Mánudagur, 7. apríl 2025
Tollar, trans og loftslagsvá sem viðtekin sannindi
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka, Jón Bjarki Bentsson, segir í viðtengdri frétt að ágæti Trump-tolla séu ,,algjör jaðarskoðun" í hagfræði. Ekki er ástæða til að andmæla Jóni Bjarka. Er ég einn um að dásama tollmúra Trump? spyr dálkahöfundur Telegraph. Trump-tollar eru staðreynd sem þarf að setja í samhengi.
Áður en það verður gert er ástæða til að vekja athygli á tvennu, sem ekki koma tollum við, en segja nokkra sögu um jaðarskoðanir sem verða meginstraumsannindi.
Fyrir árið 1990 var algjör jaðarskoðun að heimsbyggðin stæði frammi fyrir loftslagsvá vegna manngerðar hlýnunar andrúmsloftsins.
Fyrir aldamótaárið 2000 var algjör jaðarskoðun að karlar gætu verið konur.
Skilja lesendur hvað átt er við? Jú, í stuttu máli, að jaðarskoðanir í gær eiga til að verða viðtekin sannindi á morgun. Í mannlífinu getur sérviska sem fær lýðhylli orðið viðtekin sannindi þvert á hlutlægan veruleika. Sannfæringarkraftur múgsins á samfélagsmiðlum er verulegur eins og dæmin sanna. Trúi nógu margir fær jaðarskoðun sannindastimpil. Sé hægt að telja fólki trú um loftslagsvá, sem stangast á við eðlisfræði, og karlkonur, sem samrýmast ekki líffræði, er ekki tiltökumál að búa til ný hagfræðisannindi.
Yfirlýsing Bandaríkjaforseta, sem fylgdi tilkynningu um tollahækkanir, segir að þjóðarvá (takið eftir: ekki loftslagsvá, það er grýla gærdagsins) blasi við verði ekkert að gert. Tilgangurinn sé að styrkja Bandaríkin sem efnahagsveldi á alþjóðavísu og verja hagsmuni bandarískra launþega, segir í fyrstu efnisgrein. Enduriðnvæðing Bandaríkjanna kallar á tollahækkanir til að verja föðurlandið fyrir innflutningi frá ríkjum sem tolla bandarískar vörur. Tollarnir jafni ósjálfbæran viðskiptahalla Bandaríkjanna við útlönd.
Á dögum upplýstra einvalda í Evrópu var tollvernd kennd við merkantílisma, kaupauðgisstefnu á okkar ylhýra. Síðast var víðtæk tollinnheimta reynd á vesturlöndum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Í sögulegu samhengi ruddu tollmúrar austurrískum liðþjálfa braut til valda í Þýskalandi. Vegferðin endaði illa.
Í hagfræðinni eru frjáls viðskipti talin auka ábata allra á meðan kaupauðgisstefna, flytja meira út en inn, er ávísun á tollastríð og allsherjartap, ef ekki samfélagsupplausn. Hagfræðin er, ólíkt eðlisfræði og líffræði, samfélagsgrein og er sem slík með pólitíska slagsíðu. Innbyggt í hagfræðina er homo economicus, hagræni maðurinn sem sjálfselskur leitast við að hámarka eigin hag.
Til að virkja sjálfselskuna í þágu almannaheilla bjó hagfræðin til snyrtilega hugmynd, að með verkskiptum milli einstaklinga, samfélaga og þjóða batnaði hagur allra. Alþjóðahyggja síðustu áratuga, grunnurinn var lagður eftir seinna stríð, byggir á þessari hugsun. Bandaríkin urðu heimamarkaður alþjóðahagkerfisins en á móti var eina alþjóðamyntin bandarískur dollar. Bandaríkin létu sér vel líka að frjáls viðskipti leiddu til verksmiðjulokana og nánast afiðnvæðingar.
Bandaríkin sem heild uxu og döfnuðu í alþjóðhyggjunni með frjálsa verslun í öndvegi. Um síðustu aldamót fór aftur að bera á verulegu ójafnvægi í auðlegð þjóðarinnar. Verkamenn og lægri millistétt sátu uppi með verri lífskjör en sérfræðingar og efsta lag millistéttarinnar bættu hag sinn. Þeir ofurríku léku við hvurn sinn fingur - gera það yfirleitt í borgaralegu hagkerfi.
Trump fékk fyrst kjör 2016 til að leiðrétta frjálsa heimsverslun og alþjóðahyggju, setja bandaríska almannahagsmuni í forgang. Aftur fékk hann kjör 2024 á sömu forsendum. Núna leggur Trump til atlögu. Upplýsandi 25. mín. myndband útskýrir tollastefnu Trump, bæði í sögulegu alþjóðlegu samhengi og sérbandarísku.
Myndbandið segir ekki hvort uppstokkun Trump á alþjóðahagkerfinu muni heppnast. Enginn veit afleiðingarnar af tollastríðinu sem Trump efnir til. Óvissutími er framundan. Ekki aðeins í heimsviðskiptum heldur alþjóðamálum í heild sinni. Tilfallandi leyfir sér þann spádóm að tollastefna Trump verði innan fárra mánaða ekki talin ,,algjör jaðarskoðun." Valdi fylgir sannfæringarkraftur, bandaríska forsetavaldið vegur þungt. Að því sögðu er hvergi nærri gefið að viðtekin verði Trump-sannindi í hagfræðibókum. Trump-tollar gætu verið samningatækni fremur en viðleitni að blása lífi í merkantílisma. Bandaríkjastjórn býður upp á samtal um gagnkvæmni í tollamálum, en mun ekki hverfa til fyrra fyrirkomulags. Breytingar verða, opin spurning hve róttækar.
Bjartsýn spá er að í tíma munu helstu hagaðilar, stærstu efnahagsveldin s.s. Bandaríkin, Kína og ESB, ná samkomulagi um hóflega tolla er kæfa hvorki skynsamlega verkskipti né friðsamleg viðskiptasambönd á alþjóðavísu. Efnahagssamdráttur, að ekki sé sagt kreppa, gæti þó orðið hlutskipti margra hagkerfa, það bandaríska ekki undanskilið. Spennið beltin og haldið ykkur fast.
![]() |
Hin dæmalausa formúla Trumps útskýrð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning