Laugardagur, 5. apríl 2025
Sigríður Dögg sendir Flóka í Spursmál
Formaður Blaðamannafélags Íslands, Sigríður Dögg Auðunsdóttir, treysti sér ekki að mæta í Spursmál til að ræða byrlunar- og símamálið. Í staðinn sendir Sigríður Dögg lögmanninn Flóka Ásgeirsson.
Í haust mætti Flóki með þeim Þóru Arnórsdóttur og Aðalsteini Kjartanssyni í pallborð á Vísi til að ræða byrlunar- og símamálið.
Staða blaðamanna almennt, fyrrum sakborninga í byrlunar- og símamálinu sérstaklega, er með þeim hætti að blaðamenn senda lögmann á opinberan vettvang að tala sínu máli. Vörn blaðamanna er ekki fagleg og byggð á siðareglum stéttarinnar heldur lagatæknileg. Blaðamenn sem fela sig á bakvið lögmann til að ræða fagleg álitamál eru málefnalega gjaldþrota.
Í Spursmálum í gær viðurkenndi Flóki (viðtalið hefst 1:03:56) að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis hafi fulla heimild til að setja á stofn rannsóknanefnd til að komast til botns í byrlunar- og símastuldsmálinu.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis er með byrlunar- og símamálið til meðferðar að ósk Páls skipstjóra Steingrímssonar sem blaðamenn þriggja miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans gerðu að skotmarki. Skipstjóranum var byrlað, síma hans stolið og færður Þóru Arnórsdóttur á RÚV. Síminn var afritaður á Efstaleiti en RÚV birti enga frétt. Stundin og Kjarninn sáu um að birta fréttir með vísun í gögn úr síma skipstjórans. Þáverandi ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, núverandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingar, viðurkenndi að lögbrot hefðu verið framin í aðdraganda fréttaöflunar.
Æ fleiri átta sig á að meðan byrlunar- og símamálið er óupplýst er íslensk blaðamannastétt á skilorði. Blaðamennska hér á landi er í felum, fjarvera formanns Blaðamannafélagsins frá Spursmálum staðfestir þrotastöðuna. Trúverðugleiki stéttarinnar verður ekki endurreistur fyrr en stærsta hneyksli íslenskrar fjölmiðlunar er upplýst.
![]() |
Spursmál: Trump og Kristrún setja allt í uppnám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning