Öfgalýðræði

Valkostur fyrir Þýskaland, AfD, er næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins, með 20 prósent atvæða í þingkosningum í febrúar á ár. Flokkurinn var á föstudag skilgreindur af þýsku leyniþjónustunni sem hægriöfgaflokkur.

Afleiðingarnar af skilgreiningunni eru enn ekki komnar fram. Samkvæmt þýsku útgáfunni Die Welt gætu opinberir starfsmenn, sem eru félagar í AfD, sætt rannsókn og e.t.v. misst starfið. Þá eru opinberar fjárveitingar til flokksins til skoðunar. Eðli málsins samkvæmt njósna yfirvöld um öfgahópa, beita m.a. hlerunum. Ofsóknir í þágu lýðræðis er nýlunda.

Skilgreining þýsku leyniþjónustunnar kemur í framhaldi af samráði annarra stjórnmálaflokka um að starfa ekki með AfD. Samsæri gegn niðurstöðum frjálsra kosninga er ekki einkenni lýðræðislegra stjórnarhátta.

Burtséð frá efnisatriðum skilgreiningarinnar, leyniþjónustan gefur ekki upp nema niðurstöðuna, er stórmerkilegt að ríkisvald í lýðræðisríki lýsi yfir að stjórnmálaflokkur, sem einn af hverjum fimm landsmönnum kýs, sé öfgaflokkur án tilveruréttar.

Leyniþjónustan þýska gefur upp að AfD sé mannfjandsamlegur og virði ekki rétt minnihlutahópa. Umsögnin er pólitísk fremur en efnisleg. AfD hefur ekki farið með opinbert vald og ekki hægt að sýna fram á að flokkurinn brjóti gegn réttindum einstaklinga eða hópa.

Fyrirsögnin í þessu bloggi, öfgalýðræði, er mótsögn. Lýðræði er aðferð til að leiða fram meirihlutavilja án þess að réttur minnihluta sé fyrir borð borinn. Í lýðræði getur meirihluti í dag orðið minnihluti á morgun. Frjálsar kosningar eru helsta verkfæri lýðræðislegra stjórnarhátta. Lýðræði, sem stendur undir nafni, getur ekki verið öfgar í venjulegum skilningi orðsins. Öfgar útiloka málamiðlunina sem lýðræðið byggir á, að skipta um stjórnvald án þess að fangelsa eða skjóta fyrri valdhafa.

Þýska ríkið úrskurðar fimmtung þjóðarinnar halla undir öfga og fer nærri að banna starfsemi stjórnmálaflokks, AfD, sem er næst stærstur á þýska þjóðþinginu. Í raun er þýska leyniþjónustan, í umboði ríkisvaldsins, ekki að verja lýðræðið heldur staðhæfa að sumar skoðanir, t.d. á innflytjendamálum, séu óæskilegar. Með því að spyrða óæskilegar skoðanir við öfgar, og fá þær bannaðar, er lýðræðinu ekki þjónað heldur harðstjórn rétttrúnaðarins sem þolir ekki frjálsa orðræðu.

skoðanakönnun, gerð eftir yfirlýsingu leyniþjónustunnar, segir að 48 prósent Þjóðverja vilji banna AfD, 37 prósent eru á móti banni og 15 prósent hafa ekki skoðun. Þegar skoðanir eru úrskurðaðar ólögmætar styttist í fangelsun manna með bannaðar skoðanir. Lýðræði þrífst ekki í fangabúðum.

Þýska tilraunin með öfgalýðræði fær ein málalok af tvennum mögulegum. Í fyrsta lagi að réttnefndu öfgarnar, pólitíski rétttrúnaðurinn, bíði lægri hlut. Í öðru lagi að lýðræðið fari í hundana. Síðast þegar það gerist í Þýskalandi spratt fram austurrískur liðþjálfi með frímerkjaskegg og gerði þýskum tilboð sem þeir gátu ekki hafnað.

 

 


mbl.is Vance: Búið að endurreisa Berlínarmúrinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Magnússon

Ekki bjóst maður við því að stjórnvöld í Þýskalandi mundu feta í fótspor Erdogan Tyrklandsforseta og hefja ofsóknir á stjórnmálaandstæðingum.  Í Þýskalandi eru lagaákvæði sem banna ýmislegt sem tengist dapurlegasta tíma í sögu þjóðarinnar, en svo langt mega menn ekki ganga í því, að þeir taki upp stjórnsýslu þeirra sem þeir segjast ætla að vinna gegn. Aðgerðir leyniþjónustunnar nú eru því miður ekki alls ólíkar þeim lögum sem Göring kom í gegn á sínum tíma til að takmarka frelsi stjórnmálaflokkana á þeim tíma til að vinna gegn flokknum sem síðan var einvaldur m.a. vegna þess að stjórnmálaandstæðingar voru ofsóttir eins og þýska leyniþjónustan boðar nú gagnvart AfD.

Jón Magnússon, 4.5.2025 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband