Mánudagur, 6. október 2025
Frásögnin og fólkið sem selur hana
Tilfallandi lærði til blaðamennsku og fjölmiðlunar í Noregi og Bandaríkjunum á síðustu öld. Á báðum stöðum heyrði hann það sjónarmið að almannatenglar væru lygarar til leigu. Fordómar blaðamanna gagnvart almannatengslum hafa minnkað á seinni árum. Blaðamenn og almannatenglar eru ekki lengur andstæður.
Gömlu hugmyndinni, að blaðamenn tali sannleikann andspænis valdinu, bregður æ sjaldnar fyrir. Blaðamennska er yndislegt hundalíf er önnur klisja frá síðustu öld er heyrist varla í samtímanum. Hér fyrrum voru blaðamenn einatt boðberar slæmra tíðinda. Nærtækt var að skjóta sendiboðann. Hættulegur heiðarleiki var ekki daglegt brauð blaðamanna en sú ára sveif yfir vötnum og gaf, a.m.k. sumum, blaðamönnum þá tilfinningu að blaðamennska og almannatengsl væru ekki sami hluturinn.
Blaðamenn voru hliðarverðir umræðunnar. Ekkert komst í fréttir án aðkomu þeirra. Blaðamenn skrifuðu fréttirnar, aðrir ekki. Haft var á orði, önnur klisja, að frétt væri fyrsta uppkastið að sögunni. Jafnvel aðsendar greinar í dagblöðum fengu ekki birtingu nema hliðarvörður, ritstjórnarfulltrúi, samþykkti.
Andrés Jónsson almannatengill skrifaði grein í Viðskiptamogga með fyrirsögninni Fólk er ekki til sölu. Hann nefnir þrjá hópa, stjórnmálamenn, blaðamenn og kaupsýslumenn og segir sína reynslu að fólk selji ekki sannfæringu sína, heldur reyni að starfa eftir bestu samvisku ef ekki þágu almannaheilla þá í það minnsta ekki í andstöðu við almannahag. Andrés þjónustar fólk úr þessum geirum og það ekki ókeypis. Engum dettur þó í hug að Andrés selji samvisku sína. Hann kemur fólki á framfæri og lóðsar það í gegnum fjölmiðlaumræðu. Á þeim vettvangi er fólk ekki til sölu heldur hugmyndir fléttaðar í frásögn.
Fólk, sem á annað borð gefur sig að opinberri umræðu, selur sig ekki sjálft heldur frásögn sem það vill móta, af ólíkum ástæðum. Frásögnin er aðalatriðið, skiptir sköpum um niðurstöðu mála. Lítið dæmi er nýafstaðið gjaldþrot flugfélagsins Play. Forstjóri félagsins bar sig illa undan frásögninni í aðdraganda gjaldþrotins. Frásögn var að Play yrði gjaldþrota og hún gekk eftir. Þar með er ekki sagt að án frásagnar um væntanlegt fall hefði flugfélagið haldið velli. Á hlutabréfamarkaði er til fyrirbæri sem heitir skortsala; það er frásögn um að hlutabréf í tilteknu félagi séu á niðurleið. Stökkvi nógu margir á frásögnina og leggja peninga sinar undir er fátt til varnar - nema traustur undirliggjandi rekstur.
Baráttan um frásögnina er lifibrauð stjórnmálamanna. Stórt frásagnarmál íslenskra stjórnmála nú um stundir er hvort Ísland eigi að sækjast eftir aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Frásögnin stendur þannig á talandi stundu að verulega hallar á þá sem vilja ESB-aðild. Þess vegna er ekki búið að tímasetja þjóðaratkvæðagreiðslu. Fátt veldur stjórnmálaflokkum meiri skaða en töpuð frásögn.
Á Ísland að senda framlag til Eurovision-söngvakeppninnar ef Ísrael tekur þátt? er önnur frásögn í deiglunni. Fari svo að friður verði saminn í Gasa gufar upp frásögnin um sniðgöngu söngvakeppninnar.
Á hverjum tíma eru margar frásagnir undir og fólk, sem á annað borð tekur afstöðu, skiptist í fylkingar. Frásagnir fléttast saman og sama gera hóparnir að baki. Frásögnin um að Ísland taki ekki þátt í Eurovision, verði Ísrael með, fléttast saman við fréttirnar af Grétuflotanum undan ströndum landsins helga annars vegar og hins vegar friðartilraun Trump. Mikið er gert úr hnjaski Grétu og áhrifavaldanna en lítið úr mögulegum Trumpfriði. Augljóst er þó að Gréta og kó eru algjör aukaatriði í samhengi hlutanna.
Sumar frásagnir mara lengi í hálfu kafi án niðurstöðu. Byrlunar- og símamálið er þannig frásögn. Án þess að skrifuð hafi verið frétt um það eru flestir blaðamennirnir sem helst koma við sögu hættir blaðamennsku. Fjölmiðlar viðkomandi blaðamanna eru stórlaskaðir og annar við það að deyja drottni sínum. Tveir blaðamannanna selja Samfylkingunni frásagnarlist sína með vafasömum árangri. Frásögninni er ekki lokið en hún mótar líf hlutaðeigandi. Hægara sagt en gert er að flýja frásögn sem vill ekki gufa upp.
Endurtekning gefur frásögn byr undir báða vængi. Besti árangurinn næst þegar hamrað er nógu oft á einfaldri hugmynd, sem kemst fyrir í einu orði eða tveim. Í stríði Hamas og Ísrael fékk orðið þjóðarmorð sjálfstæða tilveru, varð vörumerki frásagnar. Sumarið 2021 og fram eftir hausti tröllreið íslenskri umræðu ,,skæruliðadeild Samherja". Í hvorugu tilfellinu var innistæða fyrir vörumerkjunum en þau slógu í gegn; ósannindi urðu að sannindum með endurtekningu.
Fólk er sem sagt ekki til sölu, en hugmyndir fléttaðar í frásögn ganga kaupum og sölum alla daga ársins. Þar ota sumir sínum tota á meðan aðrir hafa í það minnsta almannahag sem viðmið. Kúnstin er í fyrsta lagi að átta sig á samhengi frásagna og einstaklinga og hópa sem hafa í frammi þessa eða hina frásögnina. Í öðru lagi að átta sig á að sumar frásagnir eru settar fram til að blekkja og afvegaleiða á meðan aðrar eru sagðar í góðri trú. Í þriðja lagi verður maður að skilja að sumar hugmyndir og frásagnir eru rangar efnislega og halda ekki máli á mælistiku siðferðis. Allt þrennt ber að hafa í huga er yfir mann dynja linnulaust frásagnir daginn út og inn árið um kring. Hinn kosturinn er að gefa hvorki blaðamönnum né almannatenglum gaum.
![]() |
Fólk er ekki til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning