Hæstiréttur hafnar Aðalsteini í byrlunarmálinu

Hæstiréttur hafnaði í gær beiðni blaðamannsins Aðalsteins Kjartanssonar um áfrýjun til réttarins. Þrír hæstaréttardómarar taka ákvörðun um hvort dómur undirréttar fái endurmat í æðsta dómstól landsins. Sýknudómur landsréttar í máli tilfallandi, Páls Vilhjálmssonar, stendur.

Aðalsteinn stefndi tilfallandi fyrir ærumeiðingar. Tifallandi var sakfelldur í héraðsdómi en sýknaður í landsrétti. Öll ummælin, sem Aðalsteinn stefndi tilfallandi fyrir, voru um byrlunar- og símamálið en þar var Aðalsteinn sakborningur ásamt blaðamönnum af Stundinni og Kjarnanum, nú Heimildin, og RÚV.

Áður en Aðalsteinn stefndi tilfallandi höfðu blaðamennirnir Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson sameiginlega stefnt bloggara fyrir dóm. Landsréttur dæmdi tilfallandi í vil og hæstiréttur hafnaði áfrýjunarbeiðni blaðamanna. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður varði tilfallandi í báðum dómsmálum.

Byrlunar- og símamálið hófst vorið 2021. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað. Á meðan skipstjórinn var á gjörgæslu í dái hálfan þriðja sólarhring var síma hans stolið og færður Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Fyrir byrlun hafði Þóra keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans. Eftir afritun á RÚV var síma skipstjórans skilað á sjúkrabeð hans á Landsspítalanum í Fossvogi, steinsnar frá Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV. Samsærið gekk út á að skipstjórinn væri grunlaus um að sími hans hefði verið afritaður.

Þáverandi eiginkona Páls skipstjóra, er glímir við erfið andleg veikindi, hefur játað að byrla, stela og færa blaðamönnum síma eiginmannsins. Tvær samhljóða fréttir voru unnar á RÚV og sendar til birtingar á Stundina og Kjarnann þar sem vísað var í gögn úr símanum. Aðalsteinn leppaði fréttina á Stundinni en Þórður Snær og Arnar Þór voru skráðir ,,höfundar" fréttarinnar á Kjarnanum. Allir þrír fengu verðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir ómakið. 

Lögreglurannsókn hófst sumarið 2021. Enginn fjölmiðill skrifaði um málið og aldrei voru blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans spurðir hvernig það atvikaðist að tveir ótengdir fjölmiðlar fengu sömu fréttina og birtu samtímis morguninn 21. maí. Aðalsteinn var fréttamaður á RÚV en hætti skyndilega þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans og hóf samdægurs störf hjá Stundinni. Þegar Aðalsteinn hætti á RÚV var búið að kaupa Samsung-símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans. Vistaskipti Aðalsteins voru hluti af samsærinu.

Tilfallandi hóf að skrifa um byrlunar- og símamálið haustið 2021. Um miðjan nóvember birtu Þórður Snær á Kjarnanum og Aðalsteinn á Stundinni samtímis greinar þar sem tilfallandi voru valin hin verstu orð, hann sagður ímyndunarveikur, að engin byrlun eða þjófnaður hefði átt sér stað með vitund og vitneskju blaðamanna RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn).

Fjórir blaðamenn fengu stöðu sakbornings í febrúar 2022: Aðalsteinn, Þórður Snær, Arnar Þór, og Þóra. Í fjölmiðlaumræðu fór mesta púðrið í vörn blaðamanna, að óeðlilegt og jafnvel ólöglegt, væri að þeir fengu stöðu sakborninga. Tilfallandi bloggari var einn um að rekja efnisatriði málsins og draga upp mynd af málsatvikum vorið 2021.

Til að þagga niður í tilfallandi stefndu blaðamennirnir bloggara í tveim sjálfstæðum dómsmálum. Þeir kröfðust ómerkingar ummæla, miskabóta upp á milljónir króna og að tilfallandi greiddi þeim lögfræðikostnað.

Með úrskurði hæstaréttar í gær eru blaðamenn komnir á endastöð í tilraun til að hefta málfrelsi bloggara sem neitaði að láta undan hótunum og hætta að segja fréttir af stærsta fjölmiðlahneyksli Íslandssögunnar. Hér að neðan eru ummælin sem bloggara var stefnt fyrir og hlekkir á viðeigandi slóðir. Lesendur átta sig á samhengi hlutanna þegar þeir skoða færslurnar. Landsréttur telur innistæðu fyrir öllum ummælunum, hæstiréttur segir að ekki séu efni til að endurskoða dóm landsréttar.

Blaðamenn verðlauna glæpi 2. apríl 2022:

„…og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans“.

Aðalsteinn hætti ekki á RÚV 25. ágúst 2022:

„Leikritið um að Aðalsteinn ynni á Stundinni, en ekki RÚV, var hluti af samráði um að byrla og stela til að ná í fréttir“.

Aðalsteinn gagnrýnir Stefán útvarpsstjóra 28. október 2022:

„Aðalsteinn er þrautþjálfaður í blekkingum.“

„Aðalsteinn var sendur á Stundina til að taka við þýfinu og koma í umferð“.

„Engin rannsóknarvinna fór fram, aðeins byrlun og stuldur“.

5 blaðamenn ákærðir í febrúar 15. febrúar 2023:

„Fimm blaðamenn RÚV og Heimildarinnar, áður Stundin og Kjarninn, fá birta ákæru næstu tvær vikurnar vegna aðildar að byrlun, gagnastuldi, stafrænu kynferðisofbeldi og broti á friðhelgi tveggja starfsmanna Samherja, Páls Steingrímssonar og Örnu McClure. Eyþór Þorbergsson aðstoðarsaksóknari lögreglunnar á Norðurlandi eystra staðfesti í viðtali við danska blaðamanninn Lasse Skytt að ákærur yrðu birtar fyrir lok mánaðar“.

„Sjötti sakborningurinn er veika konan sem blaðamennirnir fengu til að byrla Páli, stela síma hans á meðan skipstjórinn var í öndunarvél og færa blaðamönnum sem biðu ránsfengsins á Efstaleiti…“.

Ný gögn í byrlunarmáli Páls skipstjóra 27. febrúar 2023:

„Nýr vitnisburður, og gögn sem styðja þá frásögn, sýna fram á að blaðamennirnir hafi tekið þátt í að skipuleggja byrlunina, verið með í ráðum þegar í upphafi“.

„Tölvupóstar sem staðfesta aðild blaðamanna að undirbúningi tilræðisins eru ekki lengur til. Þeim var eytt.

„En það bráðlá á að Aðalsteinn færi yfir á Stundina til að vinna úr stolnu gögnum er kæmu á RÚV. Þá átti bara eftir að byrla skipstjóranum og stela síma hans þegar Aðalsteinn flutti blaðamennsku sína af RÚV yfir á Stundina“.

Bí normalíserar glæpi, játar óheiðarleika 21. mars 2023:

„Það er einnig þekkt staðreynd að varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, var fluttur af RÚV á Stundina…“

„Rök standa til að blaðamenn hafi skipulagt byrlun gagngert til að komast yfir síma skipstjórans“.

„Tímann notuðu þeir til að hylja slóðina, eyða gögnum“.

Þóra ráðleggur byrlara 22. mars 2023:

„Blaðamennirnir voru vel meðvitaðir um að hafa framið alvarlegt lögbrot og kappkostuðu að eyða sönnunargögnum“.

„Blaðamenn RSK-miðla nýttu sér yfirburða stöðu sína og virðast hafa haft öll ráð veiku konunnar í hendi sér“.

Bloggarar byrla ekki 14. apríl 2023:

„RSK-miðlar nýttu sér skotleyfið áður en það var gefið út. Þeir misnotuðu andlega veika konu til að byrla og stela.“

Af lögreglurannsókn byrlunar- og símamálsins er það að frétta að henni er ekki lokið. Rannsókninni var hætt tímabundið hvað blaðamenn varðar, með sérstakri yfirlýsingu lögreglunnar. Ný gögn og dómsúrskurðir, bæði hér heima og erlendis, gætu opnað málið að nýju. Páll skipstjóri Steingrímsson hefur stefnt RÚV í einkamáli og von er á frekari dómsmálum af hans hálfu. Stjórnskipunarnefnd alþingis er með til rannsóknar hlutdeild ríkisfjölmiðilsins RÚV í byrlun, þjófnaði og siðlausri blaðamennsku.

Byrlunar- og símamálið lifir svo lengi sem það er óupplýst.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband