Sunnudagur, 29. júní 2025
Tveir strengir umræðunnar og ríkisstjórnin
Þegar þrátefli er á alþingi eins og nú er þróun mála utan þings sem einkum ræður hvenær úr greiðist og á hvaða forsendum. Þingræðið felur í sér að minnihlutinn á hverjum tíma er í færum að hindra framgang mála meirihlutans með umræðu.
Umræðan á alþingi ræður ekki úrslitum heldur þjóðarsamtalið. Þingmenn minnihlutans standa ekki í stappi við ríkisstjórnarflokkana nema þeir hafi sannfæringu að málflutningurinn fái hljómgrunn meðal þess hluta almennings er lætur sig stjórnmál varða.
Auðvelt er að telja hausa á alþingi, hverjir tala, hve oft og hve lengi, en erfiðara að meta hlutlægt umræðuna út í samfélaginu. Í prinsippinu er hægt að telja pistla í fjölmiðlum, færslur og tjákn á samfélagsmiðlum en það er snúið og segir ekki nema hluta sögunnar. Stór hluti skoðanaskipta fer fram munnlega, á vinnustöðum, heitum pottum, fjölskylduboðum og við eldhúsborðið heima. Skoðanakannanir upplýsa að marki hvert straumurinn liggur en hafa sína annmarka í aðferðafræði og þýði.
Nær öll þjóðfélagsumræða er tveggja strengja. Stærri og sverari strengurinn er efnislegt innihald málefnisins. Grennri strengurinn er tilfinningahitinn sem málefnið vekur. Í umræðunni er spilað á báða strengina til að finna trúverðugan tón. Árangur málsaðila, þeirra sem eru meðfylgjandi annars vegar og hins vegar mótfallnir, ræðst af hversu vel tekst að láta strengina mynda samhljóm. Ef mál, lagasetning, er með sterkt innihald og strýkur almenningi meðhárs fær það meðbyr í samfélaginu sem siglir málinu í höfn á alþingi. Að sama skapi á þingmál erfitt uppdráttar sé innihaldið veikt og vekur fremur andstyggð en samhug.
Tvö mál ber hæst á seinni hluta vorþings, bókun 35 og veiðigjaldið. Í bókun 35 spilaði tilfinningastrengurinn með andstæðingum málsins. Málið er skýrt, snýst um hvort ESB-lög njóti forgangs á íslensk lög. Í húfi er fullveldið og forræði þjóðarinnar í eigin málum.
Veiðigjaldamálið er á yfirborðinu einfalt, tvöföldun á skatti, en deilurnar snúast um afleiðingarnar. Ríkisstjórnin segir þær litar sem engar en minnihlutinn að útgerð, vinnsla og atvinnulíf á landsbyggðinni verði fyrir verulegu höggi. Málefnalega tapaði ríkisstjórnin. Umræðan sýndi fram á handvömm og mistök í undirbúningi málsins. Inga Sæland innsiglaði tap ríkisstjórnarinnar með sannanlega röngum fullyrðingum að útsvar sveitarfélaga á landsbyggðinni myndi hækka með tvöföldun veiðigjalda. Útsvarið mun lækka.
Ríkisstjórnin spilaði á þær tilfinningar um væri að tefla örfá stórfyrirtæki, í eigu 4-5 fjölskyldna, er borguðu ekki sinn skerf til samneyslunnar. Fólk almennt keypti ekki þau tilfinningarök. Fremur var tekið undir þær andstæðu hughrifin, að hér væri kaffihúsaelítan í 101 Reykjavík að sækja sér pening af landsbyggðinni í gæluverkefni.
Ríkisstjórnin missti sig í bræði þegar illa gekk að selja almenningi tvöföldun veiðigjalda. Hanna Katrín atvinnuráðherra andskotaðist út í þingræðið og Kristrún forsætis sakaði minnihlutann um falsfréttir. Vanstilling stjórnmálamanna kallar oftar á fyrirlitningu en samúð. Þorgerður Katrín utanríkis, nýheilluð af Trump, lét sjá sig í þingsal og bar klæði á vopnin. Klæðið er hvít dula.
Þingræðið virkar þannig að meirihluti sem tapar þjóðarsamtalinu lýtur í gras á alþingi. Eins og staðan er núna er það minnihlutans að innbyrða vísan sigur í tveim stórum málum, bókun 35 og veiðigjaldamálinu. Tilfallandi ætlar að bíða með hamingjuóskir þangað til formleg niðurstaða liggur fyrir.
![]() |
Enn situr þing en allir af vilja gerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"kaffihúsaelítan í 101 Reykjavík að sækja sér pening af landsbyggðinni í gæluverkefni." - góður
Grímur Kjartansson, 29.6.2025 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.