Laugardagur, 19. apríl 2025
Ísland nær Ameríku en Evrópu
Ísland situr á tveim jarðskorpuflekum, Norður-Ameríkuflekanum og Evrasíuflekanum. Jarðfræðilega færumst við nær Ameríku en fjarlægjumst Evrópu. Líkt og Norður-Ameríka er Ísland landnemasamfélag í upphafi. Flóttamenn frá Noregi og norrænum byggðum á skosku eyjunum og Írlandi settust að hér á landi. Þorri landnema í Bandaríkjunum og Kanada kom frá Evrópu.
Stjórnskipulag sem íslenskir landnámsmenn völdu sér, ýmist kallað þjóðveldið eða kennt við goða og talað um goðaveldi, var á skjön við þróun mála í Evrópu á hámiðöldum, sem var öll í átt til konungsvalds. Bandaríkin höfðu sama háttinn á er þeir losuðu sig undan bresku konungsvaldi á 18. öld og stofnuðu til lýðveldis. Meginþáttur í goðaveldinu og bandarísku stjórnskipuninni er valddreifing. Í stjórnmálamenningu Íslands og Bandaríkjanna er ríkur fyrirvari við miðstýrt yfirvald og vex fyrirvarinn eftir því sem yfirvaldið er fjarlægara.
Í landapólitík samtímans, heitir geó-pólitík á útlensku, færumst við nær Bandaríkjunum en fjarlægjumst að sama skapi ESB-Evrópu. Áhugi, að ekki sé sagður ásetningur, Bandaríkjanna á Grænlandi færir okkur heim sanninn um það.
Fyrir 16 árum þegar misheppnuð vinstristjórn Jóhönnu Sig. sóttist eftir aðild Íslands að ESB-Evrópu var ekki raunhæft að setja fram sem valkost nánari samvinnu við Bandaríkin. Í dag er það raunhæfur kostur.
Íslendingar eiga í grunninn tvo valkosti í utanríkismálum í fyrirsjáanlegri framtíð. Í fyrsta lagi að sameinast um að halda fullveldi okkar og sjálfstæði. Í öðru lagi að efna til óvinafagnaðar og gera upp á milli Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Seinni kostinum fylgir innanlandsófriður, það er jafnvíst og degi fylgir nótt.
Haldi sitjandi ríkisstjórn áfram feigðarflani til ESB-Evrópu verður stofnuð hér landsmálahreyfing sem boðar nánari samskipti við Bandaríkin sem valkost við innlimun í ESB-Evrópu. Vinum er að fagna í vestri. Bandaríska tilboðið verður ávallt betra en það evrópska. Brussel er síðra yfirvald en Washington.
Skynsamlegast fyrir land og þjóð er að gefa hvorki Bandaríkjunum né ESB-Evrópu færi á okkur. Vitkist valkyrjur í tíma getur orðið sæmilegur friður um utanríkismál þjóðarinnar. Ef ekki þarf að beita öllum tiltækum löglegum ráðum að vísa valkyrjum á dyr stjórnarráðsins.
![]() |
Ísland tilheyrir ekki Ameríku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning