Þriðjudagur, 29. júlí 2025
Trump át Leyen sem gleypti Þorgerði Katrínu
Tollastríði Bandaríkjanna og Evrópusambandsins lauk með niðurlægjandi ósigri Brussel. Trump át von der Leyen, segir Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands. Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, gerði stutta heimsókn til Íslands áður en hún gafst upp fyrir Trump. Á Íslandi gleypti sú þýska Þorgerði Katrínu utanríkis með húð og hári - í pólitískum skilningi.
Ísland er í þeirri stöðu að stórveldi á brauðfótum, ESB, ætlar sér landið og miðin. ESB er aftur á hnjánum gagnvart Bandaríkjunum, sem nýlega lýstu yfir þeim ásetningi að eignast næsta nágranna Íslands í vestri, Grænland. Ísland er miðlægt fyrir bandaríska öryggis- og varnarhagsmuni.
Lítum fyrst á tap ESB í tollastríðinu. Trump hótaði 30 prósent tollum á ESB og jafnvel hærri. Die Welt tók saman helstu atriði samningsins sem von der Leyen skrifaði undir. Evrópskir bílar munu bera 15% toll, ál og stál 50%. ESB lofar að kaupa jarðgas frá Bandaríkjunum og fjárfesta þar vestra. ESB fær ekkert í staðinn, bandarískir bílar bera ekki toll í Evrópu, svo dæmi sé tekið.
Í viðtengdri frétt segir að Friedrich Merz kanslari Þýskalands sé ,,bjartsýnn" eftir samkomulagið. Die Welt hefur aftur eftir kanslaranum að ,,verulegt tjón" verði á þýskum efnhag.
Tollastríð Bandaríkjanna og ESB er stórpólitískt og mun hafa langtímaafleiðingar. Evrópusambandi, veikt fyrir, hrekkur niður um deild í alþjóðastjórnmálum. Fyrirsjáanlegur sigur Rússlands í Úkraínustríðinu mun auka enn á vandræði Evrópusambandsins. Óvígur rússneskur her á austurlandamærum ESB kallar á stóraukin útgjöld til varnar- og öryggismála. Bandaríkin, í gegnum Nató, hafa hingað til séð um varnir ESB-ríkja. Ekki lengur. Bandaríkin draga úr viðbúnaði sínum í Evrópu. ESB er risi á brauðfótum.
Viðbrögð ESB við þverrandi veraldargengi í samanburði við Bandaríkin og Rússland er að sækja fram á norðurslóðum. Tilfallandi sagði frá norðursókn ESB sem kynnt var alþjóð í vor:
Í byrjun maí í vor flutti Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB ræðu í Aachen í Þýskalandi er hún veitti viðtöku heiðursverðlaunum kenndum við Karlamagnús keisara.
Í ræðunni boðar von der Leyen ,,sjálfstæða Evrópu" í hörðum heimi valdastjórnmála. Þá bætti hún við:
Og þegar ég segi Evrópa, á ég vitanlega við Evrópusambandið. En ég er þeirrar skoðunar að vegferðin verði farin með vinum og samstarfsaðilum. Frá vesturhluta Balkanskaga til Úkraínu og Moldavíu. Frá Grænlandi til Bretlands og víðar. Skylda okkar er að tryggja stöðugleika á meginlandinu með sýn á sameiginlega framtíð.
Í beinu framhaldi talar forseti framkvæmdastjórnar ESB um að sambandið þurfi að hrista af sér hlekki fortíðar og grípa til aðgerða hratt og örugglega. Líkt og stórveldi gera þegar hagsmunum þeirra er ógnað.
Grænland fór inn í Evrópusambandið með Danmörku snemma á áttunda áratug síðustu aldar. Heimastjórn fékk Grænland 1979 og sagði sig úr Evrópusambandinu sex árum síðar, í byrjun árs 1985.
Enginn vafi leikur á stöðutaka ESB gagnvart Grænlandi er andsvar við yfirlýsingu Bandaríkjanna um að Grænland skuli verða bandarískt. Varnar- og öryggishagsmunir Bandaríkjanna eru að Grænland lúti bandarísku forræði - en ekki dönsku. Von der Leyen skorar Bandaríkin á hólm með yfirlýsingu um að Grænland verði ESB-ríki.
Evrópsk hugveita, Heinrich Böll Stiftung, með um 300 manns í vinnu og rekstarfé frá ESB, gaf í byrjun júlí út skýrslu um norðursókn Evrópusambandsins. Skýrslan er í senn greining og stefnumótun - og fullkomlega í takti við ræðu von der Leyen.
Heiti skýrslunnar er Stækkun ESB í norður í sjónmáli? Frumkvæði á óvissutímum. Í skýrslunni er dregin upp áætlun um að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í Evrópusambandið. Úkraínustríðið annars vegar og hins vegar forsetatíð Trump knýja á um að ESB nýti sóknarfæriá norðurslóðum, segir í skýrslunni. Landvinningar valdefli sambandið og gefi endurnýjaðan tilgang.
Ísland er talið lykilríki til að fá Grænland og Noreg inn í sambandið. Vísað er til þess að sitjandi ríkisstjórn Íslands sé áhugasöm um ESB-aðild. Lagt er til að ESB geri Íslandi tilboð í sjávarútvegsmálum ,,sem ekki er hægt að hafna." Orðalagið er beint upp úr mafíubókmenntum - þýðir að dauðasök sé að neita tilboði guðföðurins. ESB hefur ýmsar leiðir til að herja á íslenska hagsmuni, ekki síst í gegnum EES-samninginn.
Heimsókn von der Leyen til Íslands í síðustu viku sýnir að Evrópusambandinu er dauðans alvara að hrinda í framkvæmd áætluninni um innlimun tveggja örþjóða, Grænlendinga og Íslendinga. Í framhaldi er á matseðlinum smáríkið Noregur. Þar með kemst ESB til áhrifa á Norður-Atlantshafi, verður þar stórveldi.
Eftir að tilfallandi skrifaði ofanritað gerist það að ESB setur refsitolla á íslenska framleiðslu, fyrst kísiljárn. Hver verður verðmiðinn á afnám tolla? Jú, að Ísland taki hraðlestina til Brussel. Þorgerður Katrín utanríkis og ESB-agent spinnur söguþráð sem gengur út á að eina von Íslands í hörðum heimi alþjóðastjórnmála sé að gefa frá okkur fullveldið og forræði eigin mála. Von der Leyen, sem Trump át í morgunverð, sé bjargvættur Íslands, verður mantra Kúlu-Tobbu og félaga.
Bandaríkin grípa til ráðstafana þegar stöðutaka ESB á norðurslóðum setur í uppnám bandarísk varnar- og öryggismál. Evrópusambandið er óburðugt að fylgja ásælnipólitík eftir með hervaldi. Styr milli Bandaríkjanna og ESB í norðri fær sömu niðurstöðu og tollastríðið. Ísland ætti að halda sig til hlés en ekki vera fíflið sem att er á foraðið.
Þorgerður Katrín og fermingarbarnið í forsætisráðuneytinu komast að því fullkeyptu haldi fram sem horfir með undirlægjuhátt gagnvart Evrópusambandinu. Kvenkyns Knoll og Tott í stjórnarráðinu er ekki heppilegasta áhöfnin þegar gefur á bátinn.
![]() |
Donald Trump át von der Leyen í morgunmat |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef Evrópusambandið getur lagt verndartolla á járnblendi og kísiljárn frá Íslandi.
Hvað hindrar ESB þá í að setja verndartoll á fiskafurðir frá Íslandi
Grímur Kjartansson, 29.7.2025 kl. 10:05
Fyrst gleypti von der Leyen Þorgerði Katrínu, síðan át Trump von der Leyen. Þokkalegt ástand, eða hitt þó.
Baldur Gunnarsson, 29.7.2025 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning