ESB í töpuðu stríði og staða Íslands

Þýski herinn þarf að vera sá sterkasti í Evrópu, segir Friedrich Merz kanslari. Hann nefnir ekki Evrópuher. Síðast var þýski herinn sá sterkasti í Evrópu  var í upphafi seinna stríðs. Þýski herinn hélt í austurvíking, með smá stoppi í París, Niðurlöndum og Danmörku og Noregi.

Evrópusambandið var stofnað eftir seinna stríð til að binda Þjóðverja inn í vestur-evrópskt öryggiskerfi andspænis Sovétríkjunum. Bandaríkin sáu um hervarnir Evrópusambandsins og forvera í gegnum Nató. 

Eftir fall Sovétríkjanna fyrir 35 árum verður til sú hugmynd að Bandaríkin og ESB, með Nató sem verkfæri, stækkuðu áhrifasvæði sitt í austur. Greiðlega gekk að fá fyrrum hjálendur Sovétríkjanna, Pólland, Eystrasaltslöndin og fleiri, inn í Nató. Rússland, helsti arftaki Sovétríkjanna, var veikt. Er Rússlandi óx fiskur um hrygg, er leið á fyrsta áratug aldarinnar, var hermt upp á vestrið loforð, gefið við sameiningu Þýskalands, að Nató stækkaði ekki í austur. Úkraína var prófsteinninn. Vestrið lét sér rússnesk varnaðarorð engu skipta, Úkraína skyldi verða Nató-ríki.

Síðasti kafli vestræna austurvíkingsins stendur yfir. Innrás Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022 afhjúpaði blekkinguna um að vestrið gæti með efnahagsþvingunum átt í fullu tré við Rússland. Úkraína tapar á vígvellinum, þrátt fyrir vestræn vopn og fjármagn. Hvorki Nató í heild né Evrópusambandið eru tilbúin að fórna eigin hermönnum í austurvegi. Óvíst er hvernig Úkraína tapar, en ekki hvort.

Evrópusambandið, og forverar, var ekki sett upp sem hernaðarveldi heldur efnahagsbandalag. Stór-Evrópa var markmiðið, smíðuð úr efnahagsstyrk og pólitík. Nató átti að leggja til hernaðarmáttinn. Frá og með fyrra kjörtímabili Trump 2017-2021 er ljóst að Bandaríkin ætla að láta Evrópu um að verja sig sjálfa. Á seinna forsetatímabili sínu er stefna Trump að Úkraínustríðið sé fyrst og síðast Evrópustríð sem hann vill ljúka án tafar. Máttur Bandaríkjaforseta er þó ekki meiri en svo að stríðið heldur áfram.

Ráðamenn á meginlandi Evrópu draga þá ályktun, samanber orð Friedrich Merz kanslara, að hervæðing álfunnar sé mál málanna. Bandaríkin ætla ekki að standa undir varnarviðbúnaði meginlands Evrópu líkt og þau hafa gert frá lokum seinna stríðs. Evrópuher er þó ekki á dagskrá, nema sem aukageta. Þjóðarherir einstakra ríkja verða hryggstykkið í endurvígvæðingunni.

Rússland hefur aldrei ráðist inn í Vestur-Evrópu, Finnland undanskilið, sem á landamæri að Rússlandi. Frakkar réðust á Rússland 1812 og Þjóðverjar tvisvar á síðustu öld. Merz kanslari hefur ekki áhyggjur af innrás Rússa í Þýskaland, þótt hann láti annað í veðri vaka. Hann hefur aftur áhyggjur, með réttu, af samkeppni við Rússa um völd og áhrif í Austur-Evrópu og þarf herstyrk. Tilgangurinn er að hnykla vöðvana fremur en stríðsrekstur.

Evrópusambandið, Vestur-Evrópa sérstaklega, stendur illa í komandi átökum við Rússland. ESB-Evrópa er ekki  með bandarískt bakland líkt og í kalda stríðinu. Rússland er styrkt af Kína og Indlandi. Eftir að Úkraínustríðinu lýkur á rússneskum forsendum er ESB-Evrópa í hættu að gliðna í sundur. Austurhluti álfunnar verður rússneskt áhrifasvæði. Vesturhlutinn á eftir uppgjör milli gamalla erfðafjenda, Frakklands og Þýskalands, um hvort ríkið verði miðlægt í nýrri varnar- og öryggistefnu er tekur mið að gjörbreyttum valdahlutföllum í heimshlutanum.

Ísland getur aðeins dregið eina ályktun af vígstöðunni á meginlandi Evrópu. Ályktunin er sú saman og Bandaríkjamenn hafa dregið, að eljaraglettur gömlu Evrópuveldanna koma okkur ekki við. Ekki undir nokkrum kringumstæðum á Ísland að íhuga að ganga inn í meginlandsklúbbinn sem heitir Evrópusambandið. Nærtækara væri að við yrðum nýlenda Breta eða 16da fylki Noregs - sem hvorttveggja er fáránlegt.

Evrópusambandið hefur ekkert að bjóða Íslandi nema ófrið og almenn leiðindi næstu áratugi. Ísland er eyja á Norður-Atlantshafi og á engra hagsmuna að gæta á meginlandi Evrópu. Við eigum að vara okkur á lúmskum leik Evrópusambandsins að koma ár sinni fyrir borð í okkar heimshluta með aðild Grænlands, Íslands og Noregs að ESB. Tilfallandi hefur bloggað um þau launráð.

Veikasti hlekkurinn í fullveldi þjóðarinnar er sitjandi ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur. Ráðherrar eru ólæsir á þróun alþjóðamála enda blindir í aðdáun sinni á Evrópusambandinu.

 

 

 


mbl.is Heimsvaldastefna Pútíns endi ekki með landvinningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

En það er starfandi 5 herdeildin í evrópu og liðsmenn þeirra fela sig meðal "mótmælenda". Þeirra síðasta afrek var að elta ráðaherra í Svíþjóð heim og kortleggja þannig hvar hann á heima svo hægt sé að gera heimilið að skotmarki síðar.

Carl-Oskar Bohlin förföljd av Palestinademonstranter | SVT Nyheter

Grímur Kjartansson, 9.9.2025 kl. 08:47

2 Smámynd: Dominus Sanctus.

"Er Rússlandi óx fiskur um hrygg, er leið á fyrsta áratug aldarinnar,

var hermt upp á vestrið loforð, gefið við sameiningu Þýskalands,

að Nató stækkaði ekki í austur. Úkraína var prófsteinninn". 

--------------------------------------------------------------------------------

Er þetta LOFORÐ einhversstaðar til skjalfest með undirskriftum?

Dominus Sanctus., 9.9.2025 kl. 09:59

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband