Namibíumálið í öndunarvél og Helgi Seljan týndur

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari tilkynnti 2. júlí í RÚV að rannsókn Namibíumálsins væri lokið eftir tæp sex ár og mörg hundruð milljónir króna kostnað. Málið var búið til í hendur héraðssaksóknara af Helga Seljan fréttamanni Kveiks á RÚV í nóvember 2019. Nú eru þrír mánuðir síðan Ólafur Þór sagði rannsókn lokið en ekkert bólar á niðurstöðu.

Eftir að rannsókn lýkur á sakamáli er aðeins tvennt í stöðunni. Að ákæra eða fella málið niður. Héraðssaksóknari gerir hvorugt. Hann heldur Namibíumálinu i öndunarvél.

Namibíumálið snýst um ásakanir Jóhannesar Stefánssonar sem stjórnaði dótturfélagi Samherja í Afríkuríkinu um miðjan síðasta áratug. Jóhannes leiddist út í óreglu, áfengi, eiturlyf og ýmislegt verra, og var sagt upp. Atvinnulaus og illa þokkaður kom Jóhannes í hefndarhug til Íslands með tröllasögur um  mútugreiðslur til namibískra embættis- og stjórnmálamanna. RÚV og Helgi Seljan bjuggu til óformlegt fjölmiðlabandalag með Stundinni og Kjarnanum, RSK-miðla, til að segja sögu Jóhannesar á Íslandi þannig að alþjóð tryði. Fjölmiðlaatlagan heppnaðist. Vinstrimenn á alþingi gleyptu hráan heilaspuna Jóhannesar og siguðu embætti héraðssaksóknara á Samherja með 200 milljón króna fjárveitingu. Meginregla réttarríkisins um aðgreiningu löggjafa og ákæruvalds var þverbrotin. Í raun var fé sett til höfuðs einkafyrirtæki.

RSK-miðlar reyndu útflutning á ásökunum Jóhannesar. Þeir réðu danskan blaðamann, Lasse Skytt, til að skrifa Namibíumálið inn í norræna fjölmiðla. Leiðangurinn mistókst herfilega. Norska útgáfan Aftenposten beit að vísu á agnið og birti grein eftir Skytt. Þegar betur var að gáð reyndist Jóhannes einskins virði sem heimild. Norskir blaðamenn afhjúpuðu handvömm þeirra íslensku og ófagleg vinnubrögð fjölmiðla á Fróni. Tilfallandi bloggaði málið:

Jarðaför Namibíumálsins fór fram í Noregi 1. mars 2023. Þann dag birtist afsökun norska stórblaðsins Aftenposetn Innsikt. Lykilsetningin er eftirfarandi:

Aftenposten Innsikt hefur enga stoð fyrir þeirri fullyrðingu að Jóhannes Stefánsson hafi komið fram „fyrir hönd“ Samherja í mútumáli til manna í Namibíu né að samningur um eitthvað slíkt hafi verið gerður á milli Samherja og namibískra aðila. Um er að ræða ásakanir Jóhannesar Stefánssonar.

Jóhannes Stefánsson er eina heimildin um að Samherji hafi stundað mútur í Namibíu. Allt Namibíumálið byggir á einum manni sem, frómt sagt, er ekki trúverðug heimild. Í blaðamannskólum er kennt að einnar heimildar fréttir beri að varast og því meira sem fréttamálið er stærra.

Þegar heimildin er hatursfullur eiturlyfjafíkill og stórtækur vændiskaupandi, sem hringir í fólk og hótar limlestingum og lífláti, þarf ekki að kunna blaðamennsku til að átta sig á að ekki er um að ræða góðan pappír.

Afsökun Aftenpostin Innsikt 1. mars kemur í kjölfar forsíðugreinar tímaritsins í febrúar. Danskur blaðamaður, Lasse Skytt, skrifaði þar norræna útgáfu af Kveiksþætti RÚV frá 2019. Skytt fékk nýjustu uppfærsluna frá Jóhannesi. Þegar búið er að fara yfir fréttina af ritstjórn Aftenposten Innsikt er niðurstaðan afgerandi. 

,,engin stoð" er fyrir fullyrðingu Jóhannesar Stefánssonar.

Hvers vegna birti RÚV, í félagi með Kjarnanum og Stundinni (nú Heimildinni) staðlausa stafi Jóhannesar uppljóstrara? Jú, RÚV og fylgimiðlar stunda ekki blaðamennsku heldur málafylgju. RÚV ætlaði að ,,taka niður" Samherja og nota til þess ásakanir Jóhannesar.

Nú er ekki vitað hvort embætti héraðssaksóknara ráði yfir tungumálagarpi læsum á norsku en fyrir brot af þeim 200 milljónum sem embættið fékk frá alþingi hefði mátt þýða afsökunarbeiðni Aftenposten Innsikt og spara fjármuni og fyrirhöfn. En embættið var svo kirfilega samansúrrað RSK-miðlum að haldið var áfram að berja hausnum við steininn.

Í höndum héraðssaksóknara er Namibíumálið frá upphafi hryggðarmynd af samkrulli ákæruvalds, fjölmiðla og þingmanna Samfylkingar og Vinstri grænna. Í vor tók steininn úr og hryggðarmyndin varð að farsa. Níu menn eru sakborningar í Namibíumálinu. Í apríl kemst Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari að embættið sé vanhæft til að rannsaka einn sakborninganna, Jón Óttar Ólafsson. Héraðssaksóknari skrifar bréf til ríkissaksóknara 22. apríl í ár og segir

verulegan vafa leika á að embætti héraðssaksóknara sé til þess bært að rannsaka málið [þ.e. ólögmæta dreifingu persónuupplýsinga] þar sem undirritaður stýrði því embætti sem gögnin eru talin stafa frá og kærði sömu aðila [Jón Óttar] fyrir brot á þagnarskyldu á sínum tíma.

Bréfið er skrifað vegna rannsóknar á öðru máli, persónuupplýsingum úr hrunmálum sem fóru í ólögmæta dreifingu. Jón Óttar var starfsmaður Ólaf Þórs saksóknara í hrunmálum, síðar hóf Jón Óttar að vinna fyrir Samherja. Ólafur Þór er vanhæfur, að eigin sögn, að rannsaka Jón Óttar frá árinu 2012, já fyrir 13 árum, þegar hann kærði Jón Óttar fyrir brot á þagnarskyldu. En samt sem áður gerði Ólafur Þór Jón Óttar að sakborningi í Namibíumálinu árið 2020.

Og hver ætli sé upphafsmaðurinn að persónuupplýsingamálinu? Nú, auðvitað fréttamaðurinn Helgi Seljan, sá hinn sami og hratt úr vör Namibíumálinu 2019. Helgi var látinn fara frá RÚV í byrjun árs 2022 vegna annars alræmds fréttamáls RSK-miðla, byrlunar- og símamálsins. Í vor fékk hann endurráðningu hjá RÚV. Á örfáum vikum tókst Helga að hleypa öllu í bál og brand á ný á Efstaleiti. En svo hvarf fréttamaðurinn með Samherjablætið sjónum manna. Ekkert hefur spurst til Helga frá miðju sumri á öldum ljósvakans. 

Kannski að Helgi dúkki upp þegar héraðssaksóknari tilkynnir niðurstöðu Namibíumálsins? Vel færi á því að ákæruvaldið og ríkisfjölmiðilinn gerðu sameiginlega grein fyrir herfilegri misnotkun á opinberu valdi. Í framhaldinu þarf að upplýsa byrlunar- og símamálið þar sem blaðamenn höguðu sér eins og ótíndir glæpamenn.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband