Þjóðin kaupir sér banka? Nei, aðeins 10% þjóðarinnar

Mest lesna fréttin í gær á Mbl.is er listinn yfir þá sem keyptu hlutabréf í Íslandsbanka. Aðrir fjölmiðlamiðlar birtu einnig listann sem þýðir að verulegur áhugi var að lesa nöfn og kennitölur þeirra sem keyptu. Minnir okkur á að við erum þjóðin sem til skamms tíma skemmti sér við að hlera samtöl í sveitasímanum.

Tilfallandi hefur ekki gefið sér tíma að stúdera nafnalistann af nýjum eigendum Íslandsbanka. Guðmundur Brynjólfsson rithöfundur gjóaði á listann og fannst prýðismál hve margir ávöxtuðu fé sitt í útboðinu. Sagði síðan í færslu á Facebook:

Áhugaverðast er auðvitað að sjá að fólk sem hvorki borgar tekjuskatt né útsvar skuli eiga í handraðanum aura, jafnvel milljónir, til að kaupa hlutabréf í banka. 

,,Þetta tækifæri greip þjóðin," sagði Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra þegar útboðið var afstaðið. Í reynd voru það aðeins ríflega tíu prósent af fjárráða Íslendingum sem keyptu. Meðaltal kaupanna voru tæpar þrjár milljónir á haus. Útboðsgengið var 106,56 kr. á hlut, gengið í bankanum í dag er 118,5 kr. á hlut. Rúmlega tíu prósent hagnaður. Lagleg ávöxtun á fáeinum dögum, en ekkert meira, séu hreyfingar á hlutabréfamarkaði hafðar í huga.

Hvað stjórnvöld varðar gekk útboðið vel, fáir gerðu athugasemd við framkvæmd og almennt virðist sátt um hvernig til tókst. Engum datt í hug að gera því skóna að vildarvinum ríkisstjórnarflokkanna væri hampað. Útboðið var almennt og jafnvel þótt einhver ráðherrafaðir hefði keypt hlut yrði ekki gert veður út af því. Er nokkur annar bragur á umræðunni en við síðasta útboð sem leiddi til krampakenndra viðbragða, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

En það er þetta með þjóðina sem keypti sér banka þegar í reynd aðeins tíundi hluti fjárráða kaupir hlut. Menn ættu að fara varlega í að þjóðgera tíund landsmanna. Níu af hverjum tíu létu sér fátt um finnast útboð Íslandsbanka. 


mbl.is Listi yfir þá sem keyptu í Íslandsbanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Að selja fólki banka sem það á, er tær snilld. Þó Hrunverjar hafi afrekað margt  tókst þeim aldrei að toppa þetta.

Og 10% þjóðarinnar lét blekkjast! 

Gunnar Heiðarsson, 28.5.2025 kl. 08:32

2 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Verður fróðlegt að skoða skattskrána í ljósi kaupendalistans.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 28.5.2025 kl. 13:33

3 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Níu af hverjum tíu létu sér fátt um finnast útboð Íslandsbanka.

Nú eða áttu hreinlega ekkert til að fjárfesta fyrir.

Ragnar Kristján Gestsson, 28.5.2025 kl. 16:59

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þjóðin á ekki að þurfa að kaupa það sem hún þegar á. Ég er enn að bíða eftir að fá hlutabréfin mín send með pósti eins og Sigmundur Davíð lofaði.

Það eina góða við þetta er að sala ríkisins á hlutabréfum tekur peninga úr umferð frá fólki sem á greinilega nóg af þeim hvort sem er og getur þannig kannski dregið úr verðbólguþrýstingi á okkur hin sem skrimtum.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2025 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband