Mánudagur, 19. maí 2025
Logi, eiginkonan og RÚV
Í viðtengdri frétt segir Logi Einarsson fjölmiðlaráðherra að hann ætli ekki að skipta sér af fréttaumfjöllun RÚV. Enginn hefur beðið Loga að skipta sér af fréttum RÚV. Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins spurði aftur Loga hvort sjálfsagt væri að RÚV höndlaði með stolin gögn í gagnalekamálinu. Svar Loga er útúrsnúningur, fréttir eru eitt, stolin gögn annað.
Tvö RÚV-mál eru til meðferðar hjá þingnefndum alþingis. Gagnalekamálið er annað en hitt er byrlunar- og símamálið. Páll skipstjóri Steingrímsson óskaði atbeina stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis að upplýsa aðkomu RÚV að byrlun skipstjórans og stuldi á símtæki hans.
Logi fjölmiðlaráðherra og yfirmaður RÚV er þar í athyglisverðri stöðu. Eiginkona hans, Arnbjörg Sigurðardóttir dómari við héraðsdóm Norðurlands eystra á aðkomu að byrlunar- og símamálinu. Einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður, kærði til dómstóla að hann skyldi boðaður í skýrslutöku lögreglu. Arnbjörg dæmdi Aðalsteini í vil en landsréttur ómerkti dóm eiginkonu fjölmiðlaráðherra. Þegar Páll skipstjóri kærði að lögregla hætti rannsókn á málinu, hvað blaðamenn varðar, kom fram aðild Arnbjargar dómara og var hún ekki fagleg. Tilfallandi fjallaði í haust um kæru skipstjórans:
Ítarleg greinargerð fylgir kæru skipstjórans til ríkissaksóknara. Þar eru m.a. ný gögn sem varpa ljósi á tengingar milli sakborninga og forystu Samfylkingarinnar. Einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson, var á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi kosningarnar 2009. Aðalsteinn kærði til dómstóla er hann var boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu í byrjun árs 2022. Héraðsdómur Norðurlands eystra tók kæruna fyrir. Dómarinn var Arnbjörg Sigurðardóttir, eiginkona Loga Einarssonar þingmanns og þá formanns Samfylkingar. Í gögnum með kæru skipstjórans er yfirlýsing vitnis sem segist hafa heyrt Arnbjörgu dómara ræða mál Aðalstein tveim vikum áður en það kom fyrir héraðsdóm. Í yfirlýsingunni segir að Arnbjörg
hafði fyrir 2. vikum áður fjallað um þetta mál á kaffistofu dómsins. Lýsti hún [Arnbjörg] sinni skoðun að lögreglan hefði ekki átt að boða sóknaraðila [Aðalstein] í skýrslutöku sem sakborning.
Almennt gildir að dómarar eigi ekki að taka afstöðu fyrr en þeir hafa kynnt sér dómsskjöl. Samfylkingarréttlæti er af öðrum toga, þar skiptir flokksskírteini meira máli en sannleikur, lög og réttur. Arnbjörg dæmdi Aðalsteini í vil, enda búin að ákveða það fyrirfram á kaffistofuspjalli. Landsréttur ómerkti úrskurð samfylkingardómarans og dæmdi að Aðalsteini væri skylt að mæta í skýrslutöku lögreglu.
Lögin í landinu og túlkun dómstóla er að blaðamenn og fjölmiðlar eigi að svara til saka líkt og aðrir einstaklingar og lögaðilar þegar rökstuddur grunur vaknar um afbrot. Tilraun samfylkingarhjónanna, Arnbjargar og Loga, til að undanskilja blaðamenn og fjölmiðla frá meginreglum réttarríkisins er í senn lögleysa og siðleysi. Í byrlunar- og símamálinu er Logi bullandi vanhæfur að tjá sig um RÚV og hlutdeild ríkisfjölmiðilsins. Hjónasængin er ekki vettvangurinn til að ákveða sekt eða sýknu í réttarríkinu.
![]() |
Varhugavert að hafa áhrif á fréttaumfjöllun RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning