Þingræði, Gamli sáttmáli og gerræði

Þingræði mælir fyrir að æðsta vald sé í höndum þingsins, ekki framkvæmdavaldsins. Íslendingar áskildu sér þingræði, á þeirra tíma vísu, þegar fyrsta framkvæmdavaldið kom til sögunnar hér á landi - norska konungsvaldið. Í Gamla sáttmála er framkvæmdavaldinu játað með fyrirvörum.

Magna carta, stóraskrá, er frelsisskrá enskra, um 40 árum eldri en Gamli sáttmáli. Þar er sama hugsun og í Gamla sáttmála, fyrirvari við alveldi framkvæmdavaldsins. 

Í nútímaútgáfu þekkjum við þingræðið svona:

Alþingi er með ríkisstjórnina í gíslingu. Það sem meira er: framkvæmdavaldið er alltaf í gíslingu þingsins. Gíslatakan, ef menn vilja nota það orð, hófst fyrir meira en hundrað árum. Þegar Ísland fékk innlent stjórnarráð, heimastjórn árið 1904, komst á sú skipan...

Misskilnings gætir í umræðunni um þingsköp alþingis og valdmörk framkvæmdavaldsins. Menn segja að meirihlutinn/framkvæmdavaldið eigi að ráða og setja þau lög eða ólög sem meirihlutanum sýnist. Nei, það er ekki þingræði heldur tilskipunarvald. Evrópusambandinu er stjórnað með tilskipunarvaldi enda ekkert þingræði þar á bæ. Í þingræði gilda þingsköp, ekki hentisemi valdhafa.

Deilur alþingis og framkvæmdavalds snúast um skatta, veiðigjöld. Sögulega eru skattar stórmál sem brjóta á bak aftur heimsveldi og skapa ný. Nægir þar að nefna amerísku byltinguna. Nokkur síðar á 18. öld gerbreytti heiminum franska byltingin - óréttlátir skattar komu við sögu.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Framsóknarflokks hafa staðið þingræðisvaktina með sóma síðustu vikur. Ónýtt skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar, tvöföldun veiðigjalda, kemst hvorki lönd né strönd. Þannig á það að vera í þingræðisríki. Valdhyggjufólki finnst ótækt að reglur um málsmeðferð séu virtar þegar því liggur á að koma frumvarpsbastörðum í gegnum þingið.

Hlutverk þjóðþinga er að hafa vit fyrir yfirvaldi sem sést ekki fyrir. Þannig var það á miðöldum, á nýöld og gildir enn í samtímanum. Ekki þó í Evrópusambandinu, sem fyrr er getið, þar tíðkast tilskipunarvald án umboðs frá almenningi.

Einhverjir kunna að spyrja, er ekki lýðræðið tekið úr sambandi þegar meirihlutinn fær ekki sínu framgengt í þjóðþinginu? Nei, öðru nær. Lýðræði er ekki meirihlutavald og hefur aldrei verið nema mögulega í beinu lýðræði Aþenu til forna. Lýðræði er fyrirkomulag sem byggir á tvennu. Í fyrsta lagi almennum kosningum og í öðru lagi formskipulagi. Þingræði er formskipulag. Þeir sem vilja taka það úr sambandi eru óvinir lýðræðisins. Kjarnorkuákvæðið í þingskaparlögum, útskýrt í viðtengdri frétt, er þrautalending valdhafa sem komnir eru í valdþrot, treysta sér ekki til að starfa innan ramma þingræðis. Ákvæðinu hefur ekki verið beitt í 66 ár. Að nýta ákvæðið til að keyra í gegn skattahækkun er eins og að skera höndina af sjúklingi er kennir til í litlafingri.

Ríkisstjórnin reyndi með leiftursókn að knýja á um hraðferð frumvarpsins. Það tókst ekki. Eftir því sem umræðunni vatt fram urðu annmarkar augljósari. Andstaðan við frumvarpið hertist. Málið er komið í hnút. Pólitískt þrátefli í þingræði er leyst með málamiðlun. Vel að merkja; þegar í hlut eiga menn er kunna til verka.

Lausn á deilunni um veiðigjöld er ekki margslungin. Annað tveggja afturkallar ríkisstjórnin frumvarpið eða semur við alþingi um afgreiðslu þess. Þriðji kosturinn er að rjúfa þing og boða til þingkosninga. Fjórði kosturinn, kjarnorkuákvæðið, gæti á yfirborðinu virst myndugleiki en væri í raun uppgjöf. Réttlætingin fyrir kjarnorkuákvæðinu, þjóðarvá, er ekki fyrir hendi. Gerræði Kristrúnar og félaga myndi hafa afleiðingar út kjörtímabilið - sem yrði stutt.

Þroska og manndóm þarf til að fara með yfirvald. Í veiðigjaldamálinu sýnir ríkisstjórnin alvarlegan dómgreindarbrest, að ekki sé dýpra í árinni tekið. Á óvart þarf það ekki að koma. Hugmyndafræðingurinn að baki frumvarpinu er alræmdur netníðingur sem var undir lögreglurannsókn í þrjú ár í byrlunar- og símamálinu. Illþýði fylgir ógæfa.


mbl.is Beiting kjarnorkuákvæðisins yrði „algjört stílbrot“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband