Miðvikudagur, 2. júlí 2025
Vinstrimenn sameinast gegn Samfylkingu
Sósíalistaflokkurinn með 4 prósent fylgi í síðustu þingkosningum, Píratar 3% fylgi og Vinstri grænir 2,3% fylgi vilja sameinast, segir Gunnar Smári burtrekinn formaður Sósíalistaflokksins. Vísir veitir sameiningu brautargengi með frétt í sama stíl.
Vinstrimenn stunda á víxl klofning og sameiningu í bráðum hundrað ár. Fyrsti klofningur þeirra varð 1930 þegar kommúnistar klufu sig úr Alþýðuflokknum. Óðara eftir klofninginn 1930 tóku menn til við að ræða sameiningu og hafa æ síðan klofið og sameinast eftir því hvernig vindar blása.
Sögulega hefðin er að ákafast er rætt um að vinstrimenn gangi í eina pólitíska sæng þegar allir flokkar þeirra standa tæpt. En nú ber svo við að arftaki Alþýðuflokksins, Samfylkingin, siglir með himinskautum í könnunum með 30 prósent stuðning og fékk mest fylgi allra flokka í síðustu þingkosningum, tæp 20 prósent.
Nærtækast er fyrir vinstrimenn af sauðahúsi sósíalista, pírata og vinstri grænna að ganga fylktu liði í Samfylkinguna og berjast fyrir hugmyndum sínum á vettvangi flokks með vægi í samfélaginu. Hverjar eru líkurnar á að það gerist? Engar.
Hvers vegna?
Jú, í vinstripólitík, frá því hún mótaðist í Evrópu á 19du öld, takast á tveir menningarheimar, hófsamur annars vegar og hins vegar róttækur. Hófsamir vinstrimenn samþykkja meginreglur borgaralegs þjóðfélags en vilja breyta og bæta í þágu láglaunamanna. Róttækir vilja ganga á milli bols og höfuðs á ráðsettu samfélagi og skapa mennska paradís - sem alltaf endar með helvíti á jörð.
Hófsamir og róttækir vinstrimenn eru sem eldur og vatn.
Við síðustu kosningar þurrkuðust róttækir vinstrimenn út af alþingi. Vinstri grænir misstu sitt þinglið, Píratar einnig og Sósíalistar fengu engan fulltrúa kjörinn. Sameining vinstrimanna nú, eða öllu heldur umræðan um sameiningu, miðar að búa til valkost við Samfylkinguna, sem verður höfuðandstæðingur.
Vöxtur og viðgangur Samfylkingar í síðustu kosningum og nýlegum skoðanakönnunum er eitur í beinum róttæklinga en þeir eru án flokka sem mark er tekið á. Það gæti vitanlega breyst.
Freistnivandi Samfylkingar er að standast 30 prósent fylgi í könnunum og láta ekki undan löngun að innleysa það fylgi með þingkosningum fyrir lok kjörtímabils. Eftir þrjú ár gætu róttæklingarnir boðið valkost sem þeir hafa ekki núna. Sá ljóður fylgir ráði hófsamra vinstrimanna að þeir eru tækifærissinnar fram í fingurgómana.
![]() |
Spáir nýju félagshyggjuafli: Fólk að ræða saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning