Mánudagur, 5. maí 2025
Trump er forsenda skilnings á samtímanum
Trump er hálfguð hjá sumum en Satan sjálfur í augum annarra. Enginn stjórnmálamaður í manna minnum vekur slíkt umrót sem sitjandi Bandaríkjaforseti. Fylgjendur og andstæðingar staðfesta með heitum tilfinningum, ýmist tilbeiðslu eða stæku hatri, að Trump er lykill að skilningi á samtímanum.
Ráðandi hugmyndafræði á vesturlöndum, fyrir Trump, var frjálslyndi, sem kom í tveim útgáfum, er kenna má við hægri og vinstri. Vestrænt frjálslyndi, báðar útgáfur, var á sigurbraut frá og með lokum kalda stríðsins fyrir 35 árum. Samskiptaháttur frjálslyndisins er samfélagsmiðlar. Miðilinn mótar boðskapinn er gömul mantra úr fjölmiðlafræðum. Samfélagsmiðlar mótuðu þann boðskap að vestrænt frjálslyndi yrði ráðandi í heimsþorpinu er lyti forræði alþjóðlegra stofnana sem höfuðu með sér samráð.
Til að fá alþjóð með sér í leiðangurinn var búin til ógnvaldur er krafðist stóraukins yfirþjóðlegs valds. Ógnvaldurinn er manngerð loftslagsvá. Tveir spámenn, hvorugur með þekkingu á loftslagi eða veðurfarssögu, Al Gore og Gréta Thunberg, vitnuðu að eingöngu með reglugerðum og skattlagningu væri hægt að forða heiminum frá hamfarahlýnun. Jafnvel á köldu Íslandi trúðu menn að hlýindi væru helvíti en norðangarri himnaríki.
Ógn og skelfing til að sameina heimshjörðina var bætt upp frelsunarboðskap andfélagslegrar einstaklingshyggju. Í heimsþorpinu nýja mátti hver og einn skilgreina sig að geðþótta. Karlar urðu konur og stelpur strákar. Umburðalyndi leikskólans, með hlutverkaleiki bæði fyrir og eftir hádegi, varð samfélagsnorm. Sjáandi máttu skilgreina sig sem blinda og heilbrigðir sem fatlaða. Sjúkrasjóðir tæmdust er æ fleiri lýstu sig kulnaða í starfi. Sjálfssjúkdómagreining hélst í hendur við sjálftöku á lyfjum, hvort heldur amfetamíni við ADHD eða ópíóðum við lífsleiða.
Frjálslyndið, með öðrum orðum, aumingjavæddi vestræn samfélög. Háskólar, ávallt í forystu nýrra hugmyndastrauma, bjuggu til DEI, sem stendur fyrir fjölbreytileika, jöfnuð og inngildingu. Hér er kominn kjarni vóksins, sem tilfallandi útskýrði í vetur:
Vókið er blanda félagslegs réttlætis og andfélagslegrar einstaklingshyggju. Blandan er mótsagnakennd eins og sést á helstu útgáfunni, DEI. Kjarni DEI er fjölbreytni, jöfnuður og inngilding. Mannlífinu er þannig háttað að fjölbreytni og jöfnuður fara ekki saman. Ójöfnuður er óhjákvæmilegur hluti af fjölbreytni. Sumir eru gáfaðri en aðrir, duglegri, heppnari, agaðri, fórnfúsari, skipulagðari og ósérhlífnari. Fjölbreytni skilar sér í ólíku lífshlaupi þar sem aðrir þættir koma við sögu, t.d. tækifæri og ógnanir í umhverfinu.
Þriðji þátturinn i DEI, inngilding, á að jafna mótsagnir á milli þeirra tveggja fyrstu, fjölbreytni og jafnaðar, en gerir það eitt að auka á óreiðuna.
Trump heggur á báðar hendur í stríðinu gegn úr sér vöxnu frjálslyndinu og uppsker ýmist aðdáun eða andstyggð. Íslandsvinurinn Daniel Hannan skrifar í Telegraph að nýlegir kosningasigrar frjálslynda vinstrisins í Ástralíu og Kanada sýni hve illa fer fyrir frjálslynda hægrinu á tímum Trump. Ráðlegging Hannan er að hægrimenn taki afstöðu gegn Trump og haldi á lofti hægra frjálslyndi til að tapa ekki kosningum fyrir vinstra frjálslyndinu. Tungutak Hannan er gærdagsins. Frjálslynd hægristefna verður ekki sigurafl í fyrirsjáanlegri framtíð.
Trumpismi er ekki hugmyndafræði, meira viðbragð við ófremdarástandi. Kjörtímabil sitjandi Bandaríkjaforseta er uppgjör við ógöngur frjálslyndis sem skóp forsendur fyrir öfgalýðræðinu, - fyrirbæri sem bloggað var um í gær.
Hvað kemur eftir uppgjörið? Enginn veit en niðurstaða þriggja stórmála ræður miklu um framhaldið. Í fyrsta lagi tollastríðið, í öðru lagi útlendingamál og í þriðja lagi Úkraínustríðið. Málin eru að mestu ótengd - nema að því leyti að Trump hefur gert þau að sínum. Ólíkt loftslagsmálum og vókinu, þar sem Trump hefur svo gott sem sigrað, eru stórmálin þrjú enn óútkljáð.
![]() |
Ég verð átta ára forseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning