Trú, sannindi og blekking þjóðkirkjunnar

Trú án sanninda er blekking. Vantrúaðir telja hverskyns hugmyndir um almætti blekkingu. Trúaðir, á hinn bóginn, eru sannfærðir um æðri sannindi, þau guðlegu. Án sannfæringar um eilíf sannindi eru menn ekki trúaðir. Trúarbrögð, kristni til dæmis, eru blekking án sanninda.

Guðleg sannindi eru manninum torræð. Flýtur það af eðli máls, það guðlega er annað en mannheimur. Skipulögð trúarbrögð hafa þann háttinn á að túlka á hverjum tíma það sem þau telja sannast vera. Svo lítið og ómerkilegt dæmi sé tekið af kristnitöku Íslendinga árið 1000 var málamiðlun milli kristni og heiðni að áfram mætti borða hrossakjöt þótt landslýður tæki nýjan sið. Túlkun ritningarinnar fyrir þúsund árum bannaði neyslu kjöts hófdýra. Lengi vel sultu Íslendingar heilu hungri fremur en að leggja sér hrossakjöt til munns. 

Siðaboðskapur er meginstef kristni. Þú skalt ekki mann deyða, heiðra skaltu föður þinn og móður og elska náunga þinn eins og sjálfan þig er trúarleg lífsspeki sem jafnvel vantrúaðir tileinka sér.

Túlkun ritningarinnar annars vegar og hins vegar siðaboðskapur kristni hvíla ekki aðeins á sannfæringunni um guðleg sannindi heldur einnig á hlutveruleika mannheima. Til að heiðra föður og móður þurfa fyrirbærin móðir og faðir að vera til í kjötheimum. Það er munur á lifandi manni og dauðum, annars væri merkingarlaus boðskapurinn um deyða ekki mann og annan. Huglægt ástand, náungakærleikur, er öllum mönnum skiljanlegt hugtak. Önnur saga er hvernig menn rækta þann kærleika. Hversdagsleg sannindi eru jafn nauðsynleg trú og meintur eilífðarsannleikur. Veraldleg sannindi eru forsenda starfhæfs samfélags. Ef einhver þrítugur í dag segist á morgun sjötugur kemst hann ekki upp með það gagnvart samfélaginu. Þrítugur maður fær ekki ellilífeyrir, hvað sem líður hans persónulegu sannfæringu. Samfélagið þarf sannindi eins og aldur og kyn, virkar ekki án þeirra.

Í viðtengdri frétt er sagt frá þeim nýmælum innan íslensku þjóðkirkjunnar að kyn mannsins séu fleiri en tvö. Ekki er tilgreint hve mörg viðbótarkyn við karl og konu finnast í henni veröld, - nú eða þá í guðsríki. Kynin eru bara mörg, segir talsmaður nýmælanna, Sigríður Guðmarsdóttir, og vísar til ótilgreindra útlanda sem heimild fyrir þessari nýspeki. 

Rök Sigríðar fyrir nýspekinni eru að við þurfum ,,auk­inn orðaforða um hið heil­aga." Það heilaga í þessu tilfelli er maðurinn. Við höfum mörg orð um manninn; karl, kona, strákur, stelpa, drengur, stúlka, meybarn, sveinbarn, öldungur, unglingstelpa- og piltur, húsbóndi, húsmóðir, meistari, liðléttingur, fagurkeri, lærlingur, nemandi, ökumaður, trúmaður og óteljandi önnur um manninn, líf hans og iðju í táradalnum.

Sigríður blekkir þegar hún segir þörf á fleiri orðum um manninn. Í reynd á hún við orð sem afmennska manninn, kenna hann við eitthvað sem ekki er til - eins og sjöunda eða fjórtánda kynið. Tvenn undirstöðusannindi um manninn eru kyn hans og aldur. Sjö ára strákur getur ekki verið áttræð kona. Enn síður að strákurinn sé af sjötugasta kyni. Fantasíuguðfræði sem býður upp á slíka ómöguleika er skemmtiefni fremur en alvarleg umræða.   

Í málsvörn Sigríðar fyrir blekkingunni er furðuleg setning: ,,Við segj­um að Guð sé andi og and­ar eru ekki bundn­ir við eitt kyn." Sigríður hoppar frá guði í eintölu yfir í fleirtölu guði. Kristni er eingyðistrú. Talsmaður þjóðkirkjunnar veltir sér upp úr fjölgyðistrú. Það rímar við boðskapinn um mörg kyn. Óteljandi kyn þurfa marga guði sér til sáluhjálpar. Hér er ekki um að ræða kristni heldur sérvisku sem ekki er yfirnáttúruleg heldur til marks um mennsk bágindi.

Við sitjum uppi með þjóðkirkju sem afmennskar manninn og flíkar fjölgyðistrú. Öðrum þræði hlægilegt en hinum þræðinum hryggilegt.

,,Trúin útilokar ekki fleiri kyn," er fyrirsögnin á viðtalinu við Sigríði. Trúin útilokar ekki heldur að jörðin sé flöt. Fantasíuguðfræði er kannski skemmtileg á þriðja glasi. Betra þó er að hugsa eilífðarmál og hversdagssannindi edrú. 


mbl.is Trúin útilokar ekki fleiri kyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dominus Sanctus.

Þó svo að fólkið á alþingi sé búið að fjölga kynjunum;

https://www.stjornarradid.is/verkefni/mannrettindi-og-jafnretti/jafnretti/loggjof-um-jafnretti/kynraent-sjalfraedi/

AÐ ÞÁ ER ÞAÐ Í RAUN TRÚIN/BIBLÍAN SEM AÐ ÚTILOKA FLEIRI KYN: 

Hafa prestar þjóðkirkjunnar ekki lesið upphafið í HOLY BIBLE

þar sem að kveðið er á um að

"Í UPPHAFI HAFI GUÐ SKAPAÐ BARA KARL & KONU;

OG HANN SAGÐI ÞEIM AÐ UPPFYLLA JÖRÐINA?".

Framhaldið á sköpuninni hefði ekki í reaun gengið upp

ef að hann hefði skapað bara tvo karla eða bara tvær lespíur;

er það nokkuð?

--------------------------------------------------------------

Sjálfur hef ég meiri áhuga á

GUÐSPEKINNI/ GUÐFRÆÐINNI á bak við töluna 7

heldur en 7 ára börnum, það er allt önnur saga: 

https://contact.blog.is/blog/contact/entry/2293256/

Dominus Sanctus., 18.6.2025 kl. 09:13

2 Smámynd: Guðmundur Örn Ragnarsson

Jesús segir: Mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar Hann kemur? (Lúk. 18:8).

Sigríður Guðmarsdóttir, prófessor í hagnýtri guðfræði við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands, kennir nú verðandi prestum að kynin séu fleiri en Guð segir að þau séu í Biblíunni.

Rökstuðningur Sigríðar er, að, trúin útiloki ekki fleiri kyn. Hvaða trú á hún við?

Sigríður er einnig formaður handbókarnefndar Íslensku Þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt Orði Guðs eiga engar konur að vera kennarar, og þaðan af síður prestar. Hvergi er þeim heldur ætlað að halda um stjórnvöl. Minnumst þess að það var Eva sem leiddi okkur, mannkynið í Syndafallið. Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni. Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát. Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva. Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg. (1. Tím. 2:11-14).

Guðmundur Örn Ragnarsson, 18.6.2025 kl. 20:28

3 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Allt sem Guðmundur Örn skrifar hér er rétt. Engar heimildir eru fyrir gyðjudýrkun innan gyðingdóms, og ekki heldur kristni. María mey er það eina sem hægt er að benda á, sem minnir á slíkt innan kaþólskunnar. Enda sumt í kaþólsku leifar af heiðnum trúarbrögðum, einsog dýrðlingadýrkunin, sem minnir á marga guði.

Rabbíanar og aðrir sem mótuðu gyðingdóm og kristni hreinsuðu alla gyðjudýrkun út mjög snemma. Sumir halda því fram að gyðingdómur og trúin á Jahve hafi þróazt uppúr Baaldýrkun Kananítanna, en hans kona og gyðja var Ashera, sem sumir fræðimenn telja að hafi verið eiginkona Jahve alveg í byrjun. Það eru næstum 3000 ár síðan því var breytt og Ashera fjarlægð. Eftir stendur aðeins bann við dýrkun á Ashera pólum, súlum í Biblíunni, sem sagt mjög strangt bann við öllu svona.

Ef farið er gegn 2000-3000 ára hefðum gyðingdóms, kristninnar og kirkjunnar, þá er þetta varla lengur sama trúin lengur eða sömu trúarbrögðin. Nei, alls ekki.

Ingólfur Sigurðsson, 18.6.2025 kl. 22:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband