Laugardagur, 24. maí 2025
Namibíuráðgjafar ríkisstjórnar Kristrúnar
Tveir fyrrum blaðamenn eru helstu ráðgjafar stjórnar Kristrúnar Frostadóttur í veigamesta máli stjórnarinnar til þessa, tvöföldunar á veiðigjöldum útgerðarinnar. Í blaðamennskutíð sinni sérhæfðu félagarnir sig í útgerðarháttum í Namibíu. Fyrir fjórum árum birtu þeir stórfrétt, að eigin mati, um uppboð á veiðiheimildum í Namibíu. Hér væri komin fyrirmynd fyrir Ísland. Útreikningurinn á veiðigjöldum sem runnu í namibíska ríkiskassann reyndist kolvitlaus, eins og lyfjafræðingurinn Ingunn Björnsdóttir benti þeim á.
Ingunn rifjar upp samskiptin við Arnar Þór Ingólfsson og Þórð Snæ Júlíusson í færslu á Facebook fyrir þremur dögum. Hún skrifar:
Ég var að gramsa í gömlum Messenger skilaboðum. Og hnaut um bæði samtal mitt við Inga Frey Vilhjálmsson um stóru læk-fréttina... Ooog samtal mitt við Þórð Snæ Júlíusson um namibíska kvótauppboðið sem floppaði og endaði með að nágrannarnir í Kongó skáru Namibíumenn úr snörunni og keyptu óselda kvótann á yfirverði. Ég taldi ástæðu til að leiðrétta Kjarnafrétt um mislukkaða kvótauppboðið af því að Kjarna-piltarnir höfðu feilreiknað sig dálítið hressilega. Þeir áttuðu sig á feilreikningnum eftir stutta kennslustund í reikningi, - og leiðréttu fréttina. En þeir þökkuðu mér ekki fyrir, bölvuð beinin. Hvorki í skilaboðum né í tilkynningunni um leiðréttinguna.
Ingunn vísar í fréttina sem þeir Arnar Þór og Þórður Snær eru ábyrgir fyrir og þar kemur leiðréttingin fram:
Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var því ranglega haldið fram, vegna villu í útreikningum blaðamanns, að ríkisstjórn Kongó hefði keypt hrossamakrílskvóta á því verði sem var meðalverð á þeim uppboðum sem namibísk stjórnvöld stóðu fyrir. Hið rétta er að Kongómenn greiddu hærra verð en fékkst í uppboðunum.
Eins og Ingunn segir, kvótauppboðið í Namibíu floppaði. Ýmislegt annað floppaði þar syðra sem tengist RSK-miðlum (RÚV, Stundinni og Kjarnanum), eins og frásagnir fyllibyttu um mútugjafir - en það er önnur saga.
Arnar Þór og Þórður Snær eru núna á mála hjá stjórnarmeirihlutanum á alþingi, fá ríkislaun í gegnum þingflokk Samfylkingar. Helsta verkefni þeirra er að tala fyrir tvöföldun veiðigjalda á útgerðina hér heima. Helsta sérhæfing félaganna er að þeir kunna ekki að reikna, það sást á Namibíufréttinni. Kristrún og félagar í stjórnarráðinu ættu að fá Ingunni Björnsdóttur að yfirfara það sem frá Namibíuráðgjöfunum kemur. Eins og norðlenskur skipstjóri myndi orða það: þjóðarbúið má ekki við ,,sérfræðingum" með greindarvísitölu við frostmark og botnfrosið siðvit. Skipstjórinn talar af reynslu.
Athugasemdir
Eins og norðlenskur skipstjóri myndi orða það: þjóðarbúið má ekki við ,,sérfræðingum" með greindarvísitölu við frostmark og botnfrosið siðvit. Skipstjórinn talar af reynslu.
Ekki hægt að lýsa þessum pörupiltum betur.
Sigurður Kristján Hjaltested, 24.5.2025 kl. 10:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning