Miðvikudagur, 9. júlí 2025
Sýknaðasti maður landsins og ríkissannleikur
Tilfallandi er líklega sýknaðasti maður landsins. Þrjú nýleg dómsmál, þar af tvö í sumar, skiluðu sýknu. Þrír blaðamenn stefndu tilfallandi í tveim málum en lögreglustjórinn í Reykjavík ákærði í þriðja dómsmálinu.
Betra er að fá sýknu en dóm, svo mikið er víst. Að öðru leyti er leið lífsreynsla að vera stefnt fyrir dóm fyrir þær sakir einar að tjá skoðun sem öðrum mislíkar. Dómsmálin eru ekki einu leiðindin.
Sömu aðilar, að ekki sé sagt sömu öfl, og stefndu tilfallandi fyrir dóm gerðu slík læti og hamagang á fyrrum vinnustað tilfallandi, framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu, að ekki var annað til ráða en að gera starfslokasamning. Tilfallandi er ekkert unglamb, bráðum hálfsjötugur, en hafði hugsað sér lengri starfstíma sem kennari. Skoðanir tilfallandi, á öðrum málum en kennslu, leiddu til starfsloka fyrr en ella.
Með rökum má segja að tilfallandi hafi grafið sína eigin gröf. Hann hafði skoðanir sem mörgum mislíkaði og var sá óviti að tjá þær opinberlega í bloggi. En svo á að heita að við búum í lýðfrjálsu landi með stjórnarskrá er tryggir skoðana- og málfrelsi. Virðingin fyrir mannréttindum ristir ekki djúpt almennt og örgrunnt hjá þeim sem mest um þau tala - vinstrimönnum.
Dómsmálin þrjú, þar sem tilfallandi fékk sýknu, eru vegna umræðuefna sem óskyld eru á yfirborðinu. Í fyrsta lagi eru þrír blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) ósáttir við bloggfærslur um byrlunar- og símamálið. Tilfallandi heldur fram að blaðamenn eigi aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Blaðamenn stefndu blogghöfundi í tveim sjálfstæðum dómsmálum. Í öðru lagi eru Samtökin 78 gröm tilfallandi bloggi um transboðskap meðal barna og kærðu til lögreglu. Í verktöku fyrir lífsskoðunarfélagið ákærði lögreglustjórinn í Reykjavík höfundinn fyrir hatursorðræðu.
Ein tilgáta um mannlífið er nærtæk. Tilgátan er að því fjarlægari veruleikanum sem skoðanir fólks eru þess hatrammara er reynt að kæfa andstæð viðhorf. Litum nánar á málsatvik.
Þekktar staðreyndir, m.a. úr lögreglurannsókn, og kringumstæður benda eindregið og afgerandi til að blaðamenn eigi aðild að byrlun og símastuldi vorið 2021. Blaðamennirnir, sem birtu efni úr stolnum síma, neita staðfastlega málsaðild. Við birtum aðeins fréttir, segja þeir. Líkt og fréttir detti fullskapaðar af himnum ofan, hvorki þurfi heimildir né meðvitund að afla þeirra. Tilfallandi sem vogar sér að hafa aðra meiningu skal lögsóttur af fullri hörku.
Samtökin 78 halda fram að kyn manna séu óteljandi og hægt sé að fæðast í röngum líkama. Skoðun samtakanna er trúarlegs eðlis og á sér ekkert haldreipi í veruleikanum. En vei þeim er halda öðru fram en rétttrúnaðurinn, þeir skulu kærðir til lögreglu og hljóta makleg málagjöld. Einkum og sérstaklega ef í hlut á miðaldra karl með aðgang að lyklaborði.
Bábiljuskoðanir, sem sagt, eru studdar af meiri heift og hörku en hversdagsleg viðhorf sem ríma við veruleikann eins og hann blasir við. Kannski er tilgátan í raun sjálfsögð sannindi. Trúarhiti sértrúarsafnaða er iðulega meiri en þjóðkirkjumanna.
Tilfallandi er einyrki á bloggakrinum og skrifar fyrir eigin reikning. Blaðamennirnir og Samtökin 78 eiga sameiginlegt að vera á ríkisframfæri. Fjölmiðlastyrkir og opinbert fé valdefla blaðamenn og hinseginfélagið til að gera kröfu um að ríkið staðfesti sérútgáfu þeirra af tilverunni. Réttarkerfið átti að gefa þá niðurstöðu að dómsvald ríkisvaldsins úrskurðaði að blaðamenn væru saklausir sem englar af byrlun og stuldi annars vegar og hins vegar að kyn manna séu óteljandi og nýburar komi í heiminn í röngum líkama.
Blaðamenn og Samtökin 78 eru þegar með löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið sem bakhjarla; þaðan koma lögin í þágu sérviskunnar og fjármunir í rekstur lífsskoðunarfélags og spilltra fjölmiðla. Dómsvaldið, í tilfallandi málaferlum, stóð í ístaðinu og dæmdi að enn sem komið er gildir í landinu málfrelsi. Sérhver borgari er frjáls skoðana sinna og í fullum rétti að tjá þær opinberlega. Sjálfstæði dómstólanna gagnvart pólitíska rétttrúnaðinum stendur eitt í vegi fyrir ríkissannleika. Allir fullorðnir vita að ríkissannleikur er ein útgáfa alræðishyggju.
Tilfallandi er ekki hreykinn að vera sýknaðasti maður landsins. Víst er sýkna betri en sekt. En að við skulum búa i samfélagi þar sem frjáls orðræða sætir atlögu blaðamanna, lífsskoðunarfélags á opinberu framfæri og ákæruvalds lögreglu er ekki í lagi. Bara alls ekki. Guði sé lof að dómsvaldið er enn í höndum manna með heilbrigðari sjónarmið en rétttrúnað blaðamanna, Blaðamannafélags Íslands, Samtakanna 78 og lögreglustjórans í Reykjavík.
Athugasemdir
Í Danaveldi, nánar tiltekið Lyngby, verður dómsmál þann 12. ágúst. Einkamál. Kvengervill stefnir konu fyrir að rangkynja hann. Kvengervillinn er í nefnd innan danska fótboltasambandsins sem fjallar um leyfi kyngervla til að spila með kyninu sem þeir telja sig vera. Strákar með stelpum, ef þeir upplifa sig sem stelpur.
Lögreglan í DK tók ekki við kæru mannsins, telur málið falla undir tjáningarfrelsið, því varð hann að höfða einkamál.
Ríkisvaldið verður að endurskoða þá fjármuni sem þeir úthluta (peningum er úthlutað, ekki kyni) til trans Samtakanna 78.
Helga Dögg Sverrisdóttir, 9.7.2025 kl. 08:03
Blessaður Páll.
Þessi pistill þinn er eitt meistaraverk frá upphafi til enda, svo ég vitni í kjarna annarrar frægrar varnarræðu; "honum væri betra að deyja áður en hann yrði elliær en að halda lífi með því auðmýkja sig frammi fyrir ranglátri ákæru".
Það er mikið að samfélagi sem líður eiturbyrlanir blaðamanna til að afla sér gagna í falsfréttir, eða einhver félagsskapur út í bæ skuli vera á framfæri hins opinbera til að njósna um fólk og skoðanir þess, svo hægt sé að kæra viðkomandi fyrir brot á lögum um hatursorðræðu.
Vörn lýðræðisins felst í miðaldra körlum með aðgang að lyklaborði þar sem þeir pikka inn sýknudóma byggða á lögum og reglum.
Meinsemdin grefur samt um sig og þessi orð þín eru svo sorglega rétt, segja svo mikið um ógæfubrautin sem samfélag okkar er komið á; "Sérhver borgari er frjáls skoðana sinna og í fullum rétti að tjá þær opinberlega. Sjálfstæði dómstólanna gagnvart pólitíska rétttrúnaðinum stendur eitt í vegi fyrir ríkissannleika. Allir fullorðnir vita að ríkissannleikur er ein útgáfa alræðishyggju.".
Fullorðnu fólki virðist fara fækkandi mjög.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 9.7.2025 kl. 08:10
Þú ættir að fá "Fálkaorðu" fyrir baráttu þína gegn öfgum í okkar þjóðfélagi.
Sigurður I B Guðmundsson, 9.7.2025 kl. 10:00
Allt frá því að réttarhöldin yfir aþenska heimspekingnum Sókratesi áttu sér stað árið 399 f.Kr. hafa verið sýnd sem svik þar sem stofnandi vestrænnar hugsunar var látinn standa frammi fyrir uppspunnum ákærum sem fáfróðir og fordómafullir samborgarar hans fundu upp.
Hann var fundinn sekur um „guðleysi“ og „spillingu ungs fólks“, dæmdur til dauða og síðan neyddur til að framkvæma sína eigin aftöku með því að neyta banvæns drykkjar úr eiturjurtinni hemlock.
Stjórnmálamenn og sagnfræðingar hafa oft notað réttarhöldin til að sýna fram á hvernig lýðræði getur rotnað með því að falla í múgsstjórn. Aþena, er haldið fram, losaði sig við einn af sínum mestu hugsuðum vegna þess að hann var talinn ógn við pólitíska stöðuna. Veit ekki hvort Páll er einn mesti hugsuður Íslendinga en hann er a.m.k. meðal þeirra hugugustu. Svo er það endanlegi dómur, dómur sögunnar. Hann er hæstréttirinn sem dæmir endanlegan dómur. Er þetta ekki fáfróður og fordómafullur sem er á eftir Páli og þolir ekki rökræður?
Birgir Loftsson, 9.7.2025 kl. 17:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning