Mánudagur, 21. júlí 2025
Samfylking vill einangra Ísland frá Bandaríkjunum
Stefna Samfylkingar í utanríkismálum gengur er að flytja Ísland undir áhrifasvæði Evrópusambandsins. Lokamarkmiðið er að Ísland verði ESB-ríki. Samstarfi við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál verður fórnað í þágu lokamarkmiðsins, ESB-Ísland.
Tveir stjórnarflokkanna, Samfylking og Viðreisn, eru samstíga í ESB-áherslum. Flokkur fólksins hefur ekki utanríkisstefnu. Opinber heimsókn Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er upphaf að leiftursókn ESB-sinna.
Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi Brussellóðarí krataflokkanna tveggja. Af hálfu Kristrúnar forsætis var látin svara Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingar og fulltrúi í utanríkismálanefnd alþingis.
Svar Dagbjartar birtist á Vísi undir yfirlætislegri fyrirsögn: Vill Sjálfstæðisflokkurinn láta taka sig alvarlega?
Í greininni, sem er um öryggis- og varnarmál, er ekki minnst einu orði á varnarsamninginn við Bandaríkin sem hefur verið hornsteinn í utanríkisstefnu Íslands í 75 ár. Í stað greiningar og yfirvegunar á utanríkismálum er boðið upp á orðafroðu sem ber vitni grátlegri grunnhyggni. Ein efnisgreinin byrjar svona:
Það þarf ekki að minna formann Sjálfstæðisflokksins að stríð geisar í Evrópu og eðli sem og form öryggisógna taka gífurlega hröðum breytingum. Þá gildir öllu að taka höndum saman við okkar helstu bandamenn í Evrópu sem eru og verða okkar mikilvægasti viðskiptavettvangur.
Ísland er á miðju Norður-Atlantshafi. ,,Evrópan" sem Dagbjört talar um er meginland kallað Evrasía. Þar geisar stríð sem er vandamál meginlandsins, ekki eyju á miðju Norður-Atlantshafi. Stríð á meginlandi Evrasíu, ekki síst stórstríð, hafa allt aðra pólitíska og menningarlega merkingu hér á landi en á heljarslóð austan hafs. Í fyrra stríði öðlast Ísland fullveldi og við stofnum lýðveldi þegar sá fyrir endalok seinna stríðs. Blessað stríðið, var sagt í íslenskum sveitum og sjávarplássum fyrir miðja síðustu öld.
Úkraínustríðið er notað af ESB-sinnum sem skálkaskjól. En það er ekkert skjól að fá hjá ESB í hörðum heimi alþjóðastjórnmála. Fari sem horfir, að Úkraínustríðinu ljúki með rússneskum sigri, mun Evrópusambandið skjálfa og nötra í áravís, ef ekki áratugi. Óvígur rússneskur á austurlandamærum ESB er ekki íslenskt vandamál - en yrði það ef Íslendingar álpuðust inn í ESB. Íslenskir ESB-sinnar, eins og Dagbjört staðfestir, eru úti í móa þegar kemur að skilningi á alþjóðapólitík. Þeir sjá aftur í hillingum þægilega innivinnu í Brussel.
Öryggis- og varnarmál Íslands taka ekki ,,gífurlega hröðum breytingum" líkt og Dagbjört vill vera láta. Aðalvarnir okkar frá í seinna stríði er nátengdar bandarískum öryggis- og varnarhagsmunum. Það gildir enn.
Til skamms tíma litu Bandaríkin svo á að útvörður þeirra í austri væri Vestur-Evrópa. Það er ástæðan fyrir stofnun Nató 1949. Á seinni árum líta Bandaríkin á svokallað GIUK-hlið sem útvörð í austri. GIUK stendur fyrir Grænland, Ísland og Bretland og hafsvæðin þar í kring. Áhugi Bandaríkjanna að ná Grænlandi undan dönskum áhrifum er afleiðing af breyttri stefnu í Washington.
Stefna Samfylkingar og Viðreisnar, að gera Ísland að ESB-ríki, mun leiða til ógæfu, bæði innanlands og í samskiptum við Bandaríkin. Fyrr heldur en seinna ris þjóðmálahreyfing hér á landi sem hefur nánari samband við Bandaríkin á stefnuskrá - gagngert til að losna undan fyrirsjáanlegri ESB-áþján. Þetta er ávísun á innanlandsófrið milli ESB-sinna og Bandaríkjasinna. Washington og Brussel munu ota sínum tota, þannig starfa stórveldi. Smáþjóð sem tvístígur í öryggis- og varnarmálum verður illa úti þegar stórveldi eiga í hlut.
Í viðsjám alþjóðastjórnmála eiga Íslendingar að kappkosta að gefa stórveldum ekki færi á sér. Við þekkjum af góðu einu samstarfið við Bandaríkin um öryggis- og varnarmál. Teflum ekki í tvísýnu varnarsamningnum frá 1951. Höldum okkur frá hryggðarmyndinni sem kallast Evrópusamband, meginlandsklúbbur gamalla nýlenduvelda og stríðsjálka er lifa á fornri frægð vestast í Evrasíu.
Athugasemdir
Vel sagt og rétt.
Sigurður Kristján Hjaltested, 21.7.2025 kl. 08:49
Á Miðnesheiðinni er bandarísk herstöð þótt hún sjáist ekki. USA hefur fjárfest þarna fyrir miljarða undanfarin ár og gætu núna mætt á einum degi með ca 4000 manna her og eina sem þarf að gera er að blása upp tjöldum og stinga í samband. Og voru þeir ekki að fylla á tank í Hvalfirðinum um daginn (með olíu sennilega ættaðri frá Pútín!). Þetta sýnir bara hvaða augum Bandaríkin líta á Ísland í hernaðarlegu tilliti og eiga ekki eftir að gefa tommu eftir í þessu hvað sem e-h. barnalegum íslenskum ráðakonum hugnast.
Annars þá setti forsætisfrúin sennilega íslandsmet í pólítískri hræsni þegar hún sté í pontu Alþingis um daginn og tilkynnti að "við munum verja lýðveldið Ísland". Þarna talar formaður flokks sem hefur það á stefnuskrá að svifta Ísland lýðveldinu og færa það undir hatt Evrópu.
Fuss!
Ólafur Ólafsson, 21.7.2025 kl. 12:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning