Fimmtudagur, 25. september 2025
40 milljón kr. þöggun blaðamanna mistókst
Blaðamenn RSK-miðla stefndu tilfallandi bloggara tvisvar fyrir dóm til að þagga niður umfjöllun um byrlunar- og símamálið. Í fyrrasumar, þegar héraðsdómur Reykjavíkur, hafði í báðum málum úrskurðað blaðamönnum í vil stefndi lögmaður Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns, Gunnar Ingi Jóhannsson, tilfallandi til sýslumannsins í Reykjavík til að leggja fram veð fyrir himinháum útgjöldum sem lögmaðurinn taldi að tilfallandi yrði að standa skil á.
Samkvæmt útreikningi Gunnars Inga lögmanns áttu þrír blaðamenn inni hjá tilfallandi 40 milljónir króna. Fyrir þeirri fjárhæð krafðist lögmaðurinn ,,löggeymslu á eignum" tilfallandi. Í raun er um að ræða veð og kyrrsetningu eigna. Eini tilgangur kröfunnar var að láta tilfallandi vita að hann stæði frammi fyrir gjaldþroti. Launamaður hristir ekki fram úr erminni 40 milljónir króna. Blaðamenn eru aftur ríkisstyrktir og hafa sjóði Blaðamannafélagsins að ganga í.
Tilfallandi bar kröfu Aðalsteins undir lögmann sl. sumar og fékk þetta svar:
Krafan sýnir best skítlegt eðli þessara manna. Þeir eru einfaldlega að gera þér lífið leitt. Láta þig mæta til sýslumanns og leggja fram veð.
Fjörtíu milljón króna þöggunartilraun blaðamanna lauk núna með úrskurði hæstaréttar um að sýknudómur landsréttar yfir tilfallandi stæði óraskaður. Aðalsteinn Kjartansson fór bónleiður til búðar réttarríkisins líkt og félagar hans, Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson. Enn er málfrelsi í landinu og blaðamenn eru ekki hafnir yfir gagnrýni.
Sýknudómarnir tveir og staðfesting hæstaréttar ætti að fá blaðamenn til að hugsa sinn gang áður en þeir krefjast að málfrelsið sé tekið af bloggurum er gagnrýna blaðamennsku. Engar líkur eru á að það gerist á meðan Sigríður Dögg Auðunsdóttir situr sem formaður Blaðamannafélags Íslands.
Í sumar skrifaði Sigríður Dögg grein í Vísi með þessari smekklegu fyrirsögn, Má berja blaðamenn? Upphafsorðin:
Sýknudómur Landsréttar í meiðyrðamáli Aðalsteins Kjartanssonar blaðamanns gegn Páli Vilhjálmssyni bloggara sem féll 26. júní er áfellisdómur yfir dómskerfinu sem skortir grundvallarskilning á hlutverki blaðamanna og fjölmiðla.
Hér snýr formaður Blaðamannafélagsins öllu á hvolf. Það er hún sjálf og blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) sem ekki skilja hlutverk blaðamanna og fjölmiðla.
Blaðamenn eiga að upplýsa mikilsverð málefni samfélagsins. Þeir eiga ekki að stunda lögbrot og siðlaus vinnubrögð. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað og síma hans stolið með vitund og vilja blaðamanna. Sími skipstjórans var afritaður á RÚV. Á RÚV voru tvær útgáfur sömu fréttar skrifaðar og sendar til birtingar á Stundina og Kjarnann.
Dómstólar kynntu sér málsgögn og sáu í hendi sér að blaðamenn voru sekir eins og syndin þótt enn hafi ekki tekist að sanna afbrot á einstaka blaðamenn. Málsgögn lögreglu og opinber gögn, t.d. sama fréttin í Stundinni og Kjarnanum 21. maí 2021, sýna með óyggjandi hætti aðild blaðamanna að samsæri þar sem lög voru brotin og lífi og heilsu manns stefnt í voða.
Dómstólar hafa grundvallarskilning á frjálsri orðræðu og sýknuðu tilfallandi sem hafði nánast einn á fjölmiðlaakrinum afhjúpað ljótt, ólöglegt og siðlaust samsæri blaðamanna gegn fjölskyldu, einkalífi og heilsu Páls skipstjóra.
Sigríður Dögg og RSK-blaðamenn glíma við óleysanlegan vanda i byrlunar- og símamálinu. Formaðurinn og blaðmennirnir geta ekki útskýrt atburðarásina vorið 2021 þegar skipstjóranum var byrlað, síma hans stolið og tækið afritað á RÚV, á Samsung-síma sem keyptur var fyrir byrlun og þjófnað. Í stað þess að upplýsa og greina frá málsatvikum er bloggara stefnt fyrir dóm af þremur blaðamönnum með stuðningi Blaðamannafélags Íslands. Eini tilgangurinn er þagga niður í gagnrýnisrödd er vakti athygli á hinu augljósa, að blaðamenn eiga aðild að alvarlegum glæpum.
Að því kemur að byrlunar- og símamálið verður upplýst. Blaðamenn komast kannski hjá fangelsisdómum. Um æru og starfsheiður þarf ekki að spyrja.
![]() |
Sýknudómur Landsréttar stendur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning