Byrlunar- og símamálið gengur af Heimildinni dauðri

Uppsagnir eru á Heimildinni, útgáfan er við það að deyja drottni sínum. Byrlunar- og símamálið í senn bjó til Heimildina og gengur af henni dauðri - og í leiðinni starfsferli verðlaunuðustu blaðamanna Íslandssögunnar.

Heimildin er stofnuð í byrjun árs 2023 með samruna Stundarinnar og Kjarnans. Tilefni samrunans var byrlunar- og símamálið, byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar, þjófnaður á síma hans og afritun. Í febrúar 2022 fengu þrír blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans stöðu sakborninga í lögreglurannsókn. Rúmu ári áður, 21. maí 2021, birtu blaðamennirnir, undir eigin nafni, sömu fréttina, um skæruliðadeild Samherja. Fréttin var hvorki skrifuð á Stundinni né Kjarnanum heldur á RÚV - líklegasti höfundurinn er Helgi Seljan. Fjórði fréttamaðurinn sem fékk stöðu sakbornings í febrúar 2022 var þó ekki Helgi heldur yfirmaður hans, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri kveiks á RÚV.

Í nokkur ár höfðu RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn, leikið þann leik að þykjast sjálfstæðir fjölmiðlar en voru á bakvið tjöldin fjölmiðlabandalag. Áhrifamáttur hvers fjölmiðils, einkum Stundarinnar og Kjarnans, varð meiri þegar RÚV endurbirti. Skæruliðafréttin 21. maí 2021 er skýrt dæmi. Jaðarmiðlarnir frumbirtu en RÚV kom i kjölfarið, rak hljóðnema upp í ráðherra, þingmenn og álitsgjafa og krafði svara um frétt sem upphaflega var samin á RÚV. Tilgangurinn var að láta reiðibylgju rísa í samfélaginu.

Aðalsteinn Kjartansson leppaði skæruliðafréttina á Stundinni og það sama gerðu Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson á Kjarnanum. Í byrlunar- og símamálinu var RÚV aðgerðamiðstöðin. Andlega veik eiginkona Páls skipstjóra afhenti Þóru síma skipstjórans 4. maí 2021 á meðan skipstjórinn lá meðvitundarlaus vegna byrlunar á Landspítalanum í Fossvogi, steinsnar frá höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti.

Í febrúar 2022 verður sem sagt heyrinkunnur rökstuddur grunur um að blaðamenn þriggja fjölmiðla eigi aðild að byrlun- og símastuldi. RÚV hafði sitt á þurru, fær árlega yfir 6 milljarða króna úr ríkiskassanum. Stundin og Kjarninn komust aftur fljótt á vonarvöl og sáu þann kost vænstan að sameinast undir merkjum Heimildarinnar. Viðskiptablaðið upplýsir að samanlagt tap Stundarinnar og Kjarnans síðasta rekstarárið hafi verið yfir 50 milljónir króna. Með frétt Viðskiptablaðsins fylgir mynd af ritstjórninni. Tæplega helmingur ritstjórnar, fimm af tólf, eiga aðkomu að byrlunar- og símamálinu.

Heimildin hafði til að byrja með um 17 til 20 þúsund lesendur, samkvæmt Gallup. Síðustu mánuði hefur útgáfan tapað helmingi lesenda sinna.

Fjölmiðlar lifa á trúverðugleika. Heimildin hefur aldrei gert grein fyrir aðkomu blaðamanna sinna að byrlunar- og símamálinu. Tiltrú á fjölmiðilinn er botnfrosin. Ríkisstyrkur upp á 60 milljónir króna á ári er ekki nóg til að halda Heimildinni á floti.

Byrlunar- og símamálið er myllusteinn um háls fjölmiðla og blaðamanna sem hlut eiga að máli. Á Heimildinni er aðeins einn eftir, Aðalsteinn Kjartansson. Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem varð sakborningur á eftir Aðalsteini, er kominn á RÚV. Sama gildir um Helga Seljan, sem ekki fékk stöðu sakbornings. Fréttamál Helga á RÚV ná ekki flugi enda faglegt orðspor hans rjúkandi rúst. Þeir Þórður Snær og Arnar Þór eru starfsmenn þingflokks Samfylkingar. Þóra Arnórsdóttir fékk stöðu hjá Landsvirkjun eftir að henni var óvært á RÚV.

Vorið 2021 var annar bragur RSK-miðlum. Yfirþyrmandi dagskrárvald þeirra gaf tóninn í fréttaflutningi hér á landi um árabil. Dagskrárvaldið byggði á svindli og undirferli. Þrjár ritstjórnir, sem út á við voru sjálfstæðar, störfuðu í reynd sem ein ritstjórn. Markmiðið var að móta fréttaumræðuna.

Það dregur dilk á eftir sér að byrla og stela til að afla frétta - sem í ofanálag eru að mestu leyti staðlausir stafir. Byrlunar- og símamálið er enn óuppgert en mun fylgja hlutaðeigandi um aldur og ævi.  

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Auðvitað missa þessir verðlaunamenn ekki vinnuna. Færast bara yfir í hina deildina, ruv, nú eða til höfuðstöðvana, samfylkingar.

Gunnar Heiðarsson, 6.8.2025 kl. 08:37

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Tek undir med Gunnari. Leitt að segja tað en Ruv er ruslakistan sem tekur vid úrganginum. 

Ragnhildur Kolka, 6.8.2025 kl. 09:19

3 Smámynd: Júlíus Valsson

RÚV er alvarleg meinsemd í íslensku þjóðfélagi, sem þarf að uppræta. Setjum milljarðana frekar í eitthvað uppbyggilegra því þjóðin á betra skilið. 

Júlíus Valsson, 6.8.2025 kl. 10:05

4 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Mörg ár síðan RUV var útvarp allra landsmanna.

Og mörg ár síðan RUV varð útvarp vinstrimanna.

Eftir að Ríkis Útvarp Vinstrimanna tók við hefur

allur trúveðugleiki horfið og eftir situr við stjórnvölin

fallin lögreglumaður, sem ætti í raun að vera í fangelsi

með hinum byrlurunum.

Sigurður Kristján Hjaltested, 6.8.2025 kl. 11:06

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Manni hættir stundum til að hlusta á fréttayfirlitið hjá RUV
í þeirri veiku von að þar verði sagðar fréttir en ekki fluttur áróður

En alltaf virðast vera til nýir pistlar frá Hamas sem lesa þarf upp

Grímur Kjartansson, 6.8.2025 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband