Miðvikudagur, 13. ágúst 2025
Skólar kenna bágindi
Grunn- og leikskólar stjórnast af meðvirkni með bágindum. Slagorðið ,,B er best" endurspeglar skólastefnu þrotafólks. Undir fölskum formerkjum fjölbreytileika er náttúrulegur breytileiki barna afnuminn, öllum skal þröngvað undir bókstafinn B. Enginn fær A og fáir C. Nær allir með B - fyrir bágindi.
Ástæðurnar fyrir meðvirkni með bágindum eru margvíslegar og ekki við kennara eina að sakast, þótt þeir og samtök þeirra beri drjúga ábyrgð. Sú hugsun varð ráðandi á síðasta fjórðungi liðinnar aldar að allir ættu að fara í framhaldsnám. Á þessari öld er sannfæringin að allir eigi að ljúka háskólanámi, jafnvel þeir ólæsu. Menntastefna fyrir alla verður á endanum menntastefna fyrir enga - nema bágindin.
Upp úr aldamótum verður vellíðan nemenda forgangsmál í skólastarfi. Barn sem ekki býr við sæmilegt atlæti heima hjá sér er ekki líklegt að þrífast í skóla. Vandinn sem fylgir að heiman verður ekki lagfærður nema að takmörkuðu leyti í skólanum. Vinstrimenn halda annað en það er rangt. Skólinn getur aldrei borið ábyrgð á misheppnuðum foreldrum. Illu heilli eru vinstrimenn nær allsráðandi í skólastarfi.
Kvenvæðing kennarastéttarinnar er ein skýringin. Um og yfir 90 prósent kennara í leik- og grunnskólum eru konur. Mæðrahyggja er góðra gjalda verð en aðeins í bland við feðragildi. Eins og nærri má geta er engin umræða um stórkostlegan kynjahalla skólanna.
Skólastarf í ógöngum verður ekki leiðrétt nema ástæðurnar séu greindar. Af sjálfu leiðir að þegar margvíslegar orsakir liggja að baki er ekki heiglum hent að ráða bót á. Engin allsherjarredding er í boði. Ásamt greiningu á vandanum verður að hafa einhverja hugmynd um að hverju skal stefnt.
Ágætis byrjun á endurreisn skólastarfs er að spyrja um tilganginn með leik- og grunnskólum og forgangsraða. Leikskólar eru til að annast börn frá því þau eru ómálga og verða stautfær. Leikir, föndur, ærsl og umhyggjusamur agi stuðla að alhliða þroska. Í grunnskólum hlýtur forgangurinn að vera lestur og reikningur og námsgreinar er stuðla að skilningi á náttúru og mannlífi. Ekkert flókið og margreynt fyrirkomulag við kennslu barna.
Meðvirkni með bágindum birtist hvað skýrast í afneitun á grunnstaðreyndum mannlífsins. Lífsskoðunarfélagið Samtökin 78 fær aðgang að skólum með þá bágindasérvisku að sum börn séu fædd í röngum líkama. Fávísi er milt orð um kenninguna. Sami félagsskapur boðar að kynin séu ekki tvö heldur óteljandi. Kynjaruglið í leik- og grunnskólum þarf að afskaffa með hraði. Sértrúarsöfnuðir fullorðinna eiga ekkert erindi í skólastarf barna og ungmenna.
Í skólastarfi þarf menntun að koma í stað meðvirkni með bágindum. Einfalt.
![]() |
Reiknar í laumi einkunnir eftir gamla kerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þórarinn á Ein pæling fjalladi nylega um adjunktin og aðgerdasinnann Ingólf Gislason og þau fræði sem hann kennir i HÍ. þau kallast Umburðalynd stærðfræði þ.s. umburðarlyndið miðar að því að gera alla jafn heimska. Liklega á þetta "B er best" uppruna sinn i þessum fræðum, þvi samkbvæmt þeim er mismunun i einkunnum fasisk. Miðað við lýsingu Þórarins og tilvitnanir i ritsmiðar Ingólfs væri það yfirnátturulegt kraftaverk ef niðurstöður einkunna í Pisa könnunum færu batnandi.
Börnin okkar þurfa ekki á þessari innflutu marxisku heimsku frá bandariskum háskólum að halda.
Ragnhildur Kolka, 13.8.2025 kl. 09:06
Ég man nú enn eftir skólaslitunum í Barnaskóla Keflavíkur
Þegar dúxinn var tilkynntur þá höfðu fæturnir hennar sofnað eftir setu á gólfi leikfimissalarins og hún gat því ekki staðið upp.
Vinur minn var mjög sár yfir að hún var hærri en hann einungis því leikfimisfagið reiknaðist ekki með hjá henni í meðaleinkunn
Grímur Kjartansson, 13.8.2025 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning