Frankenstein-umsókn ESB-sinna dæmd til að mistakast

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu í kjölfar hrunsins. Fyrsta hreina vinstristjórn lýðveldisins, stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur, fékk þingsályktun samþykkta 16. júlí 2009 um að Ísland sækti um ESB-aðild. Í þingkosningum um vorið fékk Samfylking 30 prósent fylgi og Vinstri grænir 22 prósent.

Aðeins Samfylking boðaði ESB-aðild sem lausn á hrunvanda Íslands í þingkosningunum vorið 2009. Í stjórnarmyndunarviðræðum létu Vinstri grænir til leiðast og féllust á ESB-umsókn. Í þrjú ár stóð ferlið yfir með hatrömmum deilum. Í lok árs 2012 þótti sýnt að pólitískt var óvinnandi vegur að halda aðlögunarferlinu áfram og umsóknin var sett í skúffu. Vorið eftir guldu ríkisstjórnarflokkarnir afhroð, Samfylking fékk 13 prósent en Vinstri grænir tíu.

Eitilharðir ESB-sinnar eru 10 til 15 prósent kjósenda. Annað eins hlutfall er til í að skoða málið skapist sérstakar kringumstæður. Þá eru eftir um 70 prósent þjóðarinnar - sem ýmist eru harðir andstæðingar ESB-aðildar eða segja nei, takk, á kurteisan hátt.

Óopinbert slagorð vinstrimanna eftir hrun var ,,ónýta Ísland". Efnahagskerfið var ónýtt, gjaldmiðillinn sömuleiðis og stjórnarskráin ótæk. En jafnvel undir þessum formerkjum, rétt eftir hrun, tókst ekki að virkja almenning til sýna ESB-aðild áhuga. 

Halda menn virkilega að við núverandi kringumstæður vakni áhugi landsmanna að framselja fullveldi og forræði eigin mála til Brussel?

Við síðustu þingkosningar, fyrir átta mánuðum, var einn flokkur sem ámálgaði ESB-aðild. Viðreisn fékk 16 prósent atkvæða.

En nú segir formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín utanríkisráðherra, við útlenda fjölmiðla að Íslendingar vilji aðildarviðræður við ESB. Eins og aðrir er Þorgerður Katrín frjáls orða sinna. Hitt er deginum ljósara að hún hefur ekkert lýðræðislegt umboð til að fara í aðildarviðræður við ESB.

Þorgerður Katrín notar stöðu sína sem utanríkisráherra til að festa Viðreisn í sessi sem ESB-flokk. Hún vílar ekki fyrir sér að skapa úlfúð og samfélagslega kergju til að ná fram þröngum flokksmarkmiðum.

Kristrún forsætis og Samfylking hafa enn ekki gefið skýr svör hvort meiningin sé að fara í ESB-leiðangur formanns Viðreisnar. Fyrir kosningar aftók Kristrún að ESB-umsókn væri á dagskrá. Nú þarf hún að svara hvort hún haldi orð sin eða sé ómerkingur.

Laukrétt er hjá Sigmundi Davíð að uppvakin ESB-umsókn frá 2009 sé Frankenstein-ættar. Óskapnaður sem mun snúast gegn höfundum sínum.

Síðustu dagar, eftir alræmda heimsókn von der Leyen frá ESB, hafa sýnt svo ekki verður um villst að pólitískt sjálfsmorð er að hrinda úr vör ESB-leiðangri. Það er hlægilegt hve illa ESB-sinnar koma ár sinni fyrir borð í umræðunni. Bænakvak þeirra um að Ísland eigi að ganga Brussel á hönd vegna slagsmála bræðraþjóða í Garðaríki gamla er svo víðáttuvitlaust að maður fyrirverður sig að deila tungumálinu með slíkum vitringum. Hin meginröksemdin, að Trump sé Bandaríkjaforseti, er ekki hótinu betri. Þriðji þráðurinn í málflutningi ESB-sinna, að við deilum menningu meginlands Evrópu, trosnar í ljósi múslímavæðingar álfunnar. 

Tilfallandi er ekki í aðdáendafélagi Kristrúnar forsætis. Honum þætti engu að síður synd og skömm að vænlegur vitrænn foringi meðalhófskrata gangi fyrir ESB-björg. Eigi veldur sá er varar.


mbl.is ESB-sinnar leiti dyrum og dyngjum í skjalasafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Þór Emilsson

hver á og framkvæmir skoðanakannanir? Það virðist bara hver könnunin eftir annarri þar sem við erum bara 70% að styðja aðild og ríkisstjórnin að bæta endalaust við sig fylgi, en enginn kannast við að styðja þetta rugl.

Er ríkisstjórnin sjálf að útbúa þessar kannanir?

Emil Þór Emilsson, 31.7.2025 kl. 09:59

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þögn Kristrúnar bendir til að nú logi Samfylkingin safnanna á milli. Kristrún er upptekin af að slökkva eldana. 

Ragnhildur Kolka, 31.7.2025 kl. 11:56

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband