Ritskoðun RÚV í þágu rétttrúnaðar

Rithöfundurinn Halldór Armand skrifaði pistla fyrir RÚV í áravís þangað til einn góðan veðurdaginn að hann hafði ,,ranga" skoðun á stóru máli. RÚV er hákirkja ,,réttra" skoðana og getur ekki leyft nema eina skoðun í málum sem talin eru skipta sköpum í liðsuppstillingu góða fólksins. Halldór segir frá:

Þarna skrifaði ég um stríðið í Úkraínu og bjóst ekki við neinum viðbrögðum þannig og fannst þetta frekar „basic take“ hjá mér, þar sem ég gaf aðeins í skyn að þó að stríðið væri algjörlega óréttlætanlegt á allan hátt væri samt kannski eitthvað stærra samhengi sem væri gott að skoða til að skilja þetta. Að þetta væri ekki bara svona teiknimyndardæmi með einum vondum kalli. En ég fékk heldur betur að heyra það og alls konar málsmetandi fólk birtist í fjölmiðlum til að kalla mig lygara. [...] Ég fékk rosalega neikvæð viðbrögð við þessu og það voru hringdir út prófessorar í Háskólanum til að kalla þetta rússneskar lygar og þar fram eftir götunum.

Úkraínustríðið var nokkurra mánaða gamalt er Halldór skrifaði í RÚV sumarið 2022 að kannski væri stríðið ekki einu manni um að kenna, Pútín Rússlandsforseta. Kannski að fleiri orsakir liggi að baki, t.d. útþensla Nató í austurátt eftir lok kalda stríðsins.

En, nei, samkvæmt hákirkjunni á Efstaleiti er aðeins ein skoðun leyfð í stóru málunum. Úkraínustríðið varð eldfimt af annarri ástæðu er upp er gefin. Þau eru háð mörg stríðin án þess að góða fólkið skoðanahervæðist og lemji á þeim sem ekki ganga í takt.

Allt frá því herrans ári 2016, Brexit og fyrra forsetakjör Trump, er góða fólkið með böggum hildar. Sérkennilegur tími, kenndur við vók, er við að líða undir lok og þar með veröldin eins og hún var. Tveir menn öðrum fremur eru gerðir ábyrgir fyrir endalokum vóksins, Trump og Pútín.

Vitanlega er út í bláinn að Trump og Pútín eyðilögðu vókið. Líkt og aðrar öfgar tortímdi það sér sjálft. Rétt aftur er að hvorugur forsetanna taldi vökula svefngengla menningarauka.

Vókið var pólitík vinstrimanna í áratug, 2014-2024. Ekki liggur fyrir hvaða vinstridella fær næst framgang - en það má bóka að RÚV klappi þann stein. Frá hruni hefur ríkisfjölmiðillinn fengið 100 milljarða, segi og skrifa hundrað milljarða, til að telja fólki trú um að hvítt sé svart. Skattgreiðendur standa undir lygafabrikkunni - en eru aldrei spurðir álits hvort þeim líki betur eða verr.

 

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Einsog Halldór segir þá sveiflast pendúlinn
Fólki finnst almennt að gengið hafi verið of langt í Wokisma og þá kemur bakslag. Fáir treysta lengur RUV fréttum og það traust kemur ekki aftur.

Líkt og þegar Bragi Páll drap mótmæli sem standa áttu á hverjum laugardegi með öfgafullri hatursræðu á Austurvelli - fólki ofbauð málflutningurinn og gekk í burtu og kom ekki aftur.

Grímur Kjartansson, 7.5.2025 kl. 09:08

2 Smámynd: Baldur Gunnarsson

Hérlendis á glöggur, íhugull og málsnjall maður á borð við Halldór Armand helst ekki að segja neitt opinberlega. 

Baldur Gunnarsson, 7.5.2025 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband