Rassvasaréttlæti Víðis og líf stjórnarinnar

Víðir Reynisson Samfylkingarþingmaður tekur einn hælisleitanda af 19 sem á að vísa úr landi og ætlar veita honum ríkisborgararétt. Helga Vala fyrrum þingmaður Samfylkingar er hælislögmaður mannsins sem Víðir hyggst veita ríkisborgararétt.

Skilaboð Víðis og Helgu Völu er að með réttum hælislögmanni er ólöglegum útlendingum allir vegir færir á Fróni. Þeir 18 sem bíða brottreksturs hljóta að kaupa þjónustu Helgu Völu til að komast á íslenska velferð. Hælislögmenn taka við Vísa-raðgreiðslum.

Rassvasaréttlæti Víðis er eins og rassvasabókhald skussa í rekstri, leiðir til gjaldþrots. Víðir er ekki í sjoppurekstri heldur þingmaður ríkisstjórnarmeirihlutans. Pólitíska gjaldþrotið sem blasir við er fall Kristrúnarstjórnarinnar. Ekki í dag eða morgun. Það tekur tíma að stúta ríkisstjórn innan frá.

Jafnræðisreglan í réttarríkinu er þverbrotin með framferði Víðis. Hugdettustjórnarfarið, sem birtist í hegðun Víðis, er næsti bær við stjórnleysi. Ábeking ríkisstjórnarinnar á hugdettustjórnsýslu jafngildir uppgjöf á landsstjórninni.

Útspil Víðis kemur í kjölfar skemmdarverka dómsmálaráðherra á Keflavíkurflugvelli sem rak hæfan mann í landamæraeftirlitinu. Á landamærunum er allt í upplausn, þau mígleka, kom fram á alþingi í gær. Þjóðin telur allof marga hælisleitendur sleppa inn í landið en Víðir og ríkisstjórnin bjóða hælisiðnaðinum frjálsa hagbeit á íslenskan almenning.

Flokkur fólksins ríður ekki feitum hesti frá fyrsta misseri stjórnarinnar. Kristrún og Doddi netníðingur brugguðu Ásthildi Lóu barnamálaráðherra launráð í samvinnu við RÚV og létu Ingu Sæland kyngja afsögninni með brosi á vör. Núna skal opna landamærin upp á gátt til að hælisútlendingar keppi við stærsta kjósendahóp Flokks fólksins um félagsleg úrræði. Vísutölutrygging bóta almannatrygginga í landi með opin landamæri er dautt mál. Hælisiðnaðurinn er óseðjandi.

Fylgi Flokks fólksins skreppur saman en Samfylking og Viðreisn halda sínu. Veðmálið er hve lengi Inga lætur alþjóðasinna vaða yfir sig og skjólstæðinga Flokks fólksins. Varla bíður hún eftir að síðasta atkvæðið þakki fyrir sig.

Veikleikar stjórnarsamstarfsins opinberast skýrar er nær dregur þinglokum sem eru í fullkominni óvissu. Valkyrjustjórnin fékk sína hveitibrauðsdaga en sólundaði þeim í útlöndum að bjarga alþjóðamálum í Úkraínu og Gasa. Nær hefði verið að sinna heimahögum.  

 


mbl.is Víðir Reynisson sakaður um trúnaðarbrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Hugsið ykkur að eiga úrlausn mála undir því að geta orðið gæludýr framapotara. Hvernig stendur á því að Íslendingar skilja ekki prinsip? 

Baldur Gunnarsson, 4.6.2025 kl. 09:08

2 Smámynd: Jón Magnússon

Takk fyrir þennan pistil Páll.  

Tek undir með þér að Víðir mælir fyrir því að jafnræðisregla sé brotin. 

Í annan stað verður ekki annað séð en að hann hreinlega segi ósatt.  Hann getur ekkert fullyrt um það með hvaða hætti undirnefnd Alsherjarnefndar hagar sinni afgreiðslu og því síður getur hann fullyrt eitt eða annað um það með hvaða hætti þingheimur afgreiðir hlutina. En hann gerir það samt og fullyrðir hluti við forstjóra Útlendingaeftirlits sem ekki er á hans færi að fullyrða um. 

Allt þetta segir hann gert á grundvelli mannkærleikans. þ.e. mannkærleikans fyrir suma með því að rugla í biðröðinni.  Fróðlegt að sjá að einn æðsti maður löggæslu í landinu telur rétt að grípa til ósanninda ef "hann" metur það svo að það sé í þágu góðs málefnis.  Mér þykir verulega miður ef fólk sér ekki að svona er ekki hægt að gera og maðurinn verður að víkja alla vega sem formaður Allsherjarnefndar. 

Jón Magnússon, 4.6.2025 kl. 09:11

3 Smámynd: Helga Dögg Sverrisdóttir

Ég hef áhyggjur af að Inga og Flokkur fólksins hafi selt þögn sína og atkvæði fyrir málefni sem eru Ingu hugleikin. Nú allt í einu hefur þjóðin efni á að reisa elliheimili víða um land, þó enginn sé mannskapurinn til að vinna við öldrunarþjónustuna. Í það minnsta ekki þeir sem tala íslensku.

Síðan er það hundafrumvarp Ingu, hennar hjartans mál að hafa hunda rétthærri en fólk með kvilla sem tengjast hundum og öðrum dýrum.

Strandveiðifrumvarpið, það þarf að safna atkvæðum fyrir því. Þögnin er góður gjaldmiðill.

Bókun 35, henda ölmusu til þingmanna Flokk fólksins og þá eru þeir góðir.

Inga hefur svikið kjósendur sína svo um munar. 

Helga Dögg Sverrisdóttir, 4.6.2025 kl. 11:10

4 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ásthildur Lóa varð að gefa upp ráðherraembætti sitt fyrir atvik sem áttu sér stað fyrir áratugum síðan, nú kemur Víðir Reynisson og þverbrýtur lög og það á þessari stundu, hann hlýtur að segja af sér hið fyrsta. Geri Víðir ekkert í því að segja af sér er ríkisstjórnin búin að glata því litla trausti sem hún hefur. Og hvað mun nú Flokkur fólksins gera? ætla þau að láta gott heita eða munu þau sverfa til stáls???????

Tómas Ibsen Halldórsson, 4.6.2025 kl. 22:52

5 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Úr kastljósþætti RÚV: ,,Víðir sagði ekki rétt, eins og haldið hefur verið fram, að hann hafi beðið Útlendingastofnun um að fresta brottvísun Oscars Anders Bocanegra Florez, 17 ára gamals kólumbísks drengs, heldur hafi hann upplýst stofnunina um stöðu málsins þegar eftir því var óskað og greint stofnuninni frá því að yfirgnæfandi líkur væru á því að hann fengi ríkisborgararétt í gegnum Alþingi".

Tryggvi L. Skjaldarson, 5.6.2025 kl. 07:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband