Miðvikudagur, 25. júní 2025
Byrlunin og hnignun RÚV
RÚV er ekki sama stofnunin og hún var fyrir fáum árum. Eitt mál öðrum fremur dregur úr tiltrú á ríkisfjölmiðilinn, byrlunar og símamálið. RÚV hefur ekki gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu og þverskallast við að gera hreint fyrir sínum dyrum. Páll skipstjóri stefnir RÚV fyrir dómstól til að fá hlutlægt mat á þann miska sem hann varð fyrir af hálfu starfsmanna ríkisfjölmiðilsins.
Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað að kvöldi 3. maí 2021 á heimili sínu á Akureyri. Um nóttina var kominn á dauðvagninn svokallaðan á sjúkrahúsi Akureyrar. Ítrekaðar lífgunartilraunir þurfti til að halda skipstjóranaum á lífi. Daginn eftir var flogið með Pál til Reykjavíkur þar sem hann var meðvitundarlaus til 6. maí.
Þáverandi eiginkona Páls flaug með honum suður. Síðar viðurkenndi hún að hafa byrlað eiginmanni sínum. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi. Daginn sem þau komu til Reykjavíkur, 4. maí, fór eiginkona skipstjórans með síma hans á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Á Efstaleiti beið sími sömu tegundar og skipstjórans. Sími RÚV, af Samsung-gerð, var keyptur í apríl og skráð á hann númer keimlíkt og skipstjórans. Á Efstaleiti var sími skipstjórans klónaður, afritaður, á nýjan síma RÚV. Allt var afritað sem hægt var að afrita, ekki voru valdar úr síma skipstjórans efnisatriði sem mögulega ættu erindi til almennings.
Þóra Arnórsdóttir þá ritstjóri Kveiks á RÚV veitti síma skipstjórans viðtöku og hafði með sér undirmann, Arnar Þórisson. Samkomulag varð á milli eiginkonu skipstjórans og Þóru að síminn yrði í sólarhring á RÚV.
Á þessum tíma, vorið 2021, var umsátursástand á Kveik og fréttastofu RÚV. Helgi Seljan var í lok mars úrskurðaður alvarlega brotlegur gegn siðareglum RÚV vegna herferðar hans í Namibíumálinu gegn Samherja. Páll skipstjóri starfaði hjá Samherja á þessum tíma og hafði skrifað pistla í fjölmiðla til varnar vinnuveitanda sínu. Þóra, ritstjóri Kveiks, komst í samband við eiginkonu skipstjórans á útmánuðum. Þegar Þóru bauðst stolinn einkasími með gögnum er gætu komið að notum í stríði RÚV gegn norðlensku útgerðinni sló hún til. Ekki aftraði það Þóru að í hlut átti andlega veikur einstaklingur sem framdi alvarlegt brot til að komast yfir símann.
Þegar eiginkonan kom daginn eftir, eða 5. maí 2021, til að fá afhentan síma eiginmannsins var skotið á fundi með henni og lykilmönnum RÚV í aðgerðinni. Fundinn sátu af hálfu RÚV Þóra Arnórsdóttir, Arnar Þórisson pródúsent, Helgi Seljan fréttamaður og Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri.
Fundurinn 5. maí sýnir yfirvegun og skipulag í aðgerðinni. Starfsmenn RÚV vita að handan götunnar, á Borgarspítalanum, liggur skipstjórinn meðvitundarlaus og getur sér enga björg veitt. Í samráði við eiginkonuna er ákveðið að símtæki skipstjórans skuli skilað á sjúkrabeð hans til að hann væri grunlaus um þjófnað og afritun. Hugsunin að baki var að ef síma skipstjórans hefði verið fargað gæti hann dregið þá ályktun að um þjófnað væri að ræða.
Fundurinn 5. maí var ekki upphafskaflinn í aðgerðinni gegn skipstjóranum. Eins og áður segir vissi Þóra í apríl að einkasími skipstjórans var af Samsung-gerð og keypti slíkan síma til að afritun gengi greiðlega fyrir sig. Föstudaginn 30. apríl, þrem dögum fyrir byrlun, hætti undirmaður Þóru á Kveik, Aðalsteinn Kjartansson, og hóf samdægurs störf á Stundinni, sem Ingibjörg systir hann ritstýrði. Almennt hætta fréttamenn ekki á RÚV nema fyrir feita bita. Aðalsteinn fór ekki í vist hjá systur sinni til annars en að taka við frétt sem yrði unnin á RÚV en birt í Stundinni og Kjarnanum.
Skipulagið gerði ráð fyrir að RÚV væri aðgerðarmiðstöðin, veitti stolnum síma viðtöku, afritaði og ynni efni úr símanum. Aldrei stóð til að RÚV frumbirti stafkrók úr síma skipstjórans. Stundin og Kjarninn sáu um birtingu, allt eftir fyrirfram ákveðinni ráðagerð.
Eftir tíu daga sjúkrahúsvist er skipstjórinn útskrifaður. Hann er heima hjá sér 20. maí 2021 og fær tvö símtöl með 11 mínútna millibili. Klukkan 14:56 hringir Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans. Rúmlega tíu mínútum síðar, 15:07, hringir Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni. Blaðamennirnir tveir, hvor á sínum fjölmiðlinum, tilkynna Páli að þeir hafi efni undir höndum er varði hann og Samherja og hvort hann vilji bregðast við. Skipstjórinn svara fáu. Daginn eftir, snemma um morgun, birta Stundin og Kjarninn efnislega sömu fréttina, um meinta skæruliðadeild Samherja er hafi það hlutverk helst að sverta orðspor blaðamanna. Í kjölfarið fara fréttamenn RÚV á stúfana, reka hljóðnemann uppi í þingmenn, ráðherra og álitsgjafa til að fá fordæmingu á Samherja.
RÚV-aðgerðin gegn Páli skipstjóra Steingrímssyni vorið 2021 er skefjalaus misnotkun á fjölmiðlavaldi. Lögreglurannsókn staðfesti að lögbrot voru framin. En þar sem sönnunargögnum var eytt tókst ekki sanna hvaða blaðamaður framdi tiltekin afbrot. Rannsókn á hlut blaðamanna var hætt síðast liðið haust en heldur áfram gagnvart eiginkonunni sem játaði byrlun og stuld.
Lögreglurannsóknin sýndi fram á margvísleg samskipti blaðamanna, einkum Þóru, við veiku konuna. Þau gögn verða lögð fram, útskýrð og rædd, í málaferlum skipstjórans gegn RÚV.
![]() |
Páll stefnir RÚV út af byrlunarmálinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Páll, þú hefur unnið þrekvirki, nánast einn þíns liðs, við að beina athygli að þeirri atburðarás sem hér um ræðir og halda málinu í kastljósinu, því ekki verður betur séð en að þar eigi málið heima, þ.e. í brennipunkti. Í þessu samhengi má minna á örlög breska götublaðsins "News of the World" sem var lagt niður árið 2011 eftir að í ljós kom að blaðið hafði tekið þátt í símhlerunum. Almenningi í Bretlandi var svo misboðið að auglýsendur hættu viðskiptum við blaðið. Þar með lauk ca. 150 ára útgáfusögu blaðsins. Verði staðfest fyrir dómi að atburðarásin hafi verið sú sem þú lýsir, þá ættu örlög Rúv að vera hin sömu. Engin þjóð verður krafin um að fjármagna fjölmiðil sem er ógn við öryggi borgaranna, friðhelgi einkalífs, persónuvernd o.s.frv.
Arnar Þór Jónsson, 25.6.2025 kl. 19:12
Það sem Arnar segir.. Finnst eins og flestum að þetta mál fær litla sem enga umfjöllum hjá svokallaðri " Fjölmiðlum ". Ekkert við þetta að bæta en að þetta mál þarf að fara fyrir dómstóla.
Þröstur R., 26.6.2025 kl. 00:51
Það er með ólíkindum hvað flestum fjölmiðlum og blaðamönnum hefur tekist að þagga þetta mál sem óneitanlega er stórmál.
Tek undir með Arnari og Þresti að þú átt heiður skilinn Páll fyrir að hafa haldið málinu á lofti og upplýst almenning þegar "fagmennirnir" féllu á prófinu.
Landfari, 26.6.2025 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.