Stóri Satan sækir Íran heim

Stjórnvöld í Íran hafa í hálfan fimmta áratug talað um Bandaríkin sem stóra Satan og Ísrael sem litla Satan. Í nótt heimsótti Stóri Satan Íran; sá litli hafði í nokkra daga undirbúið kraftbirtingu höfðingjans úr neðra. Kjarnorkuáætlun Íran virðist heyrir sögunni til.

Æðstu stjórnvöld í landinu eru klerkar sem telja sig hafa umboð frá allah að tilkynna hverjir skulu lifa og hverjir deyja um víða veröld. Klerkarnir gáfu út líflátsdóm, fatwa, yfir breska rithöfundinum Salman Rushdie. Sakarefnið var að rithöfundurinn móðgaði spámanninn.

Valdhafar sem tala í umboði almættisins skeyta engu um veraldlegar málamiðlanir. Enn síður láta þeir alþjóðlega samninga aftra sér að ná markmiðum sínum. Klerkarnir hafa vopnað og fjármagnað hryðjuverkasamtök nær og fjær í heimshlutanum.

Íran er í harðri samkeppni við Sádí-Arabíu og Tyrkland um forystu fyrir múslímum fyrir botni Miðjarðarhafs. Eignist Íran kjarnorkuvopn er spurning um líf og dauða fyrir Sáda og Tyrki að eignast þau líka. Kjarnorkuvopn í höndum klerkanna í Tehran var ekki leiðin að friði og framförum í miðausturlöndum - burtséð frá hvað afstöðu menn hafa til stóra og litla Satan.

Fullkomin óvissa er um hvað tekur við í Íran og miðausturlöndum eftir árás Bandaríkjanna í nótt á helgasta vé klerkanna, kjarnorkuáætlunina sem var grafin djúpt í jörðu. Klerkastjórnin gæti fallið og upplausn, til lengri eða skemmri tíma, verði hlutskipti Írana.

Eitt sjónarmið í umræðunni síðustu daga var að ræki Bandaríkin smiðshöggið á verk sem Ísraelar hófu, og klerkastjórnin falli í kjölfarið, beri Bandaríkin ábyrgð á upplausninni sem á eftir kemur. Trump Bandaríkjaforseti fékk kjör út á að hætta tilgangslausum stríðum í útlöndum. Trump væri þvert um geð að sitja uppi með 90 milljón manna þjóð á pólitískum vergangi.

Næturárásin á kjarnorkuiðnaðinn í Íran tekur daga, ef ekki vikur og mánuði, að raungerast í pólitískum veruleika miðausturlanda og alþjóðastjórnmála. Kannski verður niðurstaðan nýtt jafnvægi, ögn friðsamlegri en síðustu misseri. Kannski er næturárásin upphafið að grimmari óöld en nokkurn óraði. Þegar Satan fer á stjá er aldrei að vita hvað gerist næst.  


mbl.is Bandaríkin sprengja í Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Trump hefur ekki bara reitt helming kjósenda sinna til reiði heldur gjaldfella alla diplomatsiu með svikum sínum. Hver vill svosem eiga í samningum við mann sem skipuleggur fundi (nú í tvígang) en sendir svo sprengjuregn yfir viðsemjendur. Heimurinn veit nú hver hinn mikli samningasnillingur er. Henni setur fram afarkosti, stillir viðsemjendum upp við vegg og ef þeir ganga ekki orðalaust að blakkmeilinu þá eru þeir bara skotnir. Einu sinni var þessi taktik kennd við mafíuna. Nú er það opinber stefna USA.

Hvernig Iranir svara þessari árás er enn ekki ljóst en sem fyrsta skref tala þeir um að loka Hormuz sundi. Það kæmi sér ekki vel fyrir Trump því þá gæti olían heimafyrir farið yfir $4. Rubii er nú að biðja Kínverja að hafa áhrif á Irani um að halda siglingaleiðinni opinni. Sjáum hvað setur.

Eitt er klárt árásin var ólögleg samkvæmt samþykktum SÞ, en segir allt sem segja þarf um svokallaða "... rule based order" sém vesturveldum hefur verið svo umhugað um. 

Ragnhildur Kolka, 22.6.2025 kl. 18:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband