Úkraínu verður skipt eins og Þýskalandi

Rússland fær austurhluta Úkraínu. Breskar og franskar hersveitir munu tryggja öryggi Vestur-Úkraínu. Fyrirkomulagið yrði það sama og í Þýskalandi eftir seinna stríð - nema að Bandaríkin munu ekki senda hermenn til Úkraínu. Þetta er tillaga Keith Kellogg er­ind­reka Don­alds Trumps Banda­ríkja­for­seta í Úkraínu.

Haft er eftir sama Kellogg í viðtengdri frétt að árás Rússa í Sumy, þar sem óbreyttir borgarar eru sagðir hafa fallið, sé til óþurftar. Fréttamaður Die Welt í Úkraínu segir að skotmarkið, ráðstefnumiðstöð, hafi verið þéttsetin hermönnum. Hvort sem óbreyttir eða einkennisklæddir falla er Úkraínustríðið í heild tilgangslaust eftir að Trump fékk kjör sem forseti í nóvember á síðasta ári.

Tilgangurinn með Úkraínustríðinu af hálfu vesturveldanna, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu, var að stækka áhrifasvæði vestursins. Langtímaáætlun var að Rússar beygðu sig undir sameiginlegt vald Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Trump hefur engan áhuga á samstarfi við ESB-Evrópu að gera Rússland að hjálendu. Þar með er farin pólitísk réttlæting stríðsins.

ESB-Evrópa óttast fátt meira en rússneskan frið í Úkraínu og bandarískt afskiptaleysi. Allt frá lokum seinna stríðs ábyrgjast Bandaríkin austurlandamæri ESB-Evrópu, sem hefur engan sameiginlegan her og mun ekki öðlast í fyrirsjáanlegri framtíð.

Bretar og Frakkar hafa tilkynnt að þeir geti munstrað samtals um 50 þús. manna herlið til Úkraínu. Í dag er víglínan yfir þúsund kílómetrar. Hvorir um sig telja herir Úkraínumanna og Rússa um milljón manns, þar af eru bardagasveitir um og yfir helmingurinn. Ef gefið er að 50 þúsund manna herlið Breta og Frakka séu allt bardagasveitir, sem vitanlega er ekki tilfellið, yrði friðargæslan 5 prósent af fjölda bardagasveita Úkraínumanna og Rússa á víglínunni. Vægt til orða tekið er ólíklegt að friðargæslan yrði til stórræðanna, væri fyrst og fremst táknræn.

Rússar aftaka með öllu að Nató-hermenn fái heimild til friðargæslu í Úkraínu. Pútín og félagar eru til viðræðu um fjölþjóðaher mannaðan Indverjum, Kínverjum og Afríkumönnum. Slíkur her er ekki til og það tæki nokkur ár að setja hann saman.

Líkleg niðurstaða í stríðinu er að það haldi áfram þangað til að Rússar komast að Dnepró-ánni, sem klýfur Úkraínu í tvennt, og láti þar við sitja. Mögulega taka þeir einnig allt Kherson-hérað í suðri og hafnarborgina Odessa í kaupbæti. Þar með yrði Vestur-Úkraína landlukt ríki og tæplega lífvænlegt.

ESB-Evrópa og Bretland munu reyna með öllum tiltækum ráðum að halda stríðinu áfram á meðan Trump er forseti og vonast eftir hagstæðari kjörum frá eftirmanni hans. Trump, aftur, er ákveðinn að ljúka stríðinu sem fyrst. Eina von Trump um skjót stríðslok er að Rússar komist sem fyrst að Dnepró-ánni. Þá væri hægt að skipta Úkraínu eins og Þýskalandi var skipt eftir seinna stríð. Munurinn er sá að Vestur-Þýskaland átti framtíð.


mbl.is Fulltrúi Trumps: Rússar fóru yfir öll velsæmismörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Þú skrifar: "Tilgangurinn með Úkraínustríðinu af hálfu vesturveldanna, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu, var að stækka áhrifasvæði vestursins"

Þú veist væntanlega jafn vel og allur þorri almennings að þetta stríð er innrásarstríð Rússlands gegn fullvalda lýðræðisríki. Eini "tilgangur" Úkraínuþjóðarinnar er að verjast ofurefli herliðs sem virðir engin siðferðisleg mörk stríðsreksturs.

Þórhallur Pálsson, 14.4.2025 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband