Fimmtudagur, 9. október 2025
Trump-friður í Gasa en fáir fagna
Líkur eru á friði í Gasa eftir tveggja ára stríð Ísraela við Hamas-hryðjuverkasamtökin í kjölfar fjöldamorðanna 7. október 2023. Die Welt segir að Trump forseti sæki miðausturlönd heim næstu daga og verði viðstaddur tímamótin. Fáir í vestrinu fagna væntum stríðslokum. Tilfallandi skrifaði um friðaráætlun Bandaríkjaforseta:
Friðaráætlunin gerir ráð fyrir afvopnun Hamas og sakaruppgjöf til Hamas-félaga er játa friði. Gert er ráð fyrir alþjóðlegri uppbyggingu í Gasa er miði að velferð íbúanna og varanlegum friði við Ísrael.
Friðaráætlunin er í 20 liðum. Í framkvæmd verður Gasa nýlenda á forræði Bandaríkjanna til að byrja með. Í fyllingu tímans gæti heimastjórnin á vesturbakkanum fengið hlutverk á Gasa og yrði það vísir að sjálfsstjórnarríki araba er kenna sig við Palestínu. Fyrsti liður friðaráætlunarinnar tekur af öll tvímæli um forsendurnar. Þar segir að hvorki skuli þrífast á Gasa róttækni né hryðjuverkamenning er ógni grannríkjum. Innviðir til hryðjuverka s.s. neðanjarðargöng verða aflagðir. Hryggð verður í Evrópu yfir frjálsri Palestínu sem ekki er í færum að fremja þjóðarmorð á gyðingum.
Konstantin Kisin útskýrir í stuttu máli hvers vegna menn stökkva ekki hæð sína í gleði yfir líklegum stríðslokum. Kjarninn í máli Kisin er að vestrænir stuðningsmenn Hamas gráta það mjög að hryðjuverkamenn gefi frá sér það markmið að útrýma gyðingum.
Hamas hóf stríðið 7. október 2023 með fjöldamorðum á Ísraelum og gíslatöku. Í tvö ár nota hryðjuverkamenn Hamas almenning í Gasa sem mannlega skildi. Herfræði Hamas, með lygum um þjóðarmorð á Palestínumönnum, var að vestrið myndi leggjast af fullum þunga á Ísrael að hætta hernaðaraðgerðum á Gasa. Víða í Evrópu var tekið undir með Hamas, stjórnvöld í nokkrum ríkjum viðurkenndu hryðjuverkasamtökin sem fullgilda meðlimi alþjóðasamfélagsins. Sjálfstortíming Evrópu er komin á það stig að álfan tekur i faðm sér hugmyndafræði er fyrirlítur lýðræði, mannréttindi og almennt siðferði.
Þrátt fyrir stuðning frá Evrópu fór Hamas halloka í stríðinu. Ísrael lét vestrið ekki kúga sig til að hætta hernaði gegn hryðjuverkum. Trump beið átekta og þegar aðstæður voru réttar lagði hann fram friðaráætlun, sem í raun er uppgjöf Hamas.
Enn er of snemmt að segja til um hvort vatnaskil hafi orðið í deilu Íraels við arabíska nágranna sína. Sú deila er kjarni Gasa-stríðsins. Til skamms tíma var Hamas verkfæri herskárra múslímaríkja að útrýma Ísraelsríki. Kannski að Trumpfriður í Gasa marki tímamót.
Að fáir í vestrinu fagni friði í blóðugu stríði segir háskalega sögu um menningarástand vestursins. Ísrael er hatað í vestrinu hvað heitast og innilegast af vinstrimönnum. Rætur hatursins eru tvístofna. Í fyrsta lagi sjálfshatur á gyðinglegum kristnidómi, sem er undirstaða vestrænnar menningar. Í öðru lagi rótgróið gyðingahatur sömu ættar og leiddi til helfararinnar fyrir miðja síðustu öld. Eitur í beinum vinstrimenningar samtímans er velgengni Ísraelsríkis, sem er eina þjóðríkið í miðausturlöndum er státar af vestrænu lýðræði og mannréttindum.
Það eykur líkur á varanlegum friði að múslímaríkin í miðausturlöndum virðast snúa baki við fyrri stefnu um að útrýma Ísrael og hallast nú að samstarfi fremur en hernaði og hryðjuverkum. Allir friðelskandi ættu að fagna.
![]() |
Ísrael og Hamas ná saman um friðarsamkomulag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning