Dagur mótmælir sjálfum sér og vill fórna Íslandi

Þingmannanefnd um öryggis- og varnarmál Íslands skilaði af sér skýrslu í byrjun viku. Einn nefndarmanna er Dagur B. Eggertsson þingmaður Samfylkingar og fyrrum borgarstjóri. Í skýrslunni segir afdráttarlaust:

Bandaríkin eru eina ríkið sem hefur burði til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi með fullnægjandi hætti.

Í Morgunblaðinu í dag mótmælir Dagur sjálfum sér sem nefndarmanni í þingmannanefndinni. Hann skrifar á leiðaraopnu að varnarviðbúnaður Íslands sé best tryggður með aðild að Evrópusambandinu:

Evrópusambandið hefur einnig vaxandi hlutverki að gegna á sviði varnar- og öryggismála. Það er mikilvægt að Ísland tengist ESB eins nánum böndum og kostur er í þágu öryggis og varna Íslands og sameiginlegra varnarhagsmuna.

Dagur grefur undan varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951. Hann talar um að Ísland verði að ,,bregðast við breyttum viðhorfum í Bandaríkjunum." Þingmaðurinn útskýrir ekki hver þessi breyttu viðhorf séu. Skýringin kippir fótundum undan þeirri óskhyggju Dags að ESB-Evrópa sé eitthvað annað og meira en meginlandsklúbbur gamalla nýlenduvelda er lifa á fornri frægð.  

Dagur beinlínis falsar landfræðilegar og pólitískar staðreyndir þegar hann talar um ,,sameiginlega varnarhagsmuni" Íslands og ESB-Evrópu á Norður-Atlantshafi. Engin smáþjóðanna á norðurslóðum, þ.e. Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur, er ESB-ríki. Hitt er vitað að ESB-Evrópa vill gjarnan klófesta smáþjóðirnar og gera að sínum peðum í valdaskaki við Bandaríkin.

Bandaríkin líta ekki lengur á Vestur-Evrópu sem útvörð andspænis ógn frá austri líkt og í kalda stríðinu. Sovétríkin féllu fyrir 35 árum, einhver þyrfti að segja Degi þær fréttir. Er Trump bauð Pútín til leiðtogafundar í Alaska í sumar var það yfirlýsing um að Bandaríkin líta á Rússland, arftaka Sovétríkjanna, sem jafningja í margpóla alþjóðapólitík. 

Varnarlína Bandaríkjanna í austri í nýrri heimsskipan er GIUK-hliðið. Það er hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands. Í skýrslu þingmannanefndarinnar er birt mynd af landfræðilegri legu GIUK-hliðsins. Dagur veit um stöðu mála en er of mikill ESB-sinni til að draga rökrétta ályktun.

Dagur fjallaði um valdatilkall Bandaríkjanna til Grænlands í Morgunblaðspistli þann 28. ágúst síðast liðinn. Þar kemur fyrir skrítin hugsun:

Evrópa stendur með Dönum og Grænlendingum í málinu. Íslendingar ættu auðveldlega að geta sett sig í spor Grænlendinga og Dana.

Fáránlegt er að segja Dani og Grænlendinga í sömu sporum. Grænland er nýlenda en Danmörk er nýlenduveldið. Hvort eiga Íslendingar að setja sig í spor Dana eða Grænlendinga? Það er spurningin. Pólitískur geðklofi er að fara í spor beggja þjóðanna.

Grautarhugsun Dags er dæmigert ESB-heilkenni íslenskra vinstrimanna. Þeir skilja ekki að ESB-Evrópa er núll og nix á Norður-Atlantshafi. Íslenskum hagsmunum í bráð og lengd er fórnað með fyrirhugaðri aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í fyrsta lagi yrði innanlandsófriður, milli ESB-sinna annars vegar og hins vegar fullveldissinna og Bandaríkjavina. Í öðru lagi yrði Ísland bitbein erlendra ríkja, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Sagna kennir okkur að smáþjóð sem kemur sér í slíka stöðu er ekki viðbjargandi.    


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband