Trump-tollar snilldarbragð eða brjálæði

Dálkahöfundur Telegraph, hlynntur frjálsri verslun, segir Trump-tolla snilldarbragð sem líklega heppnist. Liam Halligan, dálkahöfundur Telegraph, segist fyllast hryllingi yfir mögulegu tollastríði. En Halligan telur meiri línur en minni að tollastríðið sem Bandaríkjaforseti efndi til verði afstýrt og Trump fái sigur. Lykilsetning i grein Halligan er eftirfarandi:

Grunnsannindi eru að um árabil hafa mörg stór hagkerfi, ekki síst Kína og ESB, lagt tolla á vörur frá Bandaríkjunum sem eru hærri, stundum mun hærri, en tollar sem Bandaríkin leggja á vörur frá þessum hagkerfum.

Í hávaðanum af Trump-tollum vilja þessi grunnsannindi gleymast, að tollar á bandarískar vörur eru iðulega hærri, stundum margfalt hærri, en þeir tollar sem Bandaríkin leggja á innflutning frá öðrum ríkjum.

Ef tollar valda skaða, eins og hagfræðin kennir, hljóta allir tollar að vera til óþurftar, ekki aðeins Trump-tollar.

Yfirlýst markmið Trump er að jafna leikinn, að tollar verði sambærilegir á milli Bandaríkjanna og viðskiptaþjóða. Hljómar ekki ýkja byltingarkennt.

Halligan segir viðræður bandarískra stjórnvalda við ríki eins og Japan, Indland og Suður-Kóreu ganga út á að einangra Kína og líklegt sé að þær viðræður skili árangri. Dálkahöfundurinn þykist viss í sinni sök að fyrstu tollasamningar Trumpstjórnarinnar verði við Bretland. Það gæti gerst innan næstu tveggja til þriggja vikna. Vitnað er í orð varaforseta Bandaríkjanna, J. D. Vance og heimilda í Hvíta húsinu fyrir væntum tollasamningum Bretlands og Bandaríkjanna.

Dálkahöfundur Telegraph er í minnihluta hagspekinga er gefa álit á Trump-tollum. Fæstir líta á tollastríðið sem snjallt bragð til að jafna vöruskiptajöfnuð Bandaríkjanna og endurræsa innlenda framleiðslu. Allur þorri óttast að varanlegar hörmungar, efnahagslegar og pólitískar, hljótist af tiltekt Trump í tollamálum. Í haust, síðasta lagi næsta vetur, ætti lýðnum að vera ljóst hvort Trump-tollar séu til marks um snilling eða brjálæðing.

 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband