Spiegel: Hanna Katrín gengur erinda ESB á Íslandi

Der Spiegel, virt þýskt tímarit, segir Evrópusambandið hyggja á stækkun í norðri, með áherslu að fá Grænland, Ísland og Noreg inn í sambandið. Sjávarútvegur er í forgrunni stækkunarstefnu ESB í norðurhöfum. Viljayfirlýsing sem Hanna Katrín atvinnuráðherra skrifaði undir í síðustu viku, án samráðs við alþingi, er liður í norðursókn ESB.

Blaðamaður Spiegel í Brüssel, höfuðstöðvum ESB, Timo Lehmann, skrifar fréttina sem birtist 3.júlí síðast liðinn, bæði í net- og prentútgáfu. Þjóðverjar eru áhugasamir um Ísland frá dögum þriðja ríkisins. Enn er sá áhugi fyrir hendi, þýskir fjölmiðlar, t.d. fréttaveitan nordost24.de, endurbirta frétt Spiegel.

Sókn ESB á norðurslóðir byrjar með samstarfi í viðkvæmum málaflokkum, s.s. fiskveiðum og varnar- og öryggismálum. Hanna Katrín atvinnuráðherra gerði sitt í þágu ESB, skrifaði undir viljayfirlýsingu í síðustu viku um ,,samstarf" við ESB í sjávarútvegi. Skælbrosandi Hanna Katrín er ljósmynduð með sjávarútvegsstjóra ESB, Costas Kadis, að selja frumburðarrétt Íslendinga í hendur útlendinga. Auðvitað, enn sem komið er, heitir það ,,samráð og samvinna". Innlimun klædd í falleg orð.

Ráðuneytið tilkynnti samkomulagið við ESB tveim dögum eftir að alþingi fór í sumarfrí. Hanna Katrín neitar að tjá sig um viljayfirlýsinguna, þegar Vísir innti ráðherra eftir hvað stæði fyrir dyrum. Hanna Katrín óttast fjölmiðlaumræðu um baktjaldamakkið þar sem þjóðarhagsmunum er fórnað fyrir ESB-þráhyggju.

Evrópusambandið á enga aðkomu að hafsvæðinu í kringum Ísland. Engin nágrannaþjóða okkar í austri og vestri eru ESB-ríki, þ.e. Grænland, Færeyjar og Noregur. Með einni undirskrift veitir ráðherra í ríkisstjórn Íslands framandi stórveldi ítök og afskiptarétt af íslensku hafsvæði. Samkomulagið er stórpólitísk aðgerð en Hanna Katrín spurði hvorki kóng né prest, enda gengur hún erinda ESB en ekki íslenskra hagsmuna.

ESB hugsar sér gott til glóðarinnar með ríkisstjórn Kristrúnar Frost við völd. Sendinefnd ESB á Íslandi bætir við starfsfólki, býður rúma milljón á mánuði. Það vantar liðsauka til að telja Íslendingum trú um að ógild umsókn sé í fullu gildi. Blekking er forsenda hraðferðar í sæluríkið í austri.

Samkomulagið sem Evrópusambandið fékk Hönnu Katrínu til að skrifa undir er liður í norðurslóðasókn ESB. Nánar um þá áætlun á morgun.

  

 

 


mbl.is Mikilvægt að fá upplýsingar um viljayfirlýsinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Á sínum tíma þá skerpti það mjög skilin milli aðildarsinna og hinna þegar Makríllinn gekk hér inn í flestar hafnir á Íslandi og ESB sýndi sitt rétta andlit og hótaði viðskiptaþvingunum vegna fiskveiða í Íslenskri lögsögu

Ef Makríllinn kemur aftur til Íslands þá verður Viðreisn í vanda

Grímur Kjartansson, 23.7.2025 kl. 09:34

2 Smámynd: Valbjörn Steingrímsson

Þú virðist gleyma því Palli að stöllurnar þrjár sömdu um þessa vegferð þegar stjórnin var mynduð. (Í leyni)  Inga Sæland er ekki saklaus af þessum gjörningi þótt Sigurjóni sé falið það verkefni að láta líta svo út.  

Valbjörn Steingrímsson, 23.7.2025 kl. 12:00

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband