Mánudagur, 12. maí 2025
Helgi þagði um samning saksóknara við PPP
Helgi Seljan fréttamaður RÚV lét ógetið samningsins milli sérstaks saksóknara og PPP þegar hann ,,afhjúpaði" gagnalekamálið. Samningurinn útskýrir hvers vegna gögnin voru í fórum PPP, fyrirtæki tveggja fyrrum starfsmanna sérstaks saksóknara. Þögn Helga um samninginn sýnir að fréttamaðurinn lagði sig fram um að gera hlut PPP og sérstaks saksóknara sem verstan. Stolin gögn er ekki sami hluturinn og gögn sem afhent eru samkvæmt samningi.
PPP var fyrirtæki þeirra Guðmundar Hauks Gunnarssonar og Jóns Óttars Ólafssonar, en þeir störfuðu hjá embætti sérstaks saksóknara, sem nú heitir embætti héraðssaksóknara. Í viðtengdri frétt staðfestir héraðssaksóknari, Ólafur Þór Hauksson, að embættið hafi á sínum tíma, fyrir meira en áratug, gert samning við PPP um að ljúka rannsókn á málum sem tvímenningarnir höfðu unnið að sem opinberir starfsmenn.
Gögnin sem Helgi Seljan sýndi í RÚV-fréttum voru m.a. glærur frá PPP. Þau gögn komu hvorki frá Guðmundi Hauki né Jóni Óttari, eigendum PPP, og eru því stolin. Einhver stal fyrir Helga Seljan og RÚV. Ekki í fyrsta sinn sem RÚV höndlar með þýfi.
Með því að Helgi, í RÚV-fréttinni, sagði ekki frá tilvist samnings saksóknara við PPP þjófkenndi hann lögreglumennina tvo, eigendur PPP. Embætti sérstaks saksóknara, nú héraðssaksóknara, kom illa út úr umfjölluninni og var sýnt sem reiðuleysisstofnun þar sem trúnaðargögn fara án eftirlits út úr húsi.
Gagnalekamálið er tvíþætt. Í fyrsta lagi þarf að upplýsa gagnalekann, hver tók ófrjálsri hendi gögn og lét í hendur Helga og RÚV og hvers eðlis samningurinn við PPP var. Persónugögn, vistuð í einni opinberri stofnun verða fréttahneyksli í annarri stofnun, RÚV. Þetta þarf að upplýsa, samhliða hvort samningur saksóknara við einkafyrirtæki standist kröfur um vandaða stjórnsýslu. Boðað er að þingnefnd taki málið fyrir.
Í öðru lagi er gagnalekamálið rammpólitískt enda á forræði æðstu yfirvalda. Ein opinber stofnun, RÚV, er starfar á ábyrgð Loga Einarssonar fjölmiðlaráðherra, tekur við þýfi og herjar á tvær aðrar stofnanir, embætti héraðssaksóknara og ríkissaksóknara, með alvarlegum ásökunum um gagnaleka, óvandaða stjórnsýslu og yfirhylmingu. Ríkissaksóknari komst í skotlínu Helga og RÚV fyrir að ganga ekki nógu hart fram gegn PPP fyrir rúmum áratug. Yfirmaður beggja embætta, héraðs- og ríkissaksóknara, er Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Ráðherrar sem etja stofnunum sínum í leðjuslag með brigslyrðum og hamagangi í opinberri umræðu starfa ekki í þágu almannaheilla. Ríkisstofnunum hentar illa að leika trúða í fjölmiðlasirkus. Ráðherrar eiga að gæta almannahagsmuna, ekki leyfa að ríkisstofnanir séu notaðar í hráskinnaleik hégómlegra manna sem vilja endurheimta glatað orðspor með öllum tiltækum ráðum.
Nú þegar skammast RÚV sín fyrir atlöguna í síðustu viku. Um helgina voru engar framhaldsfréttir um málið. RÚV ætlaði sér í fréttaherferð í gagnalekamálinu til að vinna tilbaka glatað traust og tiltrú vegna tveggja hörmungarmála, byrlunar- og símamálsins annars vegar og hins vegar aðfararinnar að Ásthildi Lóu fráfarandi barnamálaráðherra. Í stað þess að verða rós í hnappagat Helga Seljan og Stefáns útvarpsstjóra er gagnalekamálið orðið að myllusteini um háls þeirra.
Frammistaða Helga-Stefáns staðfestir enn og aftur að RÚV er meinsemd í íslensku samfélagi. Ríkisfjölmiðillinn fær yfir sex milljarða króna árlega af skattfé og notar peningana til að skapa óreiðu og úlfúð í samfélaginu þar sem fléttast saman pólitík og persónuleg óvild. Starfsaðferðir RÚV eru handan laga og siðferðis.
![]() |
Saksóknari samdi við PPP |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning