Helgi á RÚV og Heimildin auglýsa byrlunarmálið

RSK-miðlar, sem eru RÚV, Stundin og Kjarninn bjuggu til tvö af stærri sakamálum síðustu ára, Namibíumálið annars vegar og hins vegar byrlunar- og símamálið. Í fyrra málinu voru blaðamenn ásakendur en í því seinna sakborningar.

Namibíumálið hófst nóvember 2019 með alræmdum Kveiksþætti Helga Seljan og Aðalsteins Kjartanssonar á RÚV. Leiddur var fram Jóhannes Stefánsson, kallaður uppljóstrari, sem sagði tröllasögur af mútugjöfum Samherja í Namibíu um miðjan annan áratug aldarinnar. Sakamálarannsókn hófst á Íslandi og Namibíu sem sex árum síðar hefur engu skilað.

Fyrir tæpu ári greindi tilfallandi frá stöðunni:

Jóhannes var rekinn frá fyrirtækinu 2016 vegna óreglu. Þremur árum síðar hóf hann samvinnu RSK-miðla um að ásaka Samherja, og í leiðinni sjálfan sig, um mútugjafir þar syðra til að fá veiðirétt i landhelgi Namibíu. Engar sannanir hefur uppljóstrarinn lagt fram, aðeins ásakanir.

RSK-miðlar með ríkisfjölmiðilinn í fararbroddi fela skipulega orðsporið sem fer af Jóhannesi sem ógæfumanni. Nýverið sagði namibískt dagblað að Jóhannes væri eiturlyfjafíkill og ómarktækur eftir því. Tölvupóstur sem Jóhannes skrifaði í október 2014 til vinar síns staðfestir að hann átti bæði í vandræðum með drykkju og efni í nös. Tölvupósturinn hefur ekki birst áður, jafnvel þó blaðamenn RÚV og Heimildarinnar hafi haft hann undir höndum. RSK-miðlar stinga undir stól upplýsingum sem falla ekki að myndinni sem þeir draga upp, að Jóhannes sé trúverðug heimild. Tölvupósturinn er svohljóðandi í heild:

08.10.2014 kl. 09:17, JS: Sælir, hvernig gengur. Búið að vera jákvætt hérna og ljóst að maður þarf að passa sig og vera edrú. Traustið er mikið hérna og menn vilja byggja enn frekari upp í Namibíu. Ingvar talaði við mig um málið í Cape Town og ég sagði honum að ég hafi tekið nokkrar stikkprufur en væri hættur. Væru bara töfftímar sem að maður væri að ganga í gegnum. Hann skildi það vel og ekkert mál.

Jóhannes þarf að passa sig að vera edrú en leyfði sér að taka ,,nokkrar stikkprufur". Slíkar prufur eru duft en ekki drykkur. Samt væri Jóhannes ,,hættur". Hann hætti vitanlega ekki og hélt áfram líferni sem fer ekki saman við heilbrigða dómgreind. DV sagði frá stjórnlausri kókaínneyslu og öðru miður fallegu í aðdraganda þess að Jóhannes keyrði sjálfan sig og Samherja í þrot í Namibíu.

Tilfallandi fékk upplýsingar frá lögmanni sem hlustaði á yfirheyrslu íslensku lögreglumannanna sem heimsóttu Jóhannes í London. Lögmaðurinn sagði Jóhannes í því ásigkomulagi að hann gat ekki farið rétt með eigin kennitölu. Lögreglumenn urðu að leiðrétta kennitöluna sem uppljóstrarinn margfrægi gaf upp, ekki einu sinni heldur tvisvar.

Byrlunar- og símamálið hófst tveim árum eftir Namibíumálið eða vorið 2021. Með vitneskju og e.t.v. í samráði við blaðamenn RSk-miðla var Páli skipstjóra Steingrímssyni byrlað, síma hans var stolið og tækið afritað á RÚV. Ein frétt, um ímyndaða skæruliðadeild Samherja, var samin á RÚV og send til birtingar á Stundina og Kjarnann. Fréttin birtist samtímis að morgni 21. maí 2021. Fyrir utan lögbrotin og siðleysið við öflun og vinnslu fréttarinnar lugu blaðamenn og fjölmiðlar þeirra blákalt að lesendum, sögðu að tveir fjölmiðlar, Stundin og Kjarninn, hefðu af sjálfsdáðum unnið frétt sem í reynd var samin á RÚV og stýrt þaðan. Það þurfti að fela glæpinn.

Á alla mælikvarða fréttamennsku er byrlunar- og símamálið stærri frétt en Namibíumálið. RSK-miðlar, sem nú mætti kalla RH-miðla, þar sem Stundin og Kjarninn sameinuðust undir heitinu Heimildin, vilja á hinn bóginn ekki neinar fréttir um byrlunar- og símamálið en eru áfram um að Namibíumálið sé til umræðu.

Í gær og fyrradag var samstarf á milli RÚV og Heimildarinnar að ýta úr vör endurtekinni fréttaumfjöllun um Namibíumálið. Í fyrradag flutti Helgi Seljan á RÚV tíu mínútna eintal um Namibíumálið, sem hann kallar auðvitað Samherjamálið, og stöðu þess í Namibíu. Enginn aðili frá Samherja er þar á ákærubekk. Jóhannes uppljóstrari Stefánsson hefur ekki mætt til Namibíu að gefa yfirvöldum þar skýrslu um athafnir sínar þegar hann stjórnaði dótturfélagi Samherja þar syðra um miðjan síðasta áratug. Dómsmálið í Namibíu er alfarið innanlandsmál.

Í eintali Helga er farið um víðan völl í dómsmálinu og lítt hirt um staðreyndir. Hann segir Namibíu álíka fjölmenna og Ísland - en Namibíumenn telja 3 milljónir manna. Þá hefur hann áhyggjur af sinaskeiðabólgu hraðritara við dómstóla í Afríkuríkinu. Helgi veður úr einu í annað og er ekki með neina frétt eða frásögn í höndunum. Tilgangurinn er sá einn að koma á framfæri að Namibíumálið, Samherjamálið í hugarheimi Helga, sé enn lifandi á suðurhveli jarðar.

Með eintalinu í fyrradag hitaði Helgi upp fyrir Heimildina sem kom út í gær. Þar er frétt sérstaklega hönnuð til að sverta Örnu McClure sem var lögfræðingur Samherja. Arna kom lítið sem ekkert að málum útgerðarinnar í Namibíu fyrr en eftir að Jóhannes uppljóstrari hafði keyrt reksturinn í þrot. Arna hefur barist fyrir því fyrir dómstólum að fá aflétt stöðu sinni sem grunuð í sakamálarannsókn hér á landi. Í frétt Heimildarinnar í gær er hún sett nr. 2 á lista yfir grunaða, á eftir forstjóranum (nú fyrrum) Þorsteini Má. Meiðandi, og vísvitandi rangar, fullyrðingar eru í Heimildinni um Örnu, t.d. þessi:

Fram hefur komið að Arna fundaði með mútuþegunum í Samherjamálinu, þeim James Hatuikulipi, Tamson „Fitty“ Hatuikulipi og Sacky Shangala, sem allir tengjast stjórnmálaflokknum SWAPO.

Meintur fundur var kvöldverður á veitingastað sem Arna lét til leiðast að sitja fyrir beiðni Jóhannesar uppljóstrara sem bauð Namibíumönnum til landsins. Í gögnum málsins kemur fram að Jóhannes vildi sýna gestum sínum íslenskar ljóskur - Arna er ljóshærð. Í dómsmálinu, sem rekið er í Namibíu, er enginn ákærður fyrir að þiggja mútur frá Samherja. Textinn í Heimildinni, ,,mútuþegar í Samherjamálinu", afvegaleiðir og jaðrar við að vera bein lygi.

Eins og gefur að skilja fjalla hvorki Helgi Seljan né Heimildin um byrlunar- og símamálið. Þar er þó Helgi frumheimild. Hann sat fund með byrlara Páls skipstjóra daginn eftir að skipstjórinn var lagður inn á gjörgæslu.

Lesendur Heimildarinnar, þeir fáu sem eftir eru, og hlustendur RÚV hljóta að velta fyrir sér fréttamati þessara fjölmiðla og þeirri starfsaðferð að fela risastóran bjálka í augum blaðamanna með Namibíuflís. Þegar RSK-miðlar fjalla um Namibíumálið auglýsa þeir flóttann frá byrlunar- og símamálinu. Grunaðir taka sér ákæruvald til að kaupa sér gálgafrest.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband