Föstudagur, 4. apríl 2025
ESB-aðild Íslands úr sögunni eftir Trump-tolla
Ef Ísland væri í Evrópusambandinu yrðu bandarískir tollar á íslenskar vörur 20 prósent. Það sem verra er færi ESB með samningsumboð Íslands gagnvart Bandaríkjunum. Ísland nýtur lágmarkstolla, tíu prósent, og semur beint við Bandaríkin. Þar skilur á milli feigs og ófeigs.
Yfirlýsing Trump um breytta tolla er stórpólitísk. Þjóðhyggja framar alþjóðahyggju er rauði þráðurinn. Í fyrirsögn yfirlýsingarinnar er talað um fullveldi og þjóðaröryggi. Til skamms tíma voru Bandaríkin merkisberar alþjóðahyggju. Ekki lengur, fullveldi og þjóðhyggja eru í forgrunni. Hornsteinn alþjóðahyggjunnar var frjáls viðskipti. Nánast á einni nóttu er hornsteinninn malaður mélinu smærra.
Afleiðingarnar fyrir alþjóðasamfélagið eru ófyrirséðar. Hitt er deginum ljósara að alþjóðahyggja síðustu áratuga er liðin undir lok. Þar sem áður voru bandalög og alþjóðasamningar koma núna stórveldahagsmunir. Í þeim veruleika er ESB hvorki né.
Burtséð frá pólitíkinni er Trump-tollmúrinn stórmerkileg hagfræðitilraun. Tollarnir eiga að skila 728 milljörðum dollara í tekjur, skapa 2,8 milljónir starfa og auka rauntekjur bandarískra heimila um 5,7%. Gengur það eftir? Enginn veit. Stefnumótunin, að Bandaríkin séu ekki lengur heimamarkaður alþjóðahagkerfisins, mun aftur setja öll ríki, sem selja til Bandaríkjanna, í aðra og veikari stöðu en áður.
Daði Már fjármálaráðherra og ESB-sinni er fremur hjárænulegur í viðtengdri frétt. Þar segir:
Daði segir of snemmt að segja til um hvort það komi til með að hafa áhrif á hugsanlegar aðildarviðræður Íslands við ESB, að lönd innan sambandsins hafi fengið á sig 20% tolla, segir Daði of snemmt að segja til um það.
Daði Már gerði vel í að líta á landakort. Ísland er á milli Bandaríkjanna og ESB-Evrópu. Burtséð frá tollum og viðskiptum er Ísland miðjan á svæði, sem Bandaríkin miða þjóðaröryggi sitt við, og kallast GIUK-hliðið, Grænland-Ísland-Bretland.
Kjarni málsins er að ESB-aðild myndi færa okkur efnahagslega örbirgð annars vegar og hins vegar yrðum við bitbein stórveldahagsmuna, Bandaríkjanna og ESB-Evrópu.
Við núverandi aðstæður í alþjóðamálum jaðrar við landráð að tala fyrir ESB-aðild Íslands.
![]() |
Höfðu ekki ímyndunarafl í svona mikinn mun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning