Þriðjudagur, 22. júlí 2025
Málfrelsi á alþingi skert í þágu ESB
Föstudaginn 11. júlí beitti stjórnarmeirihlutinn svokölluðu kjarnorkuákvæði í þingsköpum alþingis til að binda endi á umræður. Átyllan var löng umræða um tvöföldun veiðigjalda. Raunveruleg ástæða var löngu ákveðin heimsókn Úrsúlu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar ESB til Íslands, sem hófst þrem dögum eftir að alþingi var komið í sumarfrí.
Stjórnarmeirihlutinn vildi ekki að alþingi væri að störfum þegar heimsókn von der Leyen stæði yfir. Ríkisstjórnin ætlaði að leggja undir sig umræðuna með ESB-boðskap og vildi ekki andmæli á þingi.
Boðskapurinn var undirbúinn með fyrirvara. Daginn fyrir heimsókn von der Leyen tilkynnti Hanna Katrín samkomulag við ESB um sjávarútvegsmál. Varnar- og öryggismál voru næst á dagskrá, hjá Þorgerði Katrínu, Kristrúnu og von der Leyen. Engin andmæli á alþingi eða fyrirspurnir til ráðherra enda alþingi komið í sumarfrí.
Erna Bjarnadóttir kom auga á hvernig ríkisstjórnin beitti dagskrárþunga sínum til að umskapa orðræðuna um Evrópusambandið. Erna skrifar Heimssýnarblogg:
Heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB í síðustu viku, virðist leynt og ljóst vera liður í því að færa Ísland í átt að aðildarferli að sambandinu. Þetta er þó vitaskuld hvergi sagt. Í orðum og yfirlýsingum er þess í stað sífellt vísað til "samstarfs", "viljayfirlýsinga" og talað um "sameiginlegra framtíðarsýn".
Sú spurning vaknar því hvort hér sé farið af stað einhvers konar "aðlögunarsamstarf". Þegar utanríkisráðherra bregst svo við gagnrýni með því að kalla hana heimóttarskap er hún ekki að taka á efnisatriðum heldur leitast við að setja neikvæðan merkimiða á gagnrýnendur sína. Þannig reynir hún að beina umræðunni frá kjarna málsins í dóm yfir þann sem tjáir sig.
Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði. Í stað þess að færa rök fyrir pólitískum breytingum, er stundum farin sú leið að breyta einfaldlega orðræðunni sjálfri. Merking hugtaka er færð til en stefna og ákvarðanir haldast óbreyttar undir yfirborðinu. [...]
Fundur utanríkismálanefndar Alþingis í dag snýst því ekki aðeins um efnisatriði þessara viðræðna og samninga, heldur líka um þessa nýju pólitísku tækni, það er að færa umræðuna yfir á nýtt svið þar sem ekki má lengur segja "aðildarferli" aðeins "framtíðarsýn" og "samráð".
Hárrétt hjá Ernu. Undir fyrirslætti eins og ,,framtíðarsýn" og ,,samráð" skal Ísland gert að ESB-ríki. Ríkisstjórnin telur ekki eftir sér að hefta málfrelsi á alþingi til að ESB-boðskapurinn heyrist einn i umræðunni. Tilskipunarvaldi Evrópusambandsins er beitt á Íslandi af hálfu ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur.
Daginn fyrir beitingu kjarnorkuákvæðisins, afnám málfrelsis á alþingi, steig Kristrún í pontu á þjóðþinginu og sagði:
Ég lýsi því yfir fyrir hönd meirihlutans að við munum verja lýðveldið Ísland, við munum verja stjórnskipan landsins og heiður Alþingis.
Undirförul Kristrún vinnur nótt sem nýtan dag að lokamarkmiðinu, að lýðveldið Ísland verði hjálenda Evrópusambandsins. Kristrún kennir vegferðina við ,,vörn og heiður". Öfugmælin verða ekki meiri.
![]() |
Allt sem við óttuðumst reyndist rétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning