi verið. Tölvupóstar þar sem nafngreindir menn koma við sögu. Fjölmiðlafrumvarp og umræður á Alþingi þar sem fulltrúar Flokksins stóðu í ræðustól veifandi D.V. og öskrandi Baugstíðindi!
Árni Gunnarsson, 20.8.2007 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.