Laugardagur, 27. september 2025
Neyð á RÚV: netmiðlun, fjárhagur og byrlunarmálið
Neyðarástand er á RÚV. Ríkisfjölmiðillinn tapar notendum og auglýsendum, það kreppir að i fjárhag stofnunarinnar og byrlunar- og símamálið verður á dagskrá dómstóla á næstunni. Menntamálaráðuneytið íhugar að viðurkenna sjónvarp Sýnar sem almannaþjónustu. Áður hafði RÚV eitt þá stöðu.
RÚV hefur sem netmiðill 30 prósent færri notendur en DV. Netútgáfur Morgunblaðsins og Vísis eru hvor um sig þrefalt stærri en RÚV, skv. mælingu Gallup. Það er aðeins á sviði netmiðlunar sem raunhæfur samanburður er á milli fjölmiðla. Þar rekur RÚV lestina af þeim fjölmiðlum sem sinna almennu frétta- og upplýsingahlutverki. Næsti miðill á eftir RÚV á lista Gallup er fótbolti.is.
Léleg frammistaða RÚV í samkeppni við aðra fjölmiðla í fréttaþjónustu á netinu grefur undan stöðu ríkisfjölmiðilsins. Netmiðlun mun vaxa á kostnað sjónvarps og útvarps. Stóráfall er fyrir RÚV að vera í fjórða og síðasta sæti netmiðla sem sinna almennri fréttaþjónustu. Það er sterk vísbending um að almenningur treystir miðlum eins og Morgunblaðinu, Vísi og DV fremur en RÚV þegar kemur að fréttum og umfjöllun um samfélagsmál.
Traust á RÚV fer jafnt og þétt hnignandi á seinni árum. Litið er á RÚV sem pólitíska aðgerðamiðstöð en ekki hlutlægan og vandaðan fréttamiðil. Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra og sem slíkur yfirmaður RÚV, tekur undir með Írisi Erlingsdóttur fjölmiðlafræðingi að RÚV er ekki sú stofnun sem hún áður var:
Ríkisfjölmiðillinn, sem landsmenn verða nauðugir viljugir að gefa sex milljarða króna á ári, er vanur því að geta dreift lygum og pólitískum áróðri yfir þjóðina og að geta brotið lög um stofnunina dag hvern án þess að það hafi nokkrar afleiðingar fyrir áróðursmeistarana í Efstaleitinu.
Byrlunar- og símamálið vegur er lýsandi fyrir hnignun RÚV. Vorið 2021 var Páli skipstjóra Steingrímssyni byrlað og síma hans stolið. Byrlarinn, þáverandi eiginkona skipstjórans, afhenti símann Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Fyrir byrlun hafði Þóra keypt Samsung-síma samskonar og skipstjórans. Á ríkisfjölmiðlinum var síminn afritaður. Eftir afritun var stolna símanum skilað á sjúkrabeð skipstjórans þar sem hann lá meðvitundarlaus í öndunarvél. Fréttir voru skrifaðar með vísun í einkagögn skipstjórans en þær voru ekki birtar á RÚV. Þóra og samstarfsmenn hennar á Kveik sendu fréttirnar til birtingar á Stundinni og Kjarnanum. Samsæri gegn skipstjóranum og blekkingar gagnvart almenning héldust í hendur.
Páll skipstjóri stefnir RÚV fyrir dóm vegna aðilar ríkisfjölmiðilsins að byrlun, stuldi og broti á einkalífi. Dómsmálið verður tekið fyrir öðru hvoru megin við áramótin. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur viðurkennt að símanúmerið á afritunarsímanum er skráð á RÚV en hann neitar að tjá sig um málið að öðru leyti. Stjórnendur á RÚV vorið 2021, Rakel Þorbergsóttir fréttastjóri og Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, misstu störf sín án skýringa. Vörn RÚV í dómsmáli skipstjórans verður að afbrot fyrrverandi starfsmanna sé stofnuninni óviðkomandi.
Fyrir utan dómsmál skipstjórans er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis með til skoðunar aðkomu RÚV að byrlunar- og símamálinu. Á nýhöfnum þingvetri er meira en líklegt að fréttir verði af skoðun nefndarinnar á málinu sem gerði Glæpaleiti að viðurnefni.
Samhliða lélegri frammistöðu á samkeppnismarkaði og þverrandi trausti berast fréttir af sívaxandi fjárhagsvandræðum RÚV. Viðskiptablaðið greinir frá hallarekstri upp á 160 milljónir króna á fyrri helmingi árs. Sligandi launakostnaði og minni auglýsingatekjum er kennt um. Ef ekki verður tekið hart á málum er fyrirsjáanlegur aukinn taprekstur á næsta ári. Fjárhagsstaðan er orðin svo slæm á Efstaleiti að stjórnarmenn eru sendir betlandi til ríkisstjórnarinnar að létta skuldum af stofnuninni.
RÚV er komið í vítahring. Stórskaddað orðspor, sem mun enn versna, leiðir til minni notkunar sem aftur dregur úr auglýsingasölu. Í ofanálag bætist sú þróun að netmiðlar verða æ veigameiri á kostnað hefðbundinna fjölmiðla og þar stendur RÚV lakast af öllum íslenskum fréttamiðlum. Þegar bæði almenningur og auglýsendur hverfa frá er stoðunum kippt undan hlutverki RÚV sem fjölmiðli í almannaþjónustu.
Skattgreiðendur á Íslandi 16 ára og eldri greiða nauðungaráskrift til RÚV, rúmlega 20 þúsund krónur hver á ári. Löngu tímabært er að almenningur verði leystur undan nauðunginni, í öllu falli fái að velja sér fjölmiðil til að styrkja.
Athugasemdir
Ég er ekki hissa að hlustun og áhorf falla á Ruv. Maður rekur upp stór augu ef ske kynni að Ruv taki mál fyrir á málefnalegan hátt. Áróðursstíll hefur einkennt Ruv undanfarið, Úkraína, rangt málfar, Palestína, yfirvofandi stríð, áróðursþættirnir HATUR, kynjafræðingabullið, andúð á Trump, arfaslakur fréttaflutningur af andláti Kirk, o.s.frv. Langur listi.
Krakkaruv er heldur ekki undanskilið áróðri og þá helst í trans hugmyndafræðinni og röngu málfari.
Spara má 100 milljónir með því að draga okkur út úr Júróvísjón keppninni. Rándýr uppákoma.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 27.9.2025 kl. 08:42
Við erum aldir upp í að hafa hljótt þegar verið var að lesa (veður) fréttir í (sveita) útvarpi og síðar söfnuðust allir saman kl 19:00 tl að horfa á sjónvarpsfréttir
En nú svífa fréttir inn á öllum tímum líkt og ósýnilegir drónar yfir flugvöllum og ungt fólk sér í gegnum áróðurinn hjá RUV
En hversvegna leggur Samkeppniseftirlitið blessun sína yfir að RUV sé í samkeppni við aðra netmiðla?
Allavega ætti samkeppnishlutinn að vera aðskilinn öðrum rekstri sem nýtur ríkisstyrkja miðað við aðra úrskurði hjá SKE
Grímur Kjartansson, 27.9.2025 kl. 10:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning