Hræðslujátning Kristrúnar

Kristrún forsætis segir í Wall Street Journal að hún vilji ekki hræða landsmenn inn í Evrópusambandið. Ótti Kristrúnar er annar en hún lætur uppi. Líklegra er að þjóðin hlaupi í dauðans ofboði frá Evrópusambandsaðild og í fang Bandaríkjanna en að hræðsla leiði íslenskan almenning til Brussel.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013  reyndi að hræða þjóðina inn í Evrópusambandið. Það tókst ekki þótt almenningur væri í taugaáfalli eftir hrun og margir tóku undir óopinbert slagorð Samfylkingar: Ísland er ónýtt. Hagkerfið var í gjaldeyrishöftum en gylliboð um evruna blekktu fólk ekki til hollustu við Brussel.

Aðstæður á Íslandi eru allt aðrar núna en 2009 þegar síðasta vinstristjórn sendi umsókn austur í sæluríkið. Íslendingar hafa nýfengna reynslu að fara í gegnum djúpa kreppu, bæði í skilningi fjárhags og menningar, en reisa sig við á grunni fullveldis og sjálfsstæðs gjaldmiðils. Engin leið er búa til sannfærandi hræðsluáróður um að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið innan ESB.

Séu innlendar aðstæður óhagfelldar ESB-sinnum eru alþjóðlegar aðstæður hálfu verri. Tvennt kemur til. Í fyrsta lagi Úkraínustríðið. Hvort heldur að friður verður saminn í bráð eða vopnin tala um nokkra hríð enn er öllum ljóst að meginviðfangsefni ESB verður Rússland næstu ár ef ekki áratugi. ESB verður ekki í nokkrum færum um fyrirsjáanlega framtíð að taka á sig skuldbindingar í varnar- og öryggismálum umfram það að glíma við Rússland. Stöðutaka ESB á Íslandi yrði ekki einu sinni táknræn. Í öryggis- og varnarmálum á Norður-Atlantshafi hefur ESB ekkert upp á að bjóða. Ísland yrði berskjaldaðri gagnvart ytri ógnum innan ESB en utan sambandsins.

Í öðru lagi er öryggis- og varnarmálastefna Bandaríkjanna að taka stakkaskiptum. Bandaríkin líta svo á að GIUK-hliðið, þ.e. svæðið Grænland-Ísland-Bretlandseyja, séu ytri öryggismörk bandaríska meginlandsins á Atlantshafi. Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi staðfestir endurskoðun á varnarmálastefnunni. Stefnubreytingin er ekki eitthvað sem Trump forseta datt í hug heldur langtímaþróun í endurmati Bandaríkjamanna á öryggishagsmunum sínum. Bandarísk yfirvöld munu fylgjast grannt með þróun innanríkismála, bæði á Grænlandi og Íslandi, og reiðubúin að gæta hagsmuna sinna, sé þeim ógnað.

Það liggur í hlutarins eðli að stefni ríkisstjórn Kristrúnar að ESB-aðild með þeim rökum að öryggishagsmunum Íslands sé betur borgið með ESB-aðild verður spurt hvort nánari samvinna við Bandaríkin sé ekki betri kostur. Svarið er einboðið já, Bandaríkin eru til muna líklegri að tryggja varnarhagsmuni Íslands en ESB.

Sagt með öðrum orðum. Hreyfing í átt að ESB-aðild kallar á það andsvar að Íslandi sé betur borgið með nánari samvinnu við Bandaríkin. Fyrirsjáanlega verða pólitísk átök innanlands um grundvallaratriði í utanríkisstefnu landsins. Sagan kennir að slík átök eru hatrömm.

Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra bendir á, í umfjöllun um orð Kristrúnar í Wall Street Journal, að vísir sé að ófriði innan Samfylkingar milli þeirra sem vilja flýta Brusselleiðangrinum og hinna sem ganga fram af varfærni. Innanflokksátök verða hjóm eitt í samanburði átökin í þjóðfélaginu milli ESB-sinna og Ameríkuvina.

Í núverandi viðsjám í alþjóðapólitík er farsælast að stíga varlega til jarðar og efna ekki til pólitískra átaka um hvort Ísland skuli stefna í vestur eða austur. 

 

 

 


mbl.is Vill ekki hræða landsmenn til að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Alltaf hittirðu naglann á höfuðið drengur og ennþá brennur mér í muna að vildum frekar Amerikuna og ég lifi þá enn sem fannst við allt eins geta tilheyrt já þeirri álfu. 

Helga Kristjánsdóttir, 29.4.2025 kl. 11:44

2 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er alveg ljóst að við getum ekki á nokkurn hátt treyst Bandaríkjamönnum fyrir ögyggi okkar og því þurfum við líka að líta annað í þeim efnum.

Sigurður M Grétarsson, 29.4.2025 kl. 13:50

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband