Gabb náttúrunnar og Jesú-vísindamenn

Yngsta gosið á Reykjanesi hófst með skemmri fyrirvara en við eigum að venjast. Vísindamenn hafa áður spáð gosi með nokkurra daga fyrirvara en núna má tala um mínútur. Eldgos eru náttúrleg fyrirbæri og lúta lögmálum sem menn skilja aðeins að hluta - annars væri hægt að spá eldvirkni með nákvæmni. Í viðtengdri frétt er sérkennileg efnisgrein:

Yf­ir­leitt dreg­ur úr þess­um gos­um sem líður á en það sem gerðist samt var að eft­ir að við fór­um frá eld­gos­inu þá lengd­ist sprung­an og er núna orðin um 1,5 kíló­meter. Okk­ur virt­ist sem verið væri farið að draga úr þessu en það var bara gabb. (feitletr. pv)

Vísindamaðurinn sem þarna talar, Halldór Björnsson, virðist segja að náttúran hafi platað (gabbað) vísindamenn til að trúa einu, að gosið hjaðnaði, þegar reyndin var önnur - gosið jókst.

Náttúran og öflin sem þar eru á kreiki gabba aldrei. Náttúran er. Punktur. Gabb, fals, prettir og plat eru allt höfundarverk meðvitundarinnar. Maðurinn býr að meðvitund, náttúran ekki. Þeir sem gefa náttúrunni meðvitund eru komnir út í trúarkukl.

Verkefni náttúruvísinda er að skilja náttúruna, ferla og lögmál. Þar er margt ólært. Í stað fullvissu er iðulega stuðst við upplýsta ágiskun. Sá sem giskar á gabb í náttúrunni er ekki upplýstur.

Í fréttinni er Halldór Björnsson titlaður sérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Sérgrein hans er ekki jarðvísindi heldur veður og loftslag. Bitamunur en ekki fjár, kynni einhver að segja. Í báðum tilvikum er eðlisfræði undirstaðan. Fljótandi hraun er, líkt og andrúmsloftið, flæðiefni. Jöfnurnar sem notaðar eru til að útskýra ferla flæðiefna eru kenndar við Navier-Stokes. Óreiða einkennir ferli flæðiefna, hugsið t.d. um vatn sem hellt er úr einu glasi í annað og margfaldið fyrir ferla kviku eða loftslags. Ómögulegt er að sjá ferlið fyrir - annað en að glasið tæmist að lokum, rétt eins og eldgos stöðvast. Navier-Stokes jöfnunar eru sem sagt óleysanlegar

Aðalstarf Halldórs undanfarin ár er að útbreiða þann boðskap að ein lofttegund, CO2, koltvísýringur, valdi loftslagsvá og hamfarahlýnun. Um 97 prósent af CO2 er náttúrulegur. Er Halldór á því að ,,meðvituð" náttúra sé haldin sjálfseyðingarhvöt? Neibb, það er mannkyn, er býr þó aðeins til þrjú prósent koltvísýrings í umferð, sem stefnir móður jörð í voða. Aðalboðskapurinn er heimsendir af mannavöldum. Trúboðar geta þó ekki upplýst okkur um einfaldar staðreyndir. Til dæmis hver sé kjörhiti jarðar. Tilfallandi bloggaði:

Koltvísýringur, CO2, er náttúruleg lofttegund með eitt atóm kolefnis og tvö súrefnisatóm. Lofttegundin er forsenda lífs á jörðinni. Plöntur draga að sér koltvísýring, taka kolefnið sér til vaxtar og viðurværis en skila súrefninu aftur út í andrúmsloftið. Ferlið kallast ljóstillífun. Orkan til ljóstillífunar er sólarljósið (lampar í gróðurhúsum).

Án plantna er ekki líf á jörðinni. Heildarmagn koltvísýrings er áætlað um 750 gígatonn. Af þessu magni er útblástur mannsins 3-4 prósent, um 29 gígatonn. Jörðin grænkar og plöntur taka til sín aukið magn koltvísýrings. En það er sem sagt maðurinn, ekki náttúran, sem ræður loftslagi jarðar, segja meintir sérfræðingar.

Í sama bloggi er vitnað í Will Happer loftslagsvísindamann sem kann sitthvað um eðli og ferla loftslags. Óreiða kemur aftur við sögu. 

Hvað gera vísindamenn þegar óreiða náttúrunnar er slík að fyrirsjáanleiki er ómögulegur?  Vandaðir vísindamenn setja fyrirvara og mæla af varkárni. Jesú-vísindamenn, þeir sem sjá inn í heima, sem huldir eru dauðlegum mönnum, taka stórt upp í sig, segja náttúruna búa yfir meðvitund sem Jesú-vísindamenn kunna einir að túlka. Stundum spaugar náttúran og fíflar menn að trúa einu þegar annað er tilfellið, segja handhafar sannleikans - auðvitað til að breiða yfir spádóma sem ekki rættust.  

Jesú-vísindamenn fá hljómgrunn safnaða sem gefa frá sér dómgreind og vitsmuni. Stærsti söfnuðurinn er vinstrimenn.

 

 


mbl.is Dregur enn ekki úr gosinu: „Það var bara gabb“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Í gær var fínt veður og hiti um 14° C en samt vildu býflugurnar mínar ekki fljúga út úr kössunum sínum
Mín niðurstaða  -  Þetta er ekki búið 

Grímur Kjartansson, 17.7.2025 kl. 09:34

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.

Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann, í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.

Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora. (Róm. 8:19-23).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 17.7.2025 kl. 09:51

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband