Þriðjudagur, 1. júlí 2025
Ríkisfé spillir flokkum og fjölmiðlum
Biðröðin inn á aðalfund Vorstjörnunnar, eignarhaldfélags Sósíalistaflokksins, stafar af áskrift flokksins að ríkisfé. Árlega fær Sósíalistaflokkurinn 22 milljónir króna þótt kjósendur hafi ekki séð ástæðu til að styðja frambjóðendur flokksins til þingmennsku. Píratar, með engan þingmann, fá árlega 17 milljónir króna af ríkisfé, skv. lista ráðuneytis.
Hatrömm innanflokksátök Sósíalistaflokksins snúast um árlegt framlag ríkisins upp á 22 milljónir króna næstu fjögur árin. Ríkisfé heldur flokknum gangandi þótt kjósendur segi nei, takk. Andstæðar fylkingar takast á um opinbert fé, ekki hug og hjörtu kjósenda.
Ekki aðeins í pólitík spillir gjafafé fyrir starfsemi sem í orðin kveðnu er haldið uppi í þágu almannaheilla en er í reynd kverúlantaiðja fárra. Ríkisfé heldur fjölmiðlum gangandi sem annars færu á hausinn. Mannlíf og Heimildin, tvær útgáfur á sömu kennitölu, fá ekki lesendur en eru áskrifendur að ríkisfé, tugum milljóna króna á ári hverju.
Lýðræði notað sem réttlæting fyrir fjáraustur í flokka sem kjósendur vilja ekki og fjölmiðla sem lesendur hafna.
Lýðræði er léleg afsökun fyrir misnotkun á almannafé. Öllum er frjálst að stofna stjórnmálasamtök og sama gildir um að hrinda úr vör fjölmiðli. Þegar menn gera eitthvað fyrir eigin reikning er lögð í framtakið meiri alúð og einbeitni en þegar annarra manna fé er í húfi.
Það er enginn skortur á stjórnmálasamtökum í landinu og samfélagsmiðlar gera jaðarfjölmiðla óþarfa.
Samtals fer árlega um einn milljarður króna til stjórnmálaflokka og fjölmiðla af almannafé. Er þá ótalin ríkishítin RÚV sem ein og sér fær sex milljarða króna. Bruðl með skattfé almennings í flokka og fjölmiðla skilar ekki betra samfélagi. Þvert á móti stuðlar ríkisfé að óöld og óreiðu - líkt og sést á Sósíalistaflokki Íslands.
![]() |
Slitu fundi þegar spurt var um fjárstyrki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekkert lýðræðislegt við að ríkið greiði rekstur stjórnmálaflokka. Miklu frekar er það andlýðræðislegt, því með því rofnaði sambandið milli flokks og fólks. Sjálfstæðisflokkurinn missti fótanna og hunsaði flokkssamþykktir sem hann hefði ekki gert ef hann hefði talið sig gegna þjónustu við fólkið. Ekki fór betur fyrir Vinstrigrænum sem einfaldlega hurfu af sjónarsviðinu. Flokkur sem trúði á fjallagrös og ullarvinnslu var allt í einu farinn að gera sig breiðan á alþjóðavettvangi,þ.s. Peningar og völd ráða öllu. Það að Viðreisn lifi er vegna þess að það er einsmálsflokkur sem gerir ekkert nema það sem styður við þeirra MÁL. Nú stendur úrslitaorrustan yfir og allt, landið og miðin, lagt í sölurnar. Samfylkingin mundi vilja hirða alla ríkisstyrki til sín en samt aldrei standa undir loforðum sínum um græna haga og gott veður allt árið. Flokkur fólksins er ekki stjórnmálaflokkur heldur óánægjurödd sem mundi alltaf hljóma, sama hvert óánægjuefnið er, hvort sem ríkisstyrkir standi til boða eða ekki. Miðflokkurinn, já Miðflokkurinn stendur með fullveldinu og ætti þannig að vera eini rikisflokkurinn eins og staðan er í dag. En ríkisflokkar hafa verið reyndir annars staðar og ekki gefist vel.
Leggjum styrkina niður og látum flokkana finna fólkið sitt aftur.
Ragnhildur Kolka, 1.7.2025 kl. 12:19
Og er Sjálftökuflokkurinn XD stæðastur í þeim efnum, heyrist frekar lítið í þeim enda allt sem hægt er að gagnrýna er þeirra verk. Vonandi sjáum við ekki XD í stjórn næstu áratugi og XB þurrkist út (draumárar) Íslendingar virðast vilja fá það þurrt. En allur Ismi er vond pólitík, Ismi er svipað og að hafa trúaða alþingismenn sem láta trúna ráða fremur en skynsemina í afstöðu til mála. Styrkir til flokka á að vera á jafnræðisgrundvelli allir eða enginn.
Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 1.7.2025 kl. 14:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.