Föstudagur, 5. september 2025
Tölvumaður saksóknara í verktöku hjá RSK-miðlum
Sakborningur í lekamáli héraðssaksóknara, tölvumaðurinn Heiðar Þór Guðnason, er starfsmaður embættis héraðssaksóknara. Hann er einnig verktaki hjá RSK-miðlum og veitti upplýsingar um Namibíumálið til blaðamanna RÚV og fylgimiðla, Kjarnans og Stundarinnar, sem nú heita Heimildin. Tölvumaðurinn gæti einnig hafa aðstoðað blaðmenn í byrlunar- og símamálinu.
Í nýrri frétt Heimildarinnar segir að Heiðar Þór hafi í október í fyrra fundið ný gögn í tölvu Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara, sem er upphafsmaður Namibíumálsins. Gögnin eru smáskilaboð milli Jóhannesar og Þorsteins Más þáverandi forstjóra Samherja. Heiðar Þór fann gögnin sem starfsmaður héraðssaksóknara. Heiðar Þór framseldi gögnin strax til Helga Seljan, sem þá var blaðamaður á Heimildinni. Helgi Seljan og Aðalsteinn Kjartansson, sakborningur í byrlunar- og símamálinu, birtu saman frétt í Heimildinni 18. október í fyrra undir fyrirsögninni Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins. Í fréttinni er talað um að gögnin hafi fundist nokkrum dögum áður af tölvumanni hjá embætti héraðssaksóknara. Atburðarásin liggur fyrir og er staðfest í fréttum Heimildarinnar. Tölvumaður embættis héraðssaksóknara flytur gögn til fjölmiðla, Heimildarinnar, um leið og þau verða til hjá embættinu.
Verktakaþjónusta Heiðars Þórs, starfsmanns héraðssaksóknara, í þágu RÚV og Heimildarinnar samrýmist ekki lögum og reglum. Heiðar Þór hefur lögregluheimildir til að rannsaka gögn sem starfsmaður embættis héraðssaksóknara. Hann hefur ekki heimild að framselja þau gögn til fjölmiðla. Spilling er vægt orð í þessu samhengi. Alvarlegt brot í starfi er nærtækara. Helgi Seljan, sem flutti sig af Heimildinni á RÚV í vor, kallar það þjófnað þegar gögnum héraðssaksóknara er lekið - en ekki þegar hann sjálfur er þjófsnauturinn. Þá heitir það upplýsingamiðlun.
Fjölmiðlar, með RSK-miðla í broddi fylkingar, saksækja Samherjamenn í opinberri umræðu og vísa í upplýsingar héraðssaksóknara sem eru trúnaðarmál þangað til að sakamálarannsókn lýkur og málið er annað tveggja fellt niður eða fer fyrir dóm með ákærum. Trúnaðarupplýsingar úr rannsókn héraðssaksóknara nota blaðamenn til að rægja og sakfella menn sem hvergi hafa hlotið dóm að lögum en eru ofsóttir af RSK-miðlum. Upplýsingar sem blaðamenn nota eru meira og minna rusl sem héraðssaksóknari þorir ekki að leggja fram sem rökstuðning fyrir ákæru. Blaðamenn róta í ruslinu og nota það í fjölmiðlaumræðu til að hafa æruna af saklausum mönnum og bendla þá við alvarlega glæpi. Æðsti dómstóll þeirrar umræðu heitir Glæpaleiti.
Innihald tölvupóstanna hefur ekki verið opinberað, aðeins að textaboð hafi farið á milli uppljóstrara og forstjóra. Líklega er innihaldið nauðaómerkilegt. Jóhannes uppljóstrari og Þorsteinn Már eru tengdir fjölskylduböndum. Fyrrverandi eiginkona Þorsteins Más og Jóhannes eru systkinabörn. Kannski var Jóhannes að spyrja um vöxt og viðgang frændsystkina sinna tveggja, barna Þorsteins Más? Það má bóka að ef eitthvað saknæmt hefði farið fram á milli Jóhannesar og forstjóra Samherja væri það óðara frétt í RÚV og Heimildinni. Engar slíkar fréttir hafa birst, aðeins að textaboð fóru á milli manna. RSK-miðlar stilla málinu þannig upp að lesendur dragi þá ályktun að fjöldi textaboða gefi til kynna eitthvað misjafnt. ,,Berðu mig samt ekki fyrir því," er aðferð Gróu á Glæpaleiti.
RSK-miðlar eru aðalgerendur í byrlunar- og símamálinu, líkt og í Namibíumálinu. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað 3. maí 2021. Þáverandi eiginkona hans, í samráði við blaðamenn, byrlaði og stal síma skipstjórans sem hún færði Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Á RÚV var símtækið afritað á Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, er var til reiðu áður en byrlun og þjófnaður fóru fram. Tvær samhljóða fréttir voru skrifaðar og sendar til birtingar á Stundina og Kjarnann.
Eftir að lögreglurannsókn hófst sumarið 2021 var Þóra í reglulegu sambandi við konuna, sem glímir við alvarleg andleg veikindi. Blaðamenn leituðust við að fela slóðina sem liggur á milli glæpa og fjölmiðla. Þóra Arnórsdóttir brýndi fyrir konunni í sms-skilaboðum þann 24. ágúst 2021 að ,,breyta ÖLLUM lykilorðum alls staðar." Þóra er kominn í samband við tölvumann sem hún vill að skoði síma andlega veiku konunnar. Þóra skrifar sms-skilaboð:
Hann vill helst ekki hittast (mjög varkár maður, skiljanlega) en spyr hvort þú treystir honum fyrir símanum einn dag?
Það skyldi þó aldrei vera að ,,mjög varkár maður" sé enginn annar en Heiðar Þór Guðnason, tölvusérfræðingur hjá embætti héraðssaksóknara og nú sakborningur í lekamálinu?
Í lokin er rétt að spyrja: hversu lengi verður Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í embætti? Það er á hans vakt sem embættið verður ólögleg lekasmiðja fyrir RSK-miðla. Fær Ólafur Þór, eftir starfslok sem saksóknari, stöðu á Glæpaleiti hjá Stefáni Eiríkssyni fyrrum lögreglustjóra - með meðmælum Helga Seljan?
![]() |
Saksóknari lýsir sig vanhæfan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvaða tölvumenn ætli hafi verið við störf í ráðuneyti Hönnu Birnu
Blaðmenn höfðu allar upplýsingar en Hanna Birna ekki
Grímur Kjartansson, 5.9.2025 kl. 10:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning