Laugardagur, 19. júlí 2025
Bandaríkin eða ESB, Ísland fullveldi eða hjálenda
Evrópusambandið eflir hervarnir sínar og setur upp kerfi utan Nató, kallað Security and Defence Partnership eða öryggis og varnarsamvinna. Markmiðið er að tryggja hernaðarhagsmuni ESB. Ríkisstjórn Íslands ætlar að taka tilboði ESB um hernaðarsamvinnu. Samvinna við ESB grefur undan varnarsamningum við Bandaríkin sem er í gildi allar götur frá 1951, eða í 74 ár.
Hernaðarsamvinna er ekki að heimsækja tískubúðir, tvær eða fleiri, til að finna bestu tilboðin. Söguleg, menningarleg, pólitísk og landfræðileg rök eru forsendur hernaðarsamvinnu. Annað til viðbótar skiptir sköpum - traust.
Sækist smáþjóð eftir hernaðarsamvinnu við tvo aðila er það til marks um tvöfeldni. Í innanlandspólitík í litlu landi, þar sem allir þekkja alla, er hægt að bera kápuna á báðum öxlum. Harður heimur alþjóðastjórnmála leyfir það síður og allra síst bandalag smáþjóðar og stórveldis. Tvískinnungur er hafður til marks um undirferli. Stórveldi þolir illa baktjaldamakk nágranna er skiptir máli fyrir varnar- og öryggismál stórveldisins.
Tvöfeldni í utanríkismálum veldur tortryggni sem leiðir til fyrirlitningar. Þeir sem kunna sinn Machiavelli vita að fyrirlitning er hættulegasta ógn hverjum valdhafa.
Nú þegar er togstreita milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins um forræði yfir næsta nágranna Íslands í vestri, Grænlandi. Danir fara með æðsta yfirvald á eyjunni og óttast valdatilkall Bandaríkjanna. Danir fengu Macron Frakklandsforseta í örheimsókn til Grænlands fyrir mánuði síðan til að sýna smáríkinu Danmörku samstöðu um óbreytt ástand, að Danir ráði áfram Grænlandi. Tilfallandi bloggaði:
Smáríki innan ESB, Danmörk, er með forræði yfir Grænlandi. Trump ásælist Grænland. Danir eru smeykir. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fær Macron forseta Frakklands með sér í heimsókn til nýlendunnar. Macron lofar stuðningi við Dani að halda stærstu eyju heims innan danska ríkisins.
Trúir einhver að Frakkland myndi senda her til Grænlands að verja landið gegn Bandaríkjunum? Vel á minnst: Grænland er ekki í ESB, þeir eru eina þjóðin, utan Breta, að segja sig úr meginlandsklúbbnum með höfuðborg í Brussel.
Valdatilkall Bandaríkjamanna til Grænlands skiptir Ísland höfuðmáli. Grænlendingar eru næstu nágrannar okkar í vestri. Gangi það fram, sem líklegt er, að Bandaríkin fái Grænland viðurkennt sem sitt áhrifasvæði yrði óvinveitt af Íslandi gagnvart öryggishagsmunum Bandaríkjanna að ganga í Evrópusambandið, líkt og er markmið sitjandi Kristrúnarstjórnar.
Leiftursókn ESB-sinna, sem ræst var með heimsókn von der Leyen, er með það lokamarkmið að Ísland verði aðildarríki Evrópusambandsins. Í reynd yrði Ísland hjálenda ESB, líkt og landið var í danska konungsríkinu. Lög og reglur komu einu sinni frá Kaupmannahöfn; nú vilja skjaldmeyjar áskrift að laga- og reglufargani frá Brussel. Árlega flæða frá höfuðstöðvum ESB tugir þúsunda laga, reglna og tilskipana um stórt og smátt.
Varnarsamningurinn við Bandaríkin, sem nú er í uppnámi, er einfaldur, aðeins tvær blaðsíður. Fimmta grein samningsins segir klárt og kvitt að Íslendingar haldi fullveldi sínu:
Bandaríkin skulu framkvæma skyldur sínar samkvæmt samningi þessum þannig, að stuðlað sé svo sem frekast má verða að öryggi íslensku þjóðarinnar, og skal ávallt haft í huga, hve fámennir Íslendingar eru, svo og það, að þeir hafa ekki öldum saman vanist vopnaburði. Ekkert ákvæði þessa samnings skal skýrt þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenskum málefnum.
Hvað rekur menn til að flytja forræði íslenskra mála til útlanda og í leiðinni setja í uppnám öryggis- og varnarmál þjóðarinnar sem hafa verið í föstum skorðum í hartnær 75 ár?
![]() |
Telur að verið sé að plata þjóðina inn í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning